Framleiðsla

Framleiðsla á síðustu öld

Um miðjan níunda áratuginn jókst áhugi fyrir fiskeldi og byggðar voru fjöldi fiskeldisstöðva á seinni hluta hans. Samfara því átti sér stað mikil framleiðsluaukning og fór framleiðslan úr um 150 tonnum árið 1985 upp í um 3.000 tonn á árinu 1990. Á þessum árum byggðist framleiðslan einkum á laxi og regnbogasilungi. Á tíunda áratug síðustu aldar ríkti stöðnun í greininni og flest árin var heildarframleiðslan á bilinu 3.000- 4.000 tonn. Sú grein fiskeldis sem var í mestum vexti var eldi á bleikju og fór framleiðslan úr um 70 tonnum árið 1990 upp í um 900 tonn á árinu 1999.

Framleiðsla á 21 öld

Áhugi fyrir fiskeldi jókst mikið í byrjun aldarinnar og leiddu stóru sjávarútvegsfyrirtækin þróunina. Á árinu 2006 fór framleiðslan í um 10.000 tonn. Þar af komu tæp 7.000 tonn úr laxeldi en eftir að það lagðist framleiðsla á laxi því sem næst af á tímabili. Umtalsverð aukning varð í framleiðslu á eldisfiski á síðasta áratug. Alls var slátrað um 34.000 tonnum af eldisfiski á árinu 2019. Aukninguna má að langmestu leyti rekja til slátrunar á eldislaxi, sem hefur farið úr tæpum 1.100 tonnum árið 2010 í tæp 27.000 tonn árið 2019.

Upplýsingar um framleiðslu

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi er með upplýsingasíðu er nefnist Radarinn – Mæliborð sjávarútvegsins og þar er hægt að sækja upplýsignar um framleiðslu í fiskeldi. Upplýsingar um framleiðslu í fiskeldi er einnig hægt að sækja á vef Hagstofu Íslands.