Stór laxeldisfyrirtæki og lítil sjávarútvegsfyrirtæki?

Í skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi frá 2017 var ,,lagst gegn því að setja hámark á framleiðslumagn eins rekstrarleyfishafa þar sem mikilvægt er að byggja á stærðarhagkvæmni rekstursins“.   Talið var að slíkt ákvæði skapaði fjárhagslega óvissu og yrðu erfið í framkvæmd.  Stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldi Austfjarða voru í stefnumótunarhópnum og með því að koma í veg fyrir að sett yrði hindrun á stærð fiskeldisfyrirtækja gátu þeir tryggt sér meiri fjárhagslegan ávinning.  

Þingmaður Vestfirðinga lagðir til í upphafi umræðunnar á Alþingi að ,,horft sé til minni aðila í greininni, að þeir hafi möguleika og að þeir sem hafa verið frumkvöðlar á sínu svæði hafi möguleika í samkeppni við hina stóru“.  Meira var ekki rætt um þessa tillögu og niðurstaðan var að valtað var yfir hagsmuni íslenskra fyrirtækja á Alþingi Íslendinga við setningu laga um fiskeldi á árinu 2019.

Eitt laxeldisfyrirtæki með öll eldisleyfin?

Í stefnumótunarskýrslunni er einnig bent á að ,,þar sem ekki eru settar skorður við framsali getur einn aðili fræðilega eignast öll gildandi rekstrarleyfi og stjórnað þannig allri framleiðslu á eldisfiski og seiðaeldi á landi og í sjó“. Nú er Fiskeldi Austfjarðar og Laxar fiskeldi að skoða möguleika á að sameina fyrirtækin og þá væri aðeins eitt laxeldisfyrirtæki á Austfjörðum.  Eins og fram kom í Morgunblaðinu nýlega gæti einnig orðið að sameiningu Arnarlax og Arctic Fish Farm á Vestfjörðum þótt það hafi verið slegið af í bili. Niðurstaðan gæti síðan verið sameining allra fyrirtækjanna og eitt laxeldisfyrirtæki framleiddi allan eða mest allan lax í sjókvíaeldi hér á landi, fyrirtæki sem væri skráð á erlendan hlutabréfamarkað og væri nær alfarið í eigu erlendra aðila.

Fyrirhugað umfang laxeldisfyrirtækja

Arnarlax og Arctic Fish Farm hafa leyfi til að vera með 43.000 tonn hámarks lífmassa og í umsóknarferli eru 28.600 tonn, eða samtals 71.600 tonn. Ef öll leyfi fást væri hægt að framleiða árlega rúm 90.000 tonn og gætu verðmætin verið um 75 milljarða króna.    Í tilfelli Fiskeldis Austfjarða og Laxa fiskeldis eru leyfi til að vera með 36.800 tonna hámarks lífmassa og í umsóknarferli eru 17.000 tonn, samtals 53.800 tonn.  Framleiðslan á Austfjörðum gæti því numið um 70.000 tonnum og verðmætin um 55 milljarða króna.  Ef þróunin yrði síðan að öll þessi fyrirtæki sameinuðust í eitt gæti framleiðslan numið um 160.000 tonnum að verðmæti 130 milljarða króna.  Stjórnvöld fyrirhuga að úthluta meiri framleiðsluheimildum fyrir laxeldi og geta því sameinuð fyrirtækin orðið enn stærri.  Það er sjálfsagt mikilvægt að þessi fyrirtæki geti orðið stór, en alþingismenn hefðu átt að setja einhverjar skorður við slíkri ofurstærð.

Aðrar reglur fyrir sjávarútveg

Í stefnumótunarskýrslunni er fjallað um stærð fyrirtækja í sjávarútvegi en þar kemur fram ,,í sjávarútvegi, þar sem samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða í eigu tengdra aðila má ekki nema meira en tilteknu hlutfalli allra aflahlutdeilda eða heildarverðmæti þeirra, er takmörkunin einnig byggð á byggðasjónarmiðum“.  Í þessu samhengi er vert að benda á að laxeldi er einnig byggðamál og uppbyggingin oftast tengd litlum og viðkvæmum samfélögum.  Ef sameiningar ganga eftir munu sameinuð laxeldisfyrirtæki vera ráðandi atvinnufyrirtæki á Vestfjörðum og Austfjörðum og hafa mikinn slagkraft til að fá sitt fram bæði gagnvart litlum sveitafélögum og ríkisvaldinu.

Rökin fyrir takmörkunum í sjávarútvegi

Þegar fiskveiðistjórnunarlögin voru innleidd á árinu 1984 var umræða um að hafa fá og öflug sjávarútvegsfyrirtæki en niðurstaðan var að almenn sátt var um dreifða eignaraðild og auðlindin væri  eingöngu í eigu Íslendinga. Niðurstaðan var að ekkert fyrirtæki mætti eiga meira en 12% aflaheimildanna. Í þessu samhengi er athyglisvert að það var engin umræðu um stærð laxeldisfyrirtækja á Alþingi Íslendinga þegar lögin um fiskeldi voru samþykkt á árinu 2019.  Niðurstaðan getur verið sú að með því að sameina fjögur laxeldisfyrirtæki sem nú eru í meirihlutaeigu erlendra aðila verði sameinað fyrirtæki  a.m.k. þrisvar sinnu stærra en Brim sem var með um 40 milljarða veltu á árinu 2020.  

Af hverju ekki sömu reglur?

Í þessu samhengi skal haft í huga á þeim tíma sem lög um fiskeldi voru til meðhöndlunar á Alþingi átti sér stað mikill lobbíismi íslenskra leppa sem héldu fast að alþingismönnum ákveðnum sjónarmiðum í þágu erlendra fjárfesta. Það kann að vera ástæða þess að alþingismenn misstu fókusinn við meðhöndlun þessa máls á þinginu og einnig að umhverfismál laxeldis yfirgnæfðu umræðuna. Hér er hægt að spyrja sig af hverju sömu reglur eiga ekki að gilda um stærðartakmörk í tilfelli laxeldisfyrirtækja eins og í sjávarútvegi?  Sjávarútvegurinn hefur fengið neikvæða umfjöllum um að þar væri að finna stór og öflug íslensk fyrirtæki.     Áhugavert verður að fylgjast með umræðunni á næstu árum um stærð laxeldisfyrirtækja, sem nær alfarið eru í eigu erlendra aðila, og stefna í að vera mun stærri en íslensku sjávarútvegsfyrirtækin.

Pdf skjal af greininni í Morgunblaðinu