Litlu laxastofnanir sem á að fórna

Við skipan starfshóps um stefnumótun í fiskeldi var aðeins hafður þröngur hópur sérhagsmunaaðila ásamt opinberum starfsmönnum. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu árið 2017 sem var grunnur að lögum um fiskeldi sem samþykkt voru á árinu 2019.  Í vinnu stefnumótunarhópsins er hugað að sérhagsmunum, þar sem drifkrafturinn var að tryggja hagsmuni stærri laxeldisfyrirtækja og stærri veiðifélaga. Fulltrúum almennings s.s. sveitafélaga var haldið frá og lítið sem ekkert tekið tillit til þeirra athugasemda og ábendinga í ferlinu fram að því að lögum um fiskeldi voru samþykkt.  Niðurstaðan var að áhættumat erfðablöndunar var innleitt með lögum um fiskeldi á árinu 2019 sem fól m.a. í sér að litlu laxastofnunum á eldissvæðum var fórnað.  Meginhlutverk áhættumats erfðablöndunar er að tryggja framleiðsluheimildir fyrir laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila.

Fórna til að tryggja ávinning

Það vakti athygli á árinu 2016 ásækni sumra íslenskra frumkvöðla að ,,helga sér svæði“ í miklu umfangi, með stórtækum áform á uppbyggingu,  Arnarlax og Fiskeldi Austfjarða með um 125.000 tonna framleiðsluheimildir til laxeldis í stjórnsýslunni. Það var því ekki að ástæðulausu að stjórnarformenn fyrirtækjanna komu sér í starfshóp um stefnumótun í fiskeldi.  Þessi tvö fyrirtæki voru með um 70% framleiðsluheimilda til laxeldis, mest umsóknir sem voru í ferli hjá stjórnsýslunni.  Með því að taka ekki með litlu laxastofnanna í áhættumat erfðablöndunar var tryggt að þeir myndu ekki hafa áhrif á úthlutun framleiðsluheimilda á frjóum laxi og sérstaklega í tilfelli Arnarlax, á vestanverðum Vestfjörðum.  Þannig var litlu laxastofnunum fórnað til að tryggja laxeldisfyrirtækjum í meirihlutaeigu erlendra aðila sem mestum ávinningi.  

Landsambands veiðifélaga hugar að sínum

Í stefnumótunarhópnum var einn frá veiðiréttareigendum þ.e.a.s. fulltrúi Landsambands veiðifélaga.  Miðað við tillögur í stefnumótunarskýrslunni var aðeins hugað að stærri veiðiár sem tilheyra félögum í Landssambandi veiðifélaga.  Það er verið verja stærri veiðiár og að fórna minni veiðiám og því ekki að ástæðulausu að veiðiréttareigendur utan Landssambands veiðifélaga hafi verið ósáttir og ekki samstíga sambandinu í sínum málflutningi við afgreiðslu málsins á Alþingi Íslendinga.  Fyrsta á árinu 2018 þegar fiskeldisfrumvarpið var fyrst lagt fram og síðan á árinu 2019 þegar lög um fiskeldi voru samþykkt.

Ná ekki fram

Í athugasemdum við fiskeldifrumvarpið á árinu 2019 var bent á að litlir laxastofnar í veiðiám á eldissvæðum munu verða fyrir miklum neikvæðum áhrifum samfara uppbyggingu laxeldis í sjókvíum á meðan stærri laxastofnar fjær eldissvæðum verða fyrir litlum eða engum áhrifum ef fylgt er tillögum áhættumats erfðablöndunar.  Það á að verja stærri laxastofna og fórna þeim minni.  Margir gerðu athugasemd við fiskeldisfrumvarpið m.a. veiðiréttareigendur minni veiðivatna og Erfðanefnd landbúnaðarins.

Umsögn Erfðanefndar landbúnaðarins

Fram kemur í umsögn Erfðanefndar landbúnaðarins við fiskeldisfrumvarpið á vorþingi 2019 að það verði að taka alla laxastofna með í Áhættumat erfðablöndunar. Ef laxastofnar á ákveðnum svæðum eru undanskildir í áhættumatinu er hætta á að líffræðilegur fjölbreytileiki tapist:

,,Ef ætlun með frumvarpinu er sá að undanskilja ákveðna stofna úr áhættumatinu þarf það að vera skýrt. Ennfremur þarf að rökstyðja þá afstöðu, meðal annars m.t.t. líffræðilegra þátta og jafnræðisreglna. Með jafnræðisreglum er hér átt við jafnræði landeigenda sem eiga veiðirétt í laxám, hvort sem er í Arnarfirði, á Barðaströndinni, í Dölunum eða annars staðar“.

