Áhættumat erfðablöndunar verkfæri íslensku leiðarinnar

Álit Skipulagsstofnunar og vísindanefndar

Í nýlegu áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að m.v. fyrirliggjandi áform verði samlegðaráhrifin við önnur laxeldisfyrirtæki óveruleg á þær ár sem áhættumatið tekur til á Vestfjörðum. ,,Sé hins vegar horft til allra laxastofna á Vestfjörðum telur Skipulagsstofnun að óvissu gæti um samlegðaráhrifin, þau geti orðið talsvert eða verulega neikvæð ef viðbrögðum við slysasleppingum er ábótavant“.  Skipulagsstofnun bendir einnig á að ,,almennt eru ár með litla stofna taldar viðkvæmari fyrir erfðablöndun en ár með stærri stofna“. Ýmsir aðilar hafa varað við áhættumati erfðablöndunar og einnig bent á að áhættumatið geri ráð fyrir að fórna litlu laxastofnunum með sínum athugasemdum við meðferð málsins á Alþingi.  Nú tekur Skipulagsstofnum undir þessar athugasemdir og það gerir einnig vísindanefnd í skýrslu sinni en nefndinni var falið að rýna áhættumatið skv. lögum um fiskeldi frá 2019.  Nú er spurning hvort málinu verði sópað undir teppi eða Alþingi taki málið til efnislegrar umfjöllunar og geri viðeigandi breytingar.    

Litlu laxastofnunum fórnað til fjárhagslegs ávinnings

Breytingar á lögum um fiskeldi byggja að mestu á tillögum starfshóps um fiskeldi frá 2017. Í þeim hópi voru fulltrúar laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila í nafni Landsambands fiskeldisstöðva og einnig frá Landssambandi veiðifélaga sem réðu för í vinnu stefnumótunarhópsins. Í stefnumótunarskýrslunni er verið að verja hagsmuni laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila til að tryggja þeim sem mesta af framleiðsluheimildum og fjárhagslegum ávinningi. Í skýrslunni var aðeins hugað að stærri veiðiám sem tilheyra félögum í Landssambandi veiðifélaga, Laugardalsá, Langadalsá, Hvannadalsá og Ísafjarðará en horft framhjá þeim minni en skv. rannsóknum Hafrannsóknastofnunar eru tæplega 25 veiðiár með laxi á Vestfjörðum.   Sagt á annan hátt heldur áhættumatið því fram að í tilfelli báts með um 25 göt á skrokkinum renni aðeins inn sjór um fjörur þeirra. Hér er því um að ræða meiriháttar staðreyndarvillu í áhættumatinu.

Úthlutun framleiðsluheimilda

Áhættumat erfðablöndunar er notað til að úthluta framleiðsluheimildum til eldis á frjóum laxi og hefur nú verið úthlutað tvisvar sinnum og spáð er í framhaldi úthlutanna:

  • Fyrsta úthlutun: Strax á árinu 2017 lagði Hafrannsóknastofnun til 50.000 tonna eldi á frjóum laxi fyrir Vestfirði og byggðu þeir útreikningar að stórum hluta á röngum forsendum í reiknilíkaninu, sem fyrst og fremst byggist á því að gengið er út frá of fáum veiðiám með laxalykt og of mikilli dreifingu á eldislaxi í veiðiár. Með að horfa fram hjá litlu laxastofnunum var hægt að uppfylla allar væntingar stjórnarformanns Arnarlax um framleiðsluheimildir á vestanverðum Vestfjörðum.
  • Önnur úthlutun: Mikill þrýstingur hefur verið á að auka framleiðsluheimildirnar. Það kemur síðan á óvart að framleiðsluheimildir á frjóum laxi eru auknar strax um vorið 2020 og áfram er stuðst við rangar forsendur í reiknilíkani áhættumats erfðablöndunar.  Framleiðsluheimildir voru auknar upp í 64.500 tonn á Vestfjörðum eða um 14.500 tonn.
  • Þriðja úthlutun: Áfram verður haldið með að þrýsta á að auka framleiðsluheimildir og þegar farin verður sú leið að grípa strax til aðgerða við stærri slysasleppingar eins og gert er ráð fyrir í uppfærðu áhættumati frá 2020 skapast svigrúm til að auka heimildir enn frekar.
  • Fjórða úthlutun:  Þegar komið er að þeim tímapunkti að norsku leiðinni verður fylgt, þ.e.a.s. fjarlægja allan sjáanlegan eldislax úr veiðiám fyrir hrygningu, verður hægt að auka framleiðsluheimildir mikið og þá jafnframt er áhættumat erfðablöndunar búið að missa tilgang sinn.

Hluti af íslensku leiðinni

Þegar að fjórðu úthlutun kemur er engin þörf á áhættumati erfðablöndunar og niðurstaðan að það verður fyrst og fremst notað til að úthluta framleiðsluheimildum til laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila. Áhættumat erfðablöndunar hefur lítið sem ekkert með umverfisvernd að gera og Ísland er sennileg eina landið í heimi þar sem erfðablöndun á laxi er heimiluð skv. lögum. Áhættumatið er verkfæri íslensku leiðarinnar þar sem sterkir hagsmunaaðilar taka auðlindina, semja leikreglurnar til að setja leyfisveitingarferlið í hagstæðan farveg, fanga ríkisvaldið og fara með tillögurnar í gegnum alla stjórnsýsluna sjálfum sér og sínum til fjárhagslegs ávinnings.

Pdf skjal af greininni í Morgunblaðinu 25.janúar 2021