Lög um fiskeldi – Auðlind í eigu útlendinga, ný stefna á Íslandi?

Stefnumótunarskýrslan og erlent eignarhald

Í stefnumótunarskýrslunni er lagt til að ekki verði settar sérstakar takmarkanir á erlent eignarhald í íslensku fiskeldi og ekki heldur settar reglur um dreift eignarhald. Í skýrslunni kemur einnig fram: ,,Þau rök hafa heyrst að hagnaður í fyrirtækjum sem lúta erlendri eignaraðild sé fluttur úr landi og eigendur ráðstafi honum erlendis og fjárfesti ekki hér á landi. Hvort þetta verður raunin á eftir að koma í ljós“.  Þetta er nú reyndar komið fram með því að skrá félögin á erlendan hlutabréfamarkað hafa bréfin ,,hækkað í hafi“ um tugi milljarða króna eins og fjallað hefur verið um í fyrri greinum.

Útlendingar fá auðlindina að mestu endurgjaldslaust

Auðlindin var orðin eign útlendinga, en fyrirtæki með sjókvíaeldi á laxi eru í meirihlutaeigu erlendra aðila en þar eru Norðmenn stærstir. Tökum dæmi Arnarlax en þar var eigið fé í árslok 2019 um 9 milljarðar króna, en félagið metið á um 47 milljarða þegar farið var í hlutafjárútboð. Viðskiptavild um tæpa 40 milljarða hjá þessu eina fyrirtæki er að mestu vegna verðmæta eldisleyfa. Var það ætlun löggjafans að eldisleyfin, auðlindin yrðu eign útlendinga.

Íslendingar þurfa að greiða fyrir fiskveiðiauðlindina

Kvótakerfið hefur fengið mikla gagnrýni og er eflaust ýmislegt  þar hægt að bæta og er það þá hlutverk Alþingi Íslendinga að taka á því  með breytingum á fiskveiðistjórnarlögunum. Á Íslandi er veiðireynsla orðið að varanlegum kvóta og sú eign er í eigu innlenda aðila, að hluta til þeirra frumkvöðla sem hófu útgerð eða útgerða sem hafa keypt kvóta á háu verði. Allar fjárfestingar eru innlendra aðila í sjávarútvegsauðlindinni og innviðum.

Af hverju fá útlendingar auðlindina endurgjaldslaust?

Íslenskir athafnamenn hafa verið leppir útlendinga í laxeldimálum. Þar hafa verið fremstir í flokki stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða með aðstoð f.v. þingmanns Vestfirðinga, ráðherra og forseta Alþingis.  Með  yfirtöku Landssambands fiskeldisstöðva, og koma sér í stefnumótunarhóp og með  ,,lobbýisma“ hefur þeim tekist að láta semja leikreglur sem samþykktar hafa verið með lögum um fiskeldi á Alþingi Íslendinga og þannig náð að tryggja mikinn fjárhagslegan ávinning. Það er því vel skiljanlegt að þeir hafi ekki lagt til að takmarka erlent eignarhald eða gera mikið úr því að hagnaðurinn væri fluttur út úr landi. Nokkrir einstaklingar hafa orðið stórefnaðir á þessu samspili við Norðmennina.

Samanburður

Þegar borið er saman það sem Íslendingar þurfa að greiða fyrir aflaheimildir og erlendir aðilar fyrir eldisleyfin kemur áhugavert fram:

  • Útlendingar fá ókeypis: Í tilfelli Arnarlax geta verðmæti eldisleyfa sem ekki þarf að greiða fyrir verið um 1,6 milljón króna á tonn eða um ein milljón króna á tonn ef miðað er einnig við leyfi sem eru í umsóknarferli.
  • Íslendingar greiða: Í tilfelli varanlegs þorskkvóta þarf að greiða um 3,2 milljónir króna í stóra kerfinu og um 2,5  milljónir króna í litla kerfinu fyrir hvert tonnog er þá miðað við árið 2020.  

Af hverju er aðilum  mismunað?

Það er dálítið skrýtið að heyra vægðalausa gagnrýni stjórnmálamanna á kvótakerfið, en þar eru útgerðaraðilar að greiða umtalsverðar fjárhæðir fyrir aflaheimildir. Á sama tíma er erlendum aðilum færð auðlindin íslenskir firðir án þess að greiða sérstaklega fyrir það.

Nánast allt laxeldi í sjókvíum áformar a.m.k. 100.000 tonn framleiðslu, verðmætara en allur þorskaflinn, yrði að langstærstu leyti í eigu Norðmanna. Í þessu máli er algjör þöggun sem stjórnmálamenn vilja helst ekki ræða enda margir þeirra flæktir í málið og óttast einnig gagnrýni frá viðkomandi byggðarlögðum sem njóta atvinnu af þessari atvinnuuppbyggingu.  Aðdragandinn, vinnubrögðin og sú spilling sem var viðhöfð við undirbúning, gerð laga um fiskeldi og jafnvel eftir að lögin voru samþykkt mun aftur á móti koma af krafti inn í opinbera umræðu á næstu árum og áratugum eins og reyndin hefur verið með kvótakerfið.  Það er e.t.v. hollt að taka strax þessa umræðu í kosningarbaráttunni sem nú er framundan.

Pdf skjal úr Morgunblaðinu