Ársskýrsla dýralæknis fisksjúkdóma

Ársskýrsla dýralæknis fisksjúkdóma fyrir árið 2020 er fróðleg eins og á síðustu árum.  Það er ekki mikið um fisksjúkdóma á Íslandi en fjallað er um margt annað en fisksjúkdóma í árskýrslunni.

Samtals voru 53 eldisstöðvar í fullum rekstri árið 2020 og af þeim voru fjórar með lax í sjókvíum í 7 fjörðum og þrjár með regnbogasilung í sjókvíum í 3 fjörðum. Öll önnur eldisfyrirtæki voru með starfsemi sína á landi í ýmsum útfærslum.

Heilbrigðismál voru heilt yfir með allra besta móti. Engir nýir alvarlegir smitsjúkdómar gerðu vart við sig og þá hefur mikið áunnist í útrýmingu nýrnaveiki sem var eldisgreininni fremur strembin um árabil.

Reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi var endurbætt mikið á síðasta ári.

Á þessu ári verður kynnt ,,Mælaborðs fiskeldis“ en þar verður m.a. að finna kortasjá fiskeldis, framleiðslu í sjókvíaeldi, stöðu sjúkdóma með áherslu á lús og niðurstöður úr almennu eftirlit með að eldisstöðvar uppfylli skilyrði rekstrarleyfa.

Alls var slátrað 40.595 tonnum af eldisfiski á liðnu ári og jókst heildarframleiðsla um 20% á milli ára. Þar vó þyngst um 7.000 tonna aukning á laxi úr sjókvíaeldi sem í fyrsta sinn rauf 30.000 tonna múrinn.

Framleidd voru 34.341 tonn af eldislaxi og þar af um 2.000 tonn í landeldi. Miðað við uppbyggingu seiðastöðva og útsetningu seiða á liðnu ári má reikna með að framleiðsla í laxeldi rjúfi 40.000 tonna múrinn árið 2021.

Framleidd voru 5.493 tonn af bleikju.  Athygli vekur að 13% samdráttur varð í bleikjueldi og er það fyrsti afturkippur í þeirri tegund síðan 2009.

Framleidd voru um  271 tonn af senegalflúru og dróst saman um 28%.

Framleidd voru 490 tonn af regnbogasilungi.  

Þorskeldi heyrir nú sögunni til, í bili að minnsta kosti, og er þetta í fyrsta sinn síðan 1999 sem engum þorski er slátrað úr kvíum.

Pdf skjal af Ársskýrsla dýralæknis fisksjúkdóma