Flokkast íslenska leiðin undir spillingu?

Í skýrslu starfshóps forsætisráðherra frá 2018 um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu kemur m.a. fram er varðar að vinna gegn spillingu á lágu stigi að mikilvægt er að gæta sérstaklega að þremur þáttum í samskiptum við hagsmunaaðila:

  • Vera hafið yfir allan vafa að jafnræði ríki um aðkomu hagsmunaaðila.
  • Tryggja að ekki sé hægt að halda því fram að sérhagsmunir séu teknir fram yfir almannahagsmuni.
  • Ríkja gagnsæi um aðkomu hagsmunaaðila, þar á meðal um samskipti við ráðherra, þingmenn og opinbera starfsmenn. 

Drifkrafturinn

Drifkrafturinn við uppbyggingu sjókvíaeldis á Íslandi hefur verið að ná fjárhagslegum ávinningi á kostnað umhverfis og samfélags.  Málið snýst m.a. um að stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða komu sér í starfshóp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi og hafa verið leiðandi við hönnun á leikreglum, skjalfest í lögum um fiskeldi, sjálfum sér og sínum fyrirtækjum til fjárhagslegs ávinnings á kostnað annarra.

Er jafnræði á meðal fiskeldismanna?

Stjórnarformennirnir voru í umboði Landssambands fiskeldisstöðva en héldu þó framgangi vinnunnar leyndri fyrir stjórn félagsins fram á síðustu stund. Niðurstaðan var að hagsmunum stærri laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila voru tryggðir og hagsmunum minni íslenskra fiskeldisfyrirtækja fórnað.  Hér vakna margar áleitnar spurningar um vinnubrögð, siðferði og þau átök sem áttu sér stað hjá Landsambandi fiskeldisstöðva og hvaða reglur eiga að gilda um samstarf félaga innan samtaka.  

Sérhagsmunir og almannahagsmunir

Við skipan stefnumótunarhópsins var aðeins þröngur hópur sérhagsmunaaðila ásamt opinberum starfsmönnum.  Í vinnu hópsins eru sérhagsmunir teknir fram yfir almannahagsmuni, þar sem drifkrafturinn er að tryggja hagsmuni stærri laxeldisfyrirtækja og stærri veiðifélaga. Fulltrúum almennings s.s. sveitafélaga var haldið frá og lítið sem ekkert tekið tillit til þeirra athugasemda og ábendinga í ferlinu fram að því að lögin voru samþykkt.

Gagnsæi og ráðuneytið

Fiskeldisfrumvarpið var ekki að taka á grunni vandans sem var í raun framferði fyrirtækja stjórnarformannanna sem áður hefur verið gert grein fyrir í fyrri greinum. Það hljómar síðan einkennilega að stjórnarformennirnir urðu síðan í framhaldinu helstu ráðgjafar stjórnvalda. Einhverja hluta vegna hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki unnið sína heimavinnu með því að leggja fram ónothæft fiskeldisfrumvarp, sem þurfti að gera verulegar breytingar á í meðferð Alþingis. Þessi vinnubrögð vekja mann til umhugsunar um þau vinnubrögð sem eru viðhöfð í stjórnsýslunni.

Gagnsæi og tengsli

Formaður stefnumótunarhópsins var lögfræðingur í ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar stefnumótunarskýrslan var unnin.  Nú virðist viðkomandi m.a. vinna fyrir stjórnarformann Arnarlax. Starfsmaður stefnumótunarhópsins vann jafnframt í fyrirtæki stjórnarformanns Arnarlax og hafði aðstöðu í ráðuneytinu á meðan unnið var að stefnumótunarskýrslunni. Hér vakna margar áleitnar spurningar um hagsmunatengsli og möguleika sterkra hagsmunaaðila að hafa áhrif á vinnu og ákvörðunartöku í stjórnsýlunni.  

Gagnsæi og hagsmunapot

Það er ekki hægt að segja annað en stjórnarformennirnir hafi unnið sína heimavinnu sér til hagsbóta á meðan á stefnumótunni stóð og fylgja síðan tillögunum eftir í ráðuneytinu og á Alþingi Íslendinga.  Hér má velta fyrir sér hvaða reglur gilda og hvaða reglur eiga að gilda um aðgengi fjársterkra hagsmunaaðila að stjórnmálamönnum og starfsmönnum stjórnsýslunnar. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með framgöngu hagmunaaðila og sjá hve langt þeir hafa í raun geta komist í sínu hagsmunapoti – Það er áhyggjuefni hve faglegum vinnubrögðum er ábótavant í stjórnsýslunni.

Það er ekki búið að klára málið

Það má segja Alþingi til hróss að það stoppaði af sumar tillögur stefnumótunarhópsins en of margar komust þó í gegn og þannig var stjórnarformönnunum tryggður fjárhagslegur ávinningur.  Vandamálið er þó að Alþingismenn höfðu ekki sett sig nægilega vel inn í málið og ekki alveg gert sér grein fyrir hverju þeir voru að hleypa í gegnum þingið. Alþingismenn höfðu nægan tíma þar sem fiskeldisfrumvarpið var fyrst lagt fram á þing árið 2018 og aftur lítið breytt árið 2019. Málinu er því ekki lokið og mun birtast í umræðunni á næstu mánuðum og árum.

Íslenska leiðin

Í fyrri greinum hefur var gerð grein fyrir því hvernig hagsmunaaðilar unnu að því að tryggja sér fjárhagslegan ávinning á kostnað annarra og endastöðin var að koma laxeldisfyrirtækjunum á erlendan hlutabréfamarkað.  Í því samhengi má benda á frétt um Arnalax í Morgunblaðinu frá 11. janúar, en sumir hluthafar hafa tekið út verulegan fjárhagslegan ávinning.   Mörgum finnst eflaust að vinnubrögðin séu ásættanlega, þetta er bara íslenska leiðin. Draga má það þó stórlega í efa að íslenska leiðin geti viðgengist í þróuðum lýðræðis ríkjum sem við viljum oft bera okkur saman við.

Höfundur hefur farið fram á að gerð verði opinber úttekt á málinu en fram að þessu hefur það verið hunsað.  

Birt í Morgunblaðinu 25.05.2020