Laxalús, sjókvíaeldi og íslenskir hagsmunir

Nýlega hafa verið birtar sex greinar í Bændablaðinu um laxalús, sjókvíaeldi og villta laxfiskastofna.. Vonandi stuðla þessar greinar til gerð regluverks sem tekur mið af umhverfisvernd sem til lengri tíma litið er allra hagur.

  1. Laxalús, notkun lyfja og umhverfisáhrif. Bændablaðið 10.07.2025.
  2. Laxalús og mótvægisaðgerðir. Bændablaðið 26.06.2025.
  3. Laxalús, viðmið og fjarlægðarmörk. Bændablaðið 12.06.2025.
  4. Laxalús og villtir laxfiskar. Bændablaðið 29.05.2025.
  5. Laxalúsafár, regluverkið og upplýsingagjöf. Bændablaðið 15.05.2025.
  6. Laxalús, sjókvíaeldi og villtir laxfiskastofnar.  Bændablaðið 01.05.2025.

Hafa bætt samkeppnisstöðu á kostnað umhverfis

Að halda laxalúsinni í skefjum fylgir mikill kostnaður sem dregur úr arðsemi eldisins.  Á síðustu árum hafa laxeldisfyrirtækin á Vestfjörðum sem eru skráð á erlendan hlutabréfamarkað minnkað kostnað með að vera ekki með mótvægisaðgerðir gegn laxalús eða halda í algjöru lágmarki. Þannig hefur náðst að lækka kostnað á síðustu árum og sjókvíaeldisfyrirtækin á Íslandi bætt samkeppnishæfni fyrirtækjanna m.a. gagnvart móðurfyrirtækjum sínum í Noregi.

Hvaða hagsmuni á að verja?

Mikil framleiðsla á laxalús í sjókvíaeldi hefur orðið þess valdandi að laxalús hefur fjölgað mikið á villtum laxfiskum á Vestfjörðum, ollið afföllum og stofnstærðarminnkun. Í umræðunni kemur stundum fram að fjárhagslegir og þjóðhagslegir hagsmunir laxeldis í sjókvíum séu mjög miklir í samanburði við verðmæti villtra laxfiskastofna á Vestfjörðum.  Það ætti þó ekki að vera rökin fyrir því að það megi valda tjóni á villtum íslenskum laxfiskastofnum til að auka arðsemi laxeldisfyrirtækja sem eru skráð á erlendan hlutabréfamarkað og eru með eldi hér á landi.  

Huga þarf að íslenskum hagsmunum

Mikilvægt er að þegar stjórnvöld á næstu árum vinna að því að byggja upp hagstætt fjárfestingaumhverfi fyrir erlenda fjárfesta að tekið verði mið að því að skapa sátt og verja íslenska hagsmuni.  Því miður hefur það ekki verið gert í tilfelli uppbyggingar sjókvíaeldis á Íslandi m.t.t. neikvæðra umhverfisáhrifa laxalúsar frá eldinu.  Það hefur verið valtað yfir íslenska hagsmuni og er það m.a. ein af ástæðum þess að víðtæk ónægja er með uppbyggingu laxeldis í sjókvíum á Íslandi.