Rýniskýrslan

Vegna fjölmargra athugasemda við fiskeldisfrumvarpið þegar það var til meðferðar á Alþingi árið 2019 var sett sérstakt ákvæði til bráðabirgða í lögum um fiskeldi ,,…að rýna aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun notar við mat á burðarþoli og við gerð áhættumats“. Hinn 25. ágúst 2020 var lögð fram á Alþingi skýrsla óháðrar nefndar með erlendum og íslenskum sérfræðingi þar sem tekið var fyrir áhættumat erfðablöndunar.  Skýrslan ber heitið ,,Skýrsla  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um niðurstöður óháðrar nefndar um athugun á aðferðarfræði, áhættumati og greiningum á fiskeldisburðarþoli á vegum Hafrannsóknastofnunar“.  Varðandi litlu laxastofnana tekur skýrslan í meginatriðum undir þá gagnrýni sem kom fram í meðhöndlun málsins á Alþingi.  Hér á efir köllum við skýrsluna rýniskýrsluna og nefndina vísindanefndina.

Litlu stofnanir

Í áhættumati erfðablöndunar er horft fram hjá litlu laxastofnunum. Á fundi vísindanefndarinnar með Hafrannsóknastofnun gaf stofnunin þá skýringu að þessi ákvörðun hefði verið tekin þar sem á Íslandi er fjöldi smærri áa með tilfallandi göngur laxa sem ekki teljast stöðugir stofnar sem hægt er að nýta til veiða að einhverju marki. Hins vegar var fallist á að a.m.k. einhverjar þessara smærri lækja og áa gætu verið hluti af stærri yfirstofni (hópi stofna), annað hvort einar og sér eða með öðrum stærri ám. Vísindanefndin fékk ekki upplýsingar um fjölda áa sem falla í þennan flokk á Íslandi, né heldur hvar þær eru (í tengslum við firði þar sem fiskeldi er stundað) eða hvaða aðstæður gilda um þessa stofna.  

Smáu stofnarnir viðkvæmastir

Við vinnslu fiskeldisfrumvarpsins var bent á að litlu laxastofnanir væru viðkvæmari fyrir erfðablöndun en stærri laxastofnar.  Undir það tekur vísindanefndin og bendir á rannsóknir frá Noregi og Kanada þar sem fram kemur að smáir stofnar (sem að jafnaði hafa lítinn þéttleika, þó það sé ekki algilt) séu oft þeir stofnar þar sem tíðni erfðablöndunar er mest. Samkeppnishæfni eldisfisks á hrygningarsvæðum er minni en villta laxins. Þannig kann viðkoma strokufisks í ám eða á árum þegar fjöldi villtra laxa er lágur  að vera óeðlilega mikil vegna tímabundins skorts á samkeppni á hrygningarsvæðunum.  Í áhættumati erfðablöndunar er miðað við að hlutfall eldislaxa sé undir 4%, en vísindanefndin bendir á að íhuga að nota lægri viðmiðunarmörk fyrir minni stofna en stærri stofna. Ástæða þess, er að fyrirliggjandi vísindaleg gögn benda til þess að litlir og dreifðir stofnar séu hlutfallslega viðkvæmari fyrir innblöndun en stærri og þéttari stofnar.

Í næstu næstu tveimur greinum fjöllum við áfram um litlu laxastofnanna:

  • Upplýst verður um hvaða stofnar þetta eru á Vestfjörðum sem vísindanefndin fékk ekki upplýsingar um og hvaða áhrif þeir hefðu geta haft á úthlutaðar framleiðsluheimildir til laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila ef þeir hefðu verið teknir með í reiknilíkanið.
  • Farið verður yfir vöktun á litlu laxastofnunum, hverju er ábótavant og hugsanlegar skaðabótakröfur sem veiðiréttaeigendur minni veiðiáa kunna að sækja.

Greinin birtist í Bændablaðinu 5. nóvember 2020