Áhættumat erfðablöndunar og mótvægisaðgerðir

Mótvægisaðgerðir geta verið fjölmargar; tryggja sjálfbærni villta laxastofna eins og fjallað var um í fyrri grein og aðgerðir sem má skipta niður í  fyrsta og annað þrep mótvægisaðgerða:

  • Fyrsta þrep mótvægisaðgerða sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir að eldislax sleppi úr eldiskvíum. 
  • Annað þrep mótvægisaðgerða sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir að eldislax sem sleppur nái að hrygna í veiðivötnum.

Ein besta mótvægisaðgerðin, sem reyndar hefur verið í gildi í tæp tuttugu ár, er að staðsetja laxeldi í sjókvíum á svæðum þar sem er tiltölulega lítil laxveiði.

Fyrsta þrep mótvægisaðgerða

Mótvægisaðgerðir sem lagðar eru til í Áhættumati erfðablöndunar skv. skýrslu Hafrannsóknastofnunnar frá árinu 2017 eru haldlitlar og í sumum tilvikum jafnvel skaðlegar ef þeim verður komið í framkvæmd. Framan af voru mótvægisaðgerðir bundnar við eldissvæðið; kröfur um búnað, verklaga o.fl. Hér er um að ræða fyrsta þrep mótvægisaðgerða sem framkvæmt er af eldisfyrirtæki sem eitt og sér mun ekki verða nægilegt til að halda umhverfisáhrifum innan ásættanlegra marka samfara uppbyggingu á umfangsmiklu laxeldi hér á landi.   Norðmenn eru búnir að komast að þeirri niðurstöðu að fyrsta þrep mótvægisaðgerða á eldissvæði er ekki nægilegt og hafa því virkja annað þrep mótvægisaðgerða.

Hvernig hefur til tekist á Íslandi

Samþykkt var með lögum á Alþingi Íslands á árinu 2014 upptaka á norska búnaðarstaðlinum NS 9415:2009 sem gerir miklar kröfur um styrkleika búnaðar.  Miklar vonir voru bundnar við að með þessum staðli mætti draga verulega úr slysasleppingum.  Það kemur þó verulega á óvart að slysasleppingar hér á landi sem rekja má til búnaðar eru hlutfallslega algengari en í Noregi þrátt fyrir að sömu kröfur eigi að gilda í þessum tveimur löndum. Þetta veldur áhyggjum og þyrfti að skoða sérstaklega en verður ekki fjallað nánar um í þessari grein.

Annað þrep mótvægisaðgerða

Það er ekki gert ráð fyrir öðru þrepi mótvægisaðgerða í fyrstu útgáfu Áhættumats erfðablöndunar með að hindra uppgöngu með gildru eða fjarlægja eldislax úr veiðiám fyrir hrygningu og þannig horft fram hjá því sem best þekkist erlendis. Í annari útgáfu Áhættumats erfðablöndunar er þó opnað fyrir öðru þrepi mótvægisaðgerða við stórar slysasleppingar án þess að skilgreina hvað sé stór slysaslepping.  Annað þrep mótvægisaðgerða er utan lögsögu eldisfyrirtækis en í Noregi er fenginn óháður aðili til að fjarlægja eldisfisk úr veiðiám en fjallað verður betur um það þegar tekin verða fyrir viðbrögð við slysasleppingum.

Tvískipt kerfi

Áður fyrr var lögð áhersla á það í Noregi að telja fjölda eldislaxa og villtra laxa í veiðiám, mæla og fylgjast með án þess að fjarlægja eldisfiskinn.  Á síðustu árum hefur það verklag verið viðhaft að allur sjáanlegur eldislax er fjarlægður úr fjölmörgum veiðiám, sérstaklega með háu hlutfalli eldisfisks.  Verkefninu við að fjarlægja eldislax úr veiðiám í Noregi má til einföldunar skipta í eftirfarandi:

  • Þekktur uppruni: Fjarlægja eldislaxa af þekktum uppruna úr veiðiám og er framkvæmt af óháðum fagaðila sem Fiskistofa samþykkir en aðgerðir fjármagnaðar af eiganda strokulaxins.
  • Óþekktur uppruni: Fjarlægja eldislax af óþekktum uppruna úr veiðiám sem yfirleitt er framkvæmt af óháðum fagaðila og kostað af sjóði sem eldisfyrirtækin fjármagna.

Þekktur uppruni

Ef slysaslepping á sér stað í Noregi virkjar viðkomandi eldisfyrirtæki strax veiðar á eldislaxi innan 500 metra frá sjókvíaeldisstöð. Fiskistofa getur síðan aukið heimildir til veiða í sjó bæði hvað varðar stærð svæða og tímalengd. Í mörgum tilvikum gerir Fiskistofa þær kröfur að eldisaðili fjármagni vöktun og fjarlægja eldislaxa úr nærliggjandi veiðiám. Hve margar veiðiár þarf að vakta leggur Fiskistofa mat á hverju sinni og hefur eldisaðila verið gert skylt að fjármagna vöktun og að fjarlægja eldislax í allt að 20 veiðiám í nágrenni við sleppistaðinn. Til verksins er fenginn óháður fagaðili. Fiskistofa birtir síðan skýrslur óháðs fagaðila um niðurstöður aðgerða á vefsíðu sinni (https://www.fiskeridir.no/).

Kröfur um annað þrep mótvægisaðgerða eru alltaf að aukast í Noregi og ná þær nú einnig til slysasleppinga í landeldi. Í tilfelli slysasleppinga laxaseiða í seiðaeldisstöðum hefur rekstraraðilum verið gert skylt að fjármagna vöktun og að fjarlægja eldislax úr veiðiám í allnokkrum tilfellum.  

Óþekktur uppruni

Á síðustu árum hefur verið farið í ákveðinn fjölda laxveiðáa og eldislax fjarlæður um haust fyrir hrygningu.   Fiskeldisfyrirtækin greiða gjald til sjóðs (http://utfisking.no) og kostar hann verkefni við að fjarlægja lax úr veiðiám. Oft eru það óháðir fagaðilar sem sjá um að fjarlægja eldislax úr veiðiám, en einnig eru það veiðiréttareigendur og leigutakar.  Á árinu 2019 voru um 1.000 eldislaxar fjarlægðir úr 37 veiðiám og tókst að fjarlæga um 85% af eldislaxinum sem áður höfðu komið fram í vöktun. Heimild frá stjórnvaldi þarf til að fara í veiðiár og unnið hefur verið með eigenda laxveiðiánna.

Við veiðarnar er notaður skutull (harpun), stöng, gildra og nót. Það er misjafnt hvernig tekst til við að fjarlægja eldislax úr veiðiár af ýmsum ástæðum. Árangurinn er þó umtalsverður og hefur tekist að lækka hlutfall eldislaxa undir 4% í flestum veiðiár þar sem farið var í aðgerðir á árunum 2016-2019. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni  utfisking.no

Hér er hægt að sækja PDF skjal úr Bændablaðinu