Lög um fiskeldi – Að fanga ríkisvaldið og ná fjárhagslegum ávinningi

Málið varðar vinnubrögðin við undirbúning og gerða laga um fiskeldi þar sem fjársterkir hagsmunaaðilar mótuðu leikreglurnar sjálfum sér og sínum til fjárhagslegs ávinnings. Hinn 17. október 2019 var birt auglýsing í Morgunblaðinu þar sem kallað var eftir opinberri úttekt á þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð við undirbúning og gerð laga um fiskeldi.  Samtals voru birtar fjórar auglýsingar án þess að það skilaði árangri.  Áður hafði m.a. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþings verið sent bréf þar sem vakin var athygli nefndarinnar á vinnubrögðum starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi, en lög um fiskeldi sem samþykkt voru árið 2019 byggist að mestu á tillögum starfshópsins.

Auðlindin

Margir firðir á Íslandi gefa gott skjól til sjókvíaeldis og eru að því leiti auðlind sem bæði getur þegar vel tekst til skapað atvinnutækifæri og auknar útflutningstekjur. Framan af hafa íslenskir firðir verið lítið nýttir til sjókvíaeldis sem rekja má til þess að umhverfisaðstæður eru erfiðari en í samkeppnislöndum þar sem umfangsmikið eldi hefur verið byggt upp. Erfitt hefur verið að fá ný svæði til sjókvíaeldis í nágrannalöndum sem m.a. hefur aukið áhuga erlenda aðila að koma að uppbyggingu sjókvíaeldis á jaðarsvæðum eins og við Íslandi.

Að undirbúa jarðveginn

Það vakti athygli á árinu 2016 ásækni sumra íslenskra frumkvöðla að ,,helga sér svæði“,  Arnarlax og Fiskeldi Austfjarða með um 125.000 tonna framleiðsluheimildir til laxeldis í stjórnsýslunni.  Þessi tvö fyrirtæki voru með um 70% framleiðsluheimilda til laxeldis mest umsóknir sem voru í ferli hjá stjórnsýslunni.  Stjórnarformenn þessara tveggja fyrirtækja komu að undirbúningi og gerð laga um fiskeldi til að tryggja sér og sínum fyrirtækjum fjárhagslegan ávinning eins og grein hefur verið gerð fyrir í greinum í Morgunblaðinu.  Uppleggið hefur verið að ásælast eldissvæði og selja síðan til erlendra aðila með hagnaði.   Til að gera það mögulegt þurfti áður að undirbúa jarðveginn.

Að fanga ríkisvaldið

Bent hefur verið á að sú leið sem var valin af fjársterkum hagsmunaaðilum við undirbúning og gerð laga um fiskeldi sé nefnd að fanga ríkisvaldið (e. state capture).  Þekkt aðferðafræði í spilltum og vanþróuðum ríkjum. Aðferðafræðinni var beitt af forsvarsmönnum laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila þar sem vasast var í stefnumótun stjórnvalda og leikreglur mótaðar til að þjóna eigin hagsmunum og gefa sjálfum sér þannig einstakt forskot á við aðra á markaði.  Samin var ,,Skýrsla starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi“ með hagstæðum tillögum fyrir stjórnarformennina sem gengið var með í gegnum stjórnsýsluna. Í þessu máli voru  taparar m.a. minni íslensk fiskeldisfyrirtæki og sveitafélög. 

Þáttur alþingismanna

Einhver hrossakaup virðast hafa átt sér stað á Alþingi Íslendinga.  Lög um fiskeldi komust í  gegn með 50,8% atkvæða stjórnarþingmanna og einu atkvæði frá stjórnarandstöðunni. Enginn þingmaður greiddi atkvæði á móti lögunum og stjórnarandstaðan tók þá ákvörðun að greiða ekki atkvæði.  Öllum þingmönnum var sendur tölvupóstur 20.05.2019 með gögnum þar sem bent var á fjölmarga annmarka laga um fiskeld, en takmarkað var tekið tillit til þessara ábendinga við afgreiðslu málsins.  Alþingismenn eru aðilar málsins og ekki að vænta mikils framgangs fyrr en með nýjum mönnum á þinginu. Til að vera sanngjarn má þó benda á að fiskeldisfrumvarpið var bætt töluvert í meðferð Alþingis án þess þó að taka af alla verstu vankantana.  

Jákvæða hliðin ræður miklu

Haft skal í huga að það er margt jákvætt við uppbyggingu laxeldis í sjókvíum á Íslandi, eins og streymi fjármagn til landsins og auknar útflutningstekjur sem hefur eflaust ráðið miklu við ákvarðanatöku í stjórnsýslunni.  Horft hefur verið til þess að flæði erlends fjármagns inn í lítil viðkvæm samfélög hafa mjög jákvæð áhrif a.m.k. til skamms tíma. Eflaust koma sumir erlendir aðila inn í íslenskt laxeldi með góðum huga og eru að leggja sína fjármuni í áhættusöm áform. Það sem er verið að gagnrýna er fyrst og fremst vinnubrögð íslensku frumkvöðlanna sem hafa eflaust fengið stuðning frá sumum erlendum fjárfestum enda miklir fjárhagslegir hagsmunir undir.

Hve miklu hefur verið halað inn?

Í fundagerðum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi frá árinu 2017 var rætt um verðmat á laxeldisfyrirtækjum.  Á þessum tíma var að koma að því að birta ætti áhættumat erfðablöndunar sem er með það meginhlutverk að úthluta framleiðsluheimildum til laxeldisfyrirtækja í meirihluta erlendra aðila.  Í fundagerð starfshópsins frá 14.07.2017 þar sem áhættumat erfðablöndunar var kynnt kemur m.a.. fram: ,, Ákveðið að nefndarmenn fái sendar glærur og áhættumatsskýrslu eftir kl. 14 þegar hlutabréfamarkaður í Noregi hefur lokað”.  Fjallað hefur verið í fjölmiðlum um ávinning af einstökum sölum á eignarhluta í laxeldisfyrirtækjum.  Fróðlegt væri ef fjölmiðill tæki það að sér og upplýsa um heildar ávinning einstakra aðila og þá sérstaklega í tilfelli þeirra sem sömdu leikreglurnar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23.10.2020