Í skýrslu starfshóps forsætisráðherra frá 2018 um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu er vísað til OECD þar sem stjórnvöld eru hvött til að veita hagsmunaaðilum jafnan og sanngjarnan aðgang að opinberri stefnumótun til að tryggja heilindi í ákvörðunartöku og að almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi. Skýrsla starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi sem gefin var út þann 23. ágúst 2017 setti leikreglurnar sem voru skjalfestar í lögum um fiskeldi árið 2019 og lagði grunn að fjárhaglegum ávinningi stjórnarformanna stærstu laxeldisfyrirtækjanna sem voru fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva í hópnum.
Að kom sér í lykilstöðu
Á árinu 2014 voru gerðar breytingar á lögum um fiskeldi, en með stórtækum hugmyndum um uppbyggingu eldis laxfiska í sjókvíum, var umhverfið strax á árinu 2016 orðið allt annað en þá var. Leyfisveitingarkerfið var komið í uppnám fyrst og fremst vegna vinnubragða fyrirtækja stjórnarformanna Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða, með um 70% eldissvæða. Stjórnarformennirnir komu sér inn í stefnumótunarhópinn sem fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva og urðu helstu ráðgjafar stjórnvalda.
Stefnumótunarskýrslan
Í stefnumótunarskýrslunni var ekki nægilega vel tekið á þeim áskorunum sem voru framundan á næstu árum og áratugum. Drifkrafturinn var að tryggja fjárhagslega hagsmuni laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila á kostnað annarra. Það sorglega er að tillögurnar í stefnumótunarskýrslunni fela í sér að Íslendingar standa að baki nágrannalöndum í umhverfismálum laxeldis í sjókvíum. Tillögur í stefnumótunarskýrslunni hafa verið mjög umdeildar og skapa enga sátt eins og stefnt var að.
Fiskeldisfrumvarpið
Fiskeldisfrumvarpið sem fyrst var lagt fram á vorþingi 2018 byggði á skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Fjölmargir aðila, undirritaður, minni fiskeldisfyrirtæki, veiðiréttaeigendur, sveitafélög, samtök o.fl. komu með alvarlegar athugasemdir en lítið sem ekkert var tekið tillit til þeirra í þeim fjórum umsagnarferlum sem hafa verið í þessu máli. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom með lítið breytt fiskeldisfrumvarp í byrjun ársins 2019. Það vakti athygli að ráðherra tók ekki á leikreglum hönnuðum af stjórnarformönnum Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða til að tryggja þeim og þeirra fyrirtækjum fjárhagslegan ávinning. Þannig var látið hjá líða að taka á málunum við gerð fiskeldisfrumvarpsins í ráðuneytinu sem vekur mann til umhugsunar.
Afgreiðsla Alþingis
Við afgreiðslu fiskeldisfrumvarpsins á Alþingi vakti einnig athygli hagsmunapot fulltrúa stærstu laxeldisfyrirtækjanna sem höfðu verið í starfshópi um stefnumótun í fiskeldi. Því er e.t.v. best lýst með því að þeir fylgdu atvinnuveganefnd í skoðunarferð alla leið í sjókvíaeldisstöðvar í Noregi enda miklir hagsmunir í húfi. Hér má velta því fyrir sér hvort skortur sé á leikreglum um aðgengi hagsmunaaðila að alþingismönnum. Þegar fiskeldisfrumvarpið kom til Alþingis Íslendinga var það í raun ótækt til afgreiðslu og þurfti því fjölmargar breytingar að gera á því. Það má segja Alþingi Íslendinga til hrós að tekið var á ýmsum málum í fiskeldisfrumvarpinu. Eftir standa þó fjölmörg viðfangsefni sem fjallað verður um í seinni greinum.
Engin sátt
Við útgáfu stefnumótunarskýrslunnar var sáttin eingöngu á meðal þeirra sem sátu við borðið, Landsamband fiskeldisstöðva og Landsamband veiðifélaga. Ósáttir voru þeir sem sátu ekki við borðið s.s. minni fiskeldisfyrirtæki í eigu íslenskra aðila, veiðiréttareigendur utan Landssambands veiðifélaga, sveitafélög og umhverfissamtök. Í þennan hóp bætist síðan við Landsamband veiðifélaga í umsögn sinni við fiskeldisfrumvarpið árið 2019 en þar kemur m.a. fram: ,,Efni frumvarpsins gengur þvert á undirritað samkomulag hagsmunaaðila og fullrúa sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindamálaráðherra sem sæti áttu í starfshópi ráðherra um stefnumótun í fiskeldi“. Eftir standa hagsmunasamtök fiskeldismanna af skiljanlegum ástæðum stíga varlega til jarðar þar sem ráðandi félögum innan samtakanna hafa náð verulegum fjárhagslegum ávinningi. Það er engin sátt um þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð við undirbúning og gerð breytinga á lögum um fiskeldi, ósætti sem mun endurspegla vinnuna framundan á næstu árum og jafnvel áratugum.
PDF skjal af grein birt í Morgunblaðinu 22. febrúar 2020