Lögum fiskeldi – Verðmæti eldisleyfa Arnarlax

Skýrsla starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi sem gefin var út 23. ágúst 2017 lagði grunn að eignarhaldi og miklum fjárhagslegum ávinningi íslenskra leppa og erlendra fjárfesta.  Hér er verið að fjalla um hvernig þröngur hópur hagsmunaðila sömdu leikreglurnar sjálfum sér og sínum til fjárhagslega ávinnings sem áður hefur verið fjallað um í Morgunblaðinu. Málið fór síðan í gegnum alla stjórnsýsluna með litlum breytingum og var samþykkt á Alþingi Íslendinga á árinu 2019. Uppbygging laxeldis á Íslandi tekur fyrst og fremst mið af því að tryggja fárhagslegan ávinning íslenskra leppa og erlendra fjárfesta.

Verðmæti eldisleyfa

Í síðustu grein höfundar í Morgunblaðinu var fjallað um verðmæti eldisleyfa Arnarlax og var niðurstaðan 1,6 milljón króna á tonn og er þá gengið út frá heimiluðum hámarks lífmassa.  Höfundur hefur ekki aðgengi að jafn góðum gögnum og forsvarsmenn Arnarlax og geta þeir komið með nákvæmara verðmat á eldisleyfum. Verðmætin á hvert tonn geta einnig verið breytilega allt eftir því hvort miðað er við hámarks heimilaðan lífmassa, framleitt magn og hvor búið sé að verðleggja að hluta væntanlegar heimildir sem eru í umsóknarferli o.s.frv.

Heimilaður lífmassi

Arnarlax er nú með leyfi fyrir hámarks lífmassa af laxi upp á 25.200 tonn og í umsóknarferli eru 14.500 tonn. Ef öll eldisleyfin nást hefur Arnarlax heimild til að vera með í sjó allt að 39.700 tonna hámarks lífmassa af laxi og ársframleiðslan getur þá verið yfir 50.000 tonn af laxi upp úr kvíum. 

Áður en laxeldisfyrirtæki getur sótt um leyfi þarf fyrst að fara í gegnum umhverfismatsferli hjá Skipulagsstofnun en þar er fyrst skilað inn matsáætlun, síðan frummatsskýrslu og að lokum matsskýrslu. Fyrir fjölmörg eldissvæði var aðeins búið að skila inn matsáætlun og í tilfelli Arnarlax voru 14.5000 tonn að verðmæti um 23 milljarða króna í óvissu á árinu 2019.

Gildistöku laga frestað

Lög um fiskeldi voru samþykkt frá Alþingi 20. júní 2019. Á milli annarra og þriðju umferðar í meðferð málsins á Alþingi var gerð sú breyting að í stað þess að miða við matsáætlun var miðað við að ganga út frá að búið væri að skila inn frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar.  Þessi ákvörðun hefðu geta slegið út af borðinu mörg áform laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila.  Til að eiga möguleika á að skila inn frummatsskýrslu þurfti að vinna að seinkun gildistöku laganna.  Forseti Íslands staðfesti lögin 1. júlí 2019 og þau voru síðan ekki birt í Stjórnartíðindum fyrr en 18. júlí 2019.  Arnarlaxi náði þar með að skila inn frummatsskýrslu en það hefur ekki verið vilji hjá stjórnvöldum að upplýsa um hver þrýsti á fyrrverandi skrifstofustjóra í ráðuneyti fiskeldis um að láta seinka birtingu laganna.   

10.000 tonna eldisleyfi

Arnarlax er nú með í umsóknarferli hjá Matvælastofnun og Umhverfisstofnun 10.000 tonna eldisleyfi fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Þar sækja þrjú fyrirtæki um 25.000 tonn en skv. áhættumati erfðablöndunar er aðeins heimilt að vera með 12.000 tonna eldi af frjóum laxi. Staða mála skv. afgreiðslu Skipulagsstofnunar er að Arnarlax er aftast í röðinni og fær að óbreyttu engin eldisleyfi  fyrir frjóa lax í þessari afgreiðslu.  Skv. verðlagningu Arnarlax á verðmætum eldisleyfa liggja hér því undir 16 milljarðar króna. Forsvarsmönnum laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila með aðstoða annarra ,,lobbíisma“ hefur gengið ótrúlega vel að misnota opinbera starfsmenn og stofnanir sínum fyrirtækjum til framdráttar undanfarin ár. Það verður áhugavert að sjá hvort framhald verður á því og Arnarlaxi takist að hala inn þessum 16 milljarða króna.

Auknar heimildir

Til að geta nýtt 4.500 tonna eldisleyfi í umsóknarferli til eldis á frjóum löxum og jafnvel 14.500 tonn þarf að auka heimildir í áhættumati erfðablöndunar. Eins og fram hefur komið í fyrri greinum er áhættumat erfðablöndunar úthlutunarkerfi fyrir laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila og hefur lítið sem ekkert með umhverfismál að gera. Hafrannsóknastofnun gefur út áhættumat erfðablöndunar og er gott dæmi um hvernig vísindastofnun lætur misnota sig í pólitískum tilgangi. Áhættumat erfðablöndunar er endurskoðað að lágmarki á þriggja ára fresti og staðan getur því verið sú að Arnarlax verði með eldisleyfi fyrir frjóa laxa að verðmæti upp á rúma 60 milljarða króna jafnvel innan 3-5 ára.

Ávinningur við sölu

Að sjálfsögðu er ávinningurinn ekki í hendi fyrr en við sölu.  Sumir íslenskir leppar og erlendir fjárfestar hafa innheimt ávinninginn með sölu hlutabréfa og jafnvel nú þegar fengið allt sitt til baka með að selja hluta bréfanna.

Greinin í Morgunblaðinu (pdf skjal)