Áhættumat erfðablöndunar sem íslenska leiðin

Nú hafa verið birtar sjö greinar um áhættumat erfðablöndunar í Bændablaðinu og bent á ýmsa vankanta áhættumatsins og er stutta samantekt að finna í töflu 1.  Áhættumat erfðablöndunar var fyrst gefið út af Hafrannsóknastofnun árið 2017 og staðfest í lögum um fiskeldi árið 2019 og varð grunnur að úthlutun framleiðsluheimilda á frjóum laxi til fyrirtækja í meirihlutaeigu erlenda aðila.

Hve mikill má skaðinn vera?

Í áhættumati erfðablöndunar er því miður gert ráð fyrir erfðablöndun. Viðmiðið ætti ekki að vera í hve miklum mæli innblöndun á norskættuðum eldislaxi má vera, heldur hvernig hægt sé að koma í veg fyrir mögulega erfðablöndun.  Það má alltaf deila um umhverfisáhrifin, en leggja þarf upp með að eldislax eigi ekki heima í íslenskum veiðiám og það eigi með mótvægisaðgerðum og réttum viðbrögðum við slysasleppingum að koma í veg fyrir mögulega erfðablöndun. Látum náttúruna njóta vafans og leggjum alla áherslu á að koma strax í veg fyrir að norskættaður eldislax nái að hrygna í íslenskum veiðivötnum. 

Fá umhverfissóðarnir að njóta sýn?

Í fyrri greinum var mikið fjallað um hvernig Norðmenn standa nú að því að lágmarka tjón sem kanna að skapast af slysasleppingum eftir áratuga erfðablöndun í norskum laxveiðiám. Opinberri stjórnsýslu umhverfismála laxeldis í sjókvíum hér á landi er ábótavant og gefur umhverfissóðunum tækifæri að draga úr kostnaði m.a. með tilkomu áhættumats erfðablöndunar. Staðreyndin er sú að stjórnsýslan opnar fyrir það að umhverfissóðarnir fái að njóta sín á kostnað þeirra sem vilja standa sig vel.  Í því sambandi má benda á að ákveðið fyrirtæki er vís af því að vera með endurteknar slysasleppingar sem getur ekki talist eðlilegt.   

Það hefur átt sér stað afturför í umhverfismálum

Eftir slysasleppingu í Norðfirði árið 2003, var strax hafist handa við að veiða strokulax í sjó utan eldissvæðis og einnig var að tilstuðlan rekstraraðili kafað í nokkrar veiðiár í nágrenninu og leitað að strokulaxi. Málinu var síðan fylgt eftir af sérfræðingum Veiðimálastofnunar.  Hugmyndafærði norsku leiðarinnar var því viðhöfð hér áður fyrr (tafla 1).  Þrátt fyrir endurteknar slysasleppingar í Arnarfirði er ekki farið markvisst í veiðiár í firðinum og kannað hlutfall eldislaxa. Hvað eru menn að hugsa eða fylgir þessari stefnu einhver hugsun?  Við slysasleppingar í Noregi er laxeldisfyrirtækinu gert skylt að fjármagna vöktun og aðgerðir við að fjarlægja eldislax úr veiðiám í firðinum og jafnvel í næstu fjörðum.

Hlutverk áhættumat erfðablöndunar

Það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um að styðjast við áhættumat erfðablöndunar við úthlutun framleiðsluheimilda.  Áhættumat erfðablöndunar gengur út á að tryggja fjárhagslega hagsmuni laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlenda aðila.  Líkan sem áhættumat erfðablöndunar styðst við er notað sem verkfæri til að úthluta framleiðsluheimildum þar sem stuðst er við vafasamar eða rangar forsendur eins og áður hefur verið komið inn á.  Áhættumat erfðablöndunar hefur mjög takmarkað ef nokkuð með umhverfisvernd að gera.  Það veldur áhyggjum að lagt eru til auknar framleiðsluheimildir á þessu ári þrátt fyrir þessa vankanta í áhættumati erfðablöndunar.

Íslenska leiðin

Bæði í áhættumati erfðablöndunar og í skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem gefin var út 2017 er forðast að nota hugtakið ,,fjarlægja eldislax“ úr veiðiám. Afstaða ráðandi ráðgjafandi aðila og þá sérstaklega Hafrannsóknastofnunar valda áhyggjum.  Íslenska leiðin mun valda tjóni á villtum laxastofnum með auknu laxeldi í sjókvíum hér á landi. Í Noregi var fylgt íslensku leiðinni framan af en eftir áratuga biturra reynslu af aðgerðarleysi var norska leiðin virkjuð. Stefnubreyting virðist hafa orðið með nýju og endurskoðuðu áhættumati erfðablöndunar sem gefið var út á þessu ári og verður fjallað um það í næstu grein sem verður jafnframt sú síðasta í þessum greinaflokki.  

Sjá einnig grein sem birtist í Bændablaðinu 10.09.2020