Erlent eignarhald í laxeldi og sjávarútvegi

Í skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi frá árinu 2017 var lagt til ,,að ekki verði settar sérstakar takmarkanir á erlent eignarhald í íslensku fiskeldi. Slíkar reglur myndu draga úr fjárfestingum erlendra aðila í fiskeldi hér á landi og þannig skapa óvissu um framþróun fiskeldis“.  Á þessum tíma voru laxeldisfyrirtæki með erlenda eignaraðild þá þegar komin í meirihlutaeigu útlendinga. Í rökstuðninginum var meðal annar bent á alþjóðlegar skuldbindingar að ekki væri heimilt að takmarka ,,fjárfestingar erlendra aðila á EES svæðinu“.   En er það þannig?

Ávinningurinn

Vinna stefnumótunarhópsins gekk út á að stærstum hluta að útbúa leikreglur sem tryggðu mikinn fjárhagslegan ávinning fyrir íslenska leppa og erlenda fjárfesta.  Stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða voru leiðandi í stefnumótunarhópnum og með því að koma í veg fyrir að sett yrði takmörkun á eignarhald erlendra fjárfesta var hægt að ná í ódýr leyfi fyrir hönd erlendra umbjóðenda:

  • Setja laxeldisfyrirtækin á erlendan hlutabréfamarkað, auka eftirspurnina og ná miklum fjárhagslegum ávinningi.
  • Einn eða fáir erlendir aðilar eignist meirihluta, verðleggja hlutabréfin, selja síðan ákveðinn hluta bréfanna við skráningu á erlendan hlutabréfamarkað og eiga þannig möguleika ná til baka öllum þeim fjármunum sem búið var að leggja í félagið.

Af hverju aðrar reglur fyrir laxeldi?

Í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri nr. 34/1991 er m.a. ákvæði um fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands sé eingöngu heimil fyrirtækum sem ekki eru í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé.  Skv. fyrirspurn á 150. löggjafaþingi (þingskjal 1720-539 mál) kemur fram að eignarhlutur erlendra aðila er mjög lítill í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.  Í þessu samhengi er einnig vert að benda á umfjöllun í fjölmiðlum þar sem hefur komið fram mikil andstaða við uppkaup erlendra aðila á laxveiðiám og landsvæðum m.a. af stjórnmálamönnum.  Af hverju eiga aðrar reglur að gilda um erlent eignaraðild í laxeldisfyrirtækjum? Í nágrannalöndum okkar eru oft ákvæði um takmarkað eignarhald útlendinga og í því samhengi má nefna Færeyjar þar sem það á bæði við um í sjávarútvegi og laxeldi.

Færeyska leiðin

Það er athyglisvert að að stefnumótunarhópurinn mælti  ,,jafnframt ekki með þeirri aðferð að takmarka atkvæðisrétt erlendra aðila í hlutafélögum eins og gert er í færeyskum hlutafélögum sem stunda fiskeldisstarfsemi“.  Nýlegavoru settar reglur um erlent eignarhald í laxeldisfyrirtækjum í Færeyjum, um 20% hámark á annaðhvort beint eða óbeint erlent eignarhald. Nú þegar er laxeldisfyrirtæki í Færeyjum í fullri eigu erlendra aðila eins og í tilfelli Mowi en reglurnar eru nú þannig að fyrirtækið hefur ekki möguleika að auka umsvif sín í sjókvíaeldi á laxi. Það má margt læra af nágrönnum okkar Færeyingum.

Vinna að sérhagsmunum

Stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða voru leiðandi í vinnu stefnumótahópsins og þeir sem leppar voru að gæta hagsmuna erlendra fjárfesta. Það kemur því ekki á óvart að unnið var á móti því að hömlur væru settar á erlent eignarhald. Jafnframt var líðið fjallað um í  stefnumótunarskýrslunni um fjárhagslegan ávinning fyrir þjóðarbúið eflaust vegna þess að fyrirséð var að fjárhagslegur ávinningur vegna verðlagningar á eldisleyfum og hugsanlegs arðs færi að mestu til erlendra fjárfesta.   Aftur á móti kemur það á óvart að ekki var tekið á þessu máli við skrifa laga um fiskeldi í ráðuneytinu eða á öðrum vettvangi. 

Engin umræða á þinginu

Eignarhald fékk enga efnislega umfjöllun á Alþingi Íslendinga og kann það að hafa eðlilegar eða óeðlilegar skýringar. Það átti sér stað mikill lobbíismi íslenskra leppa sem héldu fast að alþingismönnum ákveðnum sjónarmiðum í þágu erlendra fjárfesta. Í því sambandi má minna á ummæli á þinginu eins og ,,ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um að löggjöf eigi að miðast almennt við lagaumhverfi þeirra sem hún á að ná til en ekki með einhverjum krúsindúllum til að mæta einstaka fyrirtækjum sem lobbíast á Alþingi“. Jafnframt yfirgnæfði umræðan umhverfismál laxeldis og því e.t.v. ekki óvænt að alþingismenn misstu fókusinn frá þessu máli og öðrum sem skiptu miklu máli.

Það er búið að ráðstafa hagnaðinum

Í stefnumótunarskýrslunni kemur fram: ,,Þau rök hafa heyrst að hagnaður í fyrirtækjum sem lúta erlendri eignaraðild sé fluttur úr landi og eigendur ráðstafi honum erlendis og fjárfesti ekki hér á landi. Hvort þetta verður raunin á eftir að koma í ljós“. Leiðandi aðilar í stefnumótunarhópnum gerðu sér grein fyrir því að lykilinn að miklum fjárhagslegum ávinningi var að setja ekki takmörk á erlent eignarhald.  Það gaf möguleika á að skrá félögin á erlendan hlutabréfamarkað og  „hækka í hafi“ ódýru íslensku leyfin um tugi milljarða króna.  Það er því nú þegar komið í ljós að búið er að ráðstafa hagnaðinum í formi mikilla eignamyndunar erlendra fjárfesta, um tugi milljarða króna, sem byggjast að mestu á virði eldisleyfa.

Pdf skjal af greininni sem birtist í Morgunblaðinu