Lög um fiskeldi – Verðmæti eldisleyfa Fiskeldis Austfjarða

Að þessu var stefnt

Vissulega gerðu sumir sér grein fyrir að hverju var stefnt á þessum tíma.  Í fundargerð stefnumótunarhópsins frá 14.7.2017 kemur vel fram hvert menn voru að fara: „Ákveðið að nefndarmenn fái sendar glærur og áhættumatsskýrslu eftir klukkan 14 þegar hlutabréfamarkaði í Noregi hefur verið lokað“. Hækkun í hafi með að skrá félögin á erlendan hlutabréfamarkað var því er virtist búið að ákveða á þessum tímapunkti og jafnvel töluvert fyrr. Í október 2017 koma áhugaverð frétt í Fréttablaðinu tæpum tveimur mánuðum eftir að stefnumótunarskýrslan var gefin út.  Þar kemur fram að Midt-Norsk Havbruk greiði að lágmarki 965 milljónir fyrir ný hlutabréf í Fiskeldi Austfjarða en ef fyrirtækið fær leyfi til aukinnar framleiðslu á næstu árum gæti kaupverðið hækkað í allt að 3,9 milljarða króna.

Verðmæti eldisleyfa

Á árinu 2018 var byrjað að benda á mögulegan ofsagróða af sölu eldisleyfa í nokkrum íslenskum fjölmiðlum. Fram kom að verðmæti eldisleyfa laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila gætu verið frá u.þ.b. 1,5 til 3 milljónir króna á hvert tonn. Um það má deila hvort verðmæti eldisleyfa séu raunverulega þetta mikil.  Í því sambandi má nefna að Ísland hefur verið á jaðarsvæði fyrir sjókvíaeldi á laxi en með væntanlegu hækkandi sjávarhita verða eldisleyfin verðmætari. Laxeldið í sjókvíum hefur verið að færast norðar með hækkandi sjávarhita og Ísland því eitt af þeim svæðum sem hefur vakið áhuga erlendra fjárfesta.

Heimilaður lífmassi

Fiskeldi Austfjarða hefur leyfi fyrir 18,500 tonna hámarks lífmassa af frjóum laxi og 2,300 tonn af ófrjóum laxi, samtal 20.800 tonn.  Í umsóknarferli eru 17.000 tonna hámarks heimilaður lífmassi og ef þau fást eru eldisleyfin orðin samtals 37.800 tonn. Fiskeldi Austfjarða ætti þá að geta framleitt um 50.000 tonn á ári.

Verðmæti Fiskeldis Austfjarða

Um sumarið 2021 voru verðmæti hlutabréfa Fiskeldis Austfjarðar um 36 milljarða íslenskra króna  og þarf af verðmæti eldisleyfa u.þ.b. 25 milljarða íslenskra króna.   Verðmæti eldisleyfa eru því um 1,2 milljón króna á tonn (25 milljarðar króna/20.800 tonn) eða um 650 milljónir króna á tonn ef teknar eru einnig með framleiðsluheimildir sem eru í umsóknarferli. Höfundur hefur ekki aðgengi að jafn góðum gögnum og forsvarsmenn Fiskeldis Austfjarða og geta þeir komið með nákvæmara verðmat á eldisleyfum. Verðmæti eldisleyfa Arnarlax eru áætluð 1,6 milljón krónur á tonn.  Munur á verðmætum eldisleyfa fyrirtækjanna kann að einhverju leiti að stafa af því að leyfi fyrir ófrjóan lax eru verðlögð lægra og  meðalsjávarhiti nokkuð hærri á Vestfjörðum og umhverfisaðstæður að því leiti betri en á Austfjörðum.   

Tryggja sér eldissvæði með óraunhæfum ófrjóum eldislaxi

Með að setja hindranir með ákvæði í lögum um fiskeldi að hægt væri að halda eldissvæðum fyrir  ófrjóan lax a.m.k. í fimm ár, gaf m.a. Fiskeldi Austfjarða möguleika að halda sínum svæðum, án þess að nýta svæðið til eldis eða greiða af þeim auðlindagjald.  Það áhugaverða í þessu samhengi er að eldi á ófrjóum laxi hefur verið í þróun í áratugi og ekkert sem bendir til að ljúki á næstu árum. Þessi hindrun var sett m.a. til að verja hagsmuni stjórnarformanna Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða sem voru í stefnumótunarhópnum og settu leikreglurnar sjálfum sér og sínum til fjárhagslegs ávinnings.  

Auknar heimildir

Til að geta nýtt 17.000 tonna eldisleyfi í umhverfismatsferli til eldis á frjóum löxum þarf að auka heimildir í áhættumati erfðablöndunar. Eins og fram hefur komið í fyrri greinum er áhættumat erfðablöndunar úthlutunarkerfi fyrir laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila og hefur lítið sem ekkert með umhverfismál að gera. Áhættumat erfðablöndunar er endurskoðað að lágmarki á þriggja ára fresti og staðan getur því verið sú að Fiskeldi Austfjarða getur verði með eldisleyfi fyrir frjóa laxa að verðmæti um 45 milljarða króna jafnvel eftir nokkur ár.  

Ávinningur við sölu

Eins og bent var á í fyrri grein var verðmæti eldisleyfa Arnarlax áætlað um 60 milljarðar króna og verðmæti eldisleyfa þessara tveggja fyrirtækja gætu því hugsanlega numið allt að 105 milljörðum króna.  Að sjálfsögðu er ávinningurinn ekki í hendi fyrr en við sölu.  Upphaflegir fjárfestar sem ekki eru búnir að selja geta tekið út mikinn ávinning með að selja strax.  Það er alltaf tekin áhætta með að bíða með sölu á hlutabréfum, láta reyna á rekstrarforsendur með aukinni samkeppni og lækkandi markaðsverði á laxi í framtíðinni.

  PDF skjal af greininni sem birtist í Morgunblaðinu