Lög um fiskeldi og ólígarkar

Í fyrstu greininni af sextán í Morgunblaðinu var komist þannig að orði ,,undirritaður mun sýna fram á í nokkrum greinum að framin hafa verið alvarlega stjórnsýslubrot þar sem stærstu laxeldisfyrirtæki Íslands höfðu mikla aðkomu að breytingu nýgerða fiskeldislaga“.  Í greininni var rakið hvað hafði verið gert til að reyna að vekja athygli stjórnmálamanna á málinu án þess að þeir hefðu fyrir því að svara eða þakka fyrir ábendingarnar. Ítrekað hefur verið farið fram á að gerð verði opinber rannsókn m.a. beiðni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og umboðsmanns Alþingis, án þess að það hafi skilað árangri.

Ólígarkar

Eftir að hafa skrifað nokkar greinar í Morgunblaðinu fékk ég þá ábendingu um það sem væri verið að fjalla um væri skilgreint ,,Að fanga ríkisvaldið” (e. state capture).  Í því sambandi var einnig bent á “í umbreytingarhagkerfum (e. transition economies), hefur spilling tekið á sig nýja mynd; – hinir svokölluðu klíkubræður, “ólígarkar“, vasast í stefnumótun stjórnvalda og móta jafnvel leikreglurnar sjálfir til að þjóna eigin hagsmunum og gefa sjálfum sér þannig einstakt forskot á við aðra á markaði“.

Stefnumótunin

Í greinunum hefur verið fjallað um hvernig íslenskir leppar erlendra fjárfesta hafa unnið með lobbíisma að ná miklum fjárhaglegum ávinningi m.a. að koma sér í þá stöðu að vera helstu ráðgjafar stjórnvalda við stefnumótun í fiskeldi.  Stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða voru í stefnumótunarhópnum þar sem fyrirhuguð stefnumótun stjórnvalda og atvinnugreinarinnar breyttist í að vera að stærstum hluta stefnumótun íslenskra leppa og erlendra fjárfesta.

Hindranir og tækifæri

Vinna íslenskra leppa í stefnumótunni hefur miðast við að setja hindranir eða koma í veg fyrir hindranir yrðu settar og í mjög stuttu máli má t.d. nefna:

 • Blokkera: Til að geta haldið svæðum var heimild gefin í lögum til að blokkera eldissvæði í a.m.k. fimm ár með það að yfirskyni að það eigi að hefja eldi á ófrjóum laxi – Þróun á ófrjóum laxi var búið að stunda í um 30 ár og ekkert sem bendir til að þeirri vinnu verði lokið á næstunni.
 • Erlent eignarhald: Með að koma í veg fyrir takmarkanir á erlent eignarhald laxeldisfyrirtækja var hægt að skrá þau á erlendan hlutabréfamarkað, auka eftirspurnina og ná miklum fjárhagslegum ávinningi.
 • Leiðin til ávinnings: Engar reglur um eignaraðild gáfu einum eða fáum erlendum aðilum möguleika að eignist meirihluta í laxeldisfyrirtækjunum, verðleggja hlutabréfin, selja síðan ákveðinn hluta bréfanna við skráningu á erlendan hlutabréfamarkað og eiga þannig möguleika ná til baka öllum þeim fjármunum sem búið var að leggja í félagið – og jafnvel eignast fyrirtækið án þess að leggja í raun neina fjármuni til þess.
 • Tryggja enn meiri ávinning: Unnið var á móti því að takmarkanir væru settar á stærð laxeldisfyrirtækja til að tryggja sem mestan fjárhagslegan ávinning.
 • Úthlutunarkerfi: Komið var á áhættumati erfðablöndunar sem úthlutunarkerfi fyrir laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila sem hefur ekkert eða lítið með umhverfisvernd að gera.

Fjárhagslegur ávinningur

Íslenskir leppar og erlendir fjárfestar hafa náð og geta náð enn meiri fjárhagslegum ávinningi:

 • Arnarlax getur verðið með eldisleyfi að verðmæti upp á rúma 60 milljarða króna.
 • Fiskeldi Austfjarða getur verðið með eldisleyfi að verðmæti um 45 milljarða króna.
 • Heildarverðmæti eldisleyfa laxeldisfyrirtækja gætu numið um 170 milljarða króna.

Framtíðarsýn

Það má gera ráð fyrir enn meiri ávinningi ef stjórnvöld fara ekki að vinna sína heimavinnu og engin breyting verður gerð.  Að óbreyttu getur framtíðarsýnin verið þessi:

 • Mismunandi stefna: Eldisleyfi til sjókvíaeldis á laxi verði að mestu í eigu útlendinga en á sama tíma er mikil andstaða og hindranir fyrir erlendri eignaraðild á sjávarútvegsfyrirtækjum, laxveiðiám og bújörðum.
 • Hagnaðurinn fluttur út: Erlendir fjárfestar sem fyrst komu að laxeldisfyrirtækjunum eignuðu sér auðlindina ,,Íslenskir firðir“ geta verið búnir að selja sín hlutabréf og ná miklum fjárhagslegum ávinningi sem byggist á verðmætum eldisleyfa.
 • Mikill slagkraftur: Laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila sameinuð í eitt fyrirtæki sem eru þá þrisvar sinnu stærra en Brim og hafa þannig mikinn slagkraft til að fá sitt fram bæði gagnvart litlum sveitafélögum og ríkisvaldinu.

Að lokum

Það sem einkennir þetta mál er að opinberir starfsmenn, stjórnmálamenn og aðrir hafa verið misnotaðir eða hreinlega blekktir og því eðlilegt að þeir vilji ekki vekja mikla athygli á málinu.  Uppbygging laxeldis á Íslandi hefur tekið mið af því að íslenskir leppar og erlendir fjárfestar nái sem mestum fjárhagslegum ávinningi.  Það sorglega er að viðgengist hafa vinnubrögð eins og tíðkast í vanþróuðum ríkjum.  Þó framgangurinn í þessu máli hafi verið lítill eða enginn verður haldið áfram að vekja athygli á því og koma ábendingum á framfæri til þeirra sem hafa vilja, vald og getu til að taka á spillingarmálum.