Sjókvíaeldi laxfiska: Draga úr kostnaði og ná fjárhagslegum ávinningi

Skýrsla starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi ber merki um skammtímahugsun þar sem fjárhagslegur ávinningur er drifkrafturinn. Margar tillögur í skýrslu starfshópsins, leidda af stjórnarformönnum Arnarlax og Fiskeldi Austfjarða, endurspeglast í nýlegum breytingum á lögum um fiskeldi.  Hér verður fjallað um nokkur atriði sem ganga út á að draga úr kostnaði laxeldisfyrirtækjanna.

Minni kostnaður vegna umhverfismála

Umhverfissinnar gera of mikið úr umhverfisáhrifum laxeldis og laxeldismenn of lítið, en sannleikurinn er einhver staðar þar á milli.  Það er þó ljóst að kostnaður laxeldisfyrirtækja vegna umhverfismála er minni hér á landi en t.d. Noregi:

  • Slysasleppingar: Í Noregi þarf atvinnugreinin að greiða kostnað við að fjarlægja eldislax úr veiðivötnum.  Þegar rekja má slysasleppingu til ákveðins fyrirtækis greiðir það kostnaðinn.  Ekki er gert ráð fyrir að fjarlægja eldislax úr veiðivötnum á Íslandi og þannig er mögulegum kostnaði fyrirtækjanna haldið í lágmarki.
  • Laxalús: Í Noregi eru miklar kröfur um að halda tíðni laxalúsar í lágmarki sem felur í sér mikinn kostnað vegna mótvægisaðgerða og viðbragða þegar um frávik er að ræða. Jafnvel að framleiðsluheimildir verði minnkaðar ef ekki næst að hemja lúsina. Á Íslandi er ráðherra heimilt að setja ákvæði um aðgerðir vegna laxalúsar, sem ennþá er ekki komið í framkvæmd og kostnaður þannig minni.
  • Heilbrigðismál: Í Noregi er búið að koma á framleiðslusvæðum sem takmarkar flutning á fiski á milli strandsvæða. Þar eru einnig gerðar meiri kröfur um flutningsbúnað fyrir lifandi fisk með tilheyrandi kostnaði. Á Íslandi er enginn vilji fyrir slíkar fyrirbyggjandi aðgerðir.   Þannig ráða skammtíma sjónarmið fyrirtækja, þó veruleg  hætta sé á að sjúkdómar geti borist á milli svæða með tilheyrandi tjóni fyrir samfélög og fyrirtæki
  • Lífrænt álag: Í Noregi er framleiðendum gert skylt að minnka framleiðslu á eldissvæðum eða hvíla þegar farið er út fyrir viðmiðunarmörk sem felur í sér aukinn kostnað.  Ef tillögur stefnumótunarhópsins eru skoðaðar þá vantar á Íslandi viðmiðanir og óljóst hvort og þá í hvaða tilvikum hömlur verða settar á framleiðsluheimildir á eldissvæðum og því fylgir minni kostnaður.  Umhverfisstofnun hefur verið að taka á þessum málum og vonandi verður niðurstaðan sú að endingu að kröfur verði þær sömu hér á landi og í nágrannalöndum.

Stjórnsýslu ábótavant

Það að opinberri stjórnsýslu umhverfismála laxeldis í sjókvíum sé ábótavant er ekki góð staða fyrir fyrirtæki sem hafa það að markmiði að starfa til lengri tíma í atvinnugreininni í sem mestri sátt við umhverfið og aðra hagsmunaaðila. Staðreyndin er sú að stjórnsýsla laxeldis í sjókvíum opnar fyrir það að umhverfissóðarnir fái að njóta sín á kostnað þeirra sem vilja standa sig vel.  Það er því hægt að taka að vissu leiti undir áhyggjur umhverfissinna í þeirra málflutningi þó að hann í ákveðnum tilvikum sé of öfgafullur og byggi ekki alltaf á staðreyndum. Það sama er vissulega hægt að segja um málflutning sumra sem starfa í fiskeldi.  Á  opinberri stjórnsýslu umhverfismála er vissulega hægt að betrumbæta en til þess virðist skorta vilja eða er vanþekkingin svona mikil?

Minni gjöld

Í tillögu stefnumótunarhópsins er áhersla lögð á að fresta og minnka gjöld á atvinnugreinina:

  • Auðlindagjald fyrir frjóa eldislaxa: Stefnumótunarhópurinn lagði til að komið verði á auðlindagjaldi, með sex ára biðtíma á greiðslu gjaldsins, talið frá þeim tíma þegar fyrsta slátrun hefst úr eldiskvíum fyrirtækisins.  Þessar tillögur náðu ekki að öllu leiti fram að ganga í meðferð málsins á Alþingi þar sem nú er byrjað er að innheimta takmarkað gjald.
  • Auðlindagjald fyrir ófrjóa eldislaxa: Stefnumótunarhópurinn lagði til að laxeldisfyrirtæki geti haldið svæðum í a.m.k. fimm ár án þess að vera með framleiðslu á eldissvæðinu og þannig greiða ekkert auðlindagjald á því tímabili. Ef síðan bætist við sex ára biðtími er ekki um að ræða nein gjöld í rúman áratug.  Niðurstaðan eftir afgreiðslu Alþingis er að strax verður rukkað hálft auðlindagjald við slátrun á ófrjóum laxi.  

Leyfishafar geta stjórna gjaldtöku

Með því að miða við sláturmagn í lögunum geta fyrirtækin stjórnað gjaldtöku.  Ef gjöldin hefðu verið miðuð við framleiðsluheimildir væru þau meiri, fyrirsjáanlegri og komið strax til gjaldtöku við úthlutun heimilda.  Þannig geta fyrirtækin sem hafa sölsað undir sig eldissvæðum og framleiðsluheimildum í raun stjórnað hvað gjöld eru greidd, haldið sínum svæðum s.s. ónýtt svæði fyrir eldi á ófrjóum laxi án auðlindagjalds í fjölmörg ár og blokkerað þannig möguleika annarra að nýta svæðið.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu, 5. maí 2020

Hægt er að sækja pdf skjal af greininni hér