Áhættumat erfðablöndunar – Hver passar upp á íslenska náttúru?

Málið varðar Áhættumat erfðablöndunar sem fyrst var gefið út af Hafrannsóknastofnun árið 2017 og endurskoðað árið 2020.  Um 1.000 eldislaxar voru fjarlægðir úr norskum laxveiðiám á síðasta ári.

Tryggja fjárhagslega hagsmuni

Áhættumat erfðablöndunar virðist ganga út á að tryggja fjárhagslega hagsmuni laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlenda aðila en hefur mjög takmarkað ef nokkuð með umhverfisvernd að gera. Skv. endurskoðuðu áhættumati á að auka framleiðsluheimildir til eldis á frjóum eldislaxi. Fáir hafa lagt í að stíga fram og gera athugasemdir við Áhættumat erfðablöndunar. Af skiljanlegum ástæðum stíga forustumenn laxeldisfyrirtækja ekki fram með gagnrýni enda eru mjög miklir hagsmunir undir ef Áhættumat erfðablöndunar verður fellt úr gildi. 

Áhættumat erfðablöndunar til að stjórna framleiðsluheimildum

Laxeldisfyrirtæki fóru offari að sækja um framleiðsluheimildir fyrir laxeldi í sjókvíum. Áhættumati erfðablöndunar var ætlað að hemja uppbyggingu eldis á frjóum laxi og var á árinu 2017 komið með tillögur sem voru samþykktar á Alþingi árið 2019 þar sem var lagt til 71.000 tonna framleiðsluheimildir.  Það kemur síðan á óvart að strax árið 2020 leggur Hafrannsóknastofnun til um 20% aukningu framleiðsluheimilda með að leika sér með forsendur, sem eru vafasamar eða beinlínis rangar.   Áður hefur verið fjallað um þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð við undirbúning og gerð laga um fiskeldi í Morgunblaðinu en hér verður lögð áhersla á að fjalla um þann skaða sem Áhættumat erfðablöndunar kann að valda á íslenskum laxastofum.

Ekkert áhættumat

Fyrsta mikilvæga atriðið við áhættumatsvinnu er að reyna að koma í veg fyrir, í þessu tilviki, erfðablöndun. Fara strax í að ,,byrgja brunninn áður en barnið fellur ofan í hann“ en ekki fara þá leið sem Áhættumati erfðablöndunar felur í sér að fylgjast með og ,,telja fjölda barna sem falla ofan í brunninn“ án þess að grípa strax til viðeigandi aðgerða. Ef markmiðið er að koma strax í veg fyrir skaða er rétta leiðin að setja ,,lok á brunninn“ með að hindra uppgöngu eldislaxa eða fjarlægja úr veiðivatni fyrir hrygningu.   Sérstakt áhyggjuefni er að Áhættumat erfðablöndunar hefur minna verndargildi en felst í þeim mótvægisaðgerðum sem best hafa reynst t.d. í Noregi.  Í Áhættumati erfðablöndunar er verið að verja stærri laxveiðiár og að fórna minni veiðivötnum með laxi.

Getur haft jákvæð áhrif

Það hefur verið heimilt að vera með eldi á frjóum norskum laxi í sjókvíum á Íslandi á ákveðnum svæðum í tæpa tvo áratugi.  Sjálfsögðu má taka umræðu um það hvort heimila eigi laxeldi í sjókvíum við Ísland en sú umfjöllun verður ekki tekið fyrir hér. Þó að samkeppnishæfni laxeldis í sjókvíum á Íslandi sé mjög erfið ef markaðsverð á laxi lækkar þá getur uppbygging á eldinu haft jákvæð áhrif á viðkvæm samfélög ef vandað er til verka.  Sú uppbygging má þó ekki vera á kostnað íslenskra náttúru, einfaldlega vegna þess að auðvelt er að koma í veg fyrir neikvæð áhrif eða halda í algjöru lágmarki.

Það þarf að bæta vinnubrögðin

Ef unnið verður áfram að uppbyggingu sjókvíaeldis á laxi eins og gert hefur verið á síðustu árum drifið áfram af aðilum sem hafa fjárhagslegan ávinning að leiðarljósi þá mun það hafa neikvæð áhrif á umhverfið og er það ekki eingöngu bundið við erfðablöndun.  Staðreyndin er sú að Íslendingar standa öðrum löndum að baki í umhverfismálum laxeldis í sjókvíum. Umhverfisvernd eða öflugum mótvægisaðgerðum getur fylgt verulegur kostnaður sem minnkar jafnframt fjárhagslegan ávinning laxeldisfyrirtækja. Fram að þessu virðist takmarkaður vilji hafa verið til að taka á þessu verkefni af atvinnugreininni og stjórnvöldum.  Ef menn fara ekki að gæta sín geta málin þróast í þann farveg að allt eldi á frjóum laxi í sjókvíum verði bannað á Íslandi eins og dæmi eru um erlendis.  

Í næstu greinum verður fjallað um vankanta Áhættumats erfðablöndunar og leiðir til að draga úr hættu á erfðablöndun.

Greinin birtist í Bændablaðinu 07.05.2020. Hægt er að sækja PDF skjal hér.