Lög um fiskeldi – Arnarlax ,,kassaði“ inn tugum milljarða með lobbýisma og spilltri stjórnsýslu

Nú hefur höfundur skrifaðar ellefu greinar í Morgunblaðið um spillingu við undirbúning og gerð laga um fiskeldi þar sem gerendur hafa haft að leiðarljósi mikinn fjárhagslegan ávinning.  Þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð nefnast að ,,fanga ríkisvaldið” (e. state capture) og það sorglega er að þeim virðist hafa verið viðhaldið eftir að lögin voru samþykkt frá Alþingi sumarið 2019.

Byggja grunninn

Í upphafi skyldi endinn skoða, hefur eflaust verið gert af íslenskum athafnamönnum sem sóttu um fjölda eldissvæða fyrir laxeldi í sjókvíum. Til að tryggja framgang í leyfisveitingarferlinu og til að geta blokkerað aðra komu stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarðar sér í opinberan stefnumótunarhóp í fiskeldi sem skilaði af sér skýrslu árið 2017 sem fylgt var eftir í gegnum alla stjórnsýsluna. Höfðu erlenda fjárfesta sem bakhjarla og  virðast í raun hafa verið leppar þeirra. Margt jákvætt hefur átt sér stað við uppbyggingu laxeldis í sjókvíum hér að landi, s.s. skapa störf og hleypa nýju lífi í sjávarbyggðir. Það sem er aftur á móti gagnrýnivert er hvernig stjórnarformennirnir nýttu aðstöðu sína við að semja leikreglur sér og  erlendum fjárfestum til fjárhagslegs ávinnings á kostnað annarra m.a. frumkvöðla í sjávarbyggðum.  

Verðmæti Arnalax

Til einföldunar verður aðeins fjallað um fjárhagslegan ávinning hjá einu fyrirtæki, Arnarlax, sem hefur verið leiðandi í uppbyggingu laxeldis í sjókvíum hér á landi.  Arnarlax hefur nú leyfi til að vera með hámarks lífmassa af laxi upp á 25.200 tonn og í umsóknarferli eru 14.500 tonn.  Þegar öll leyfi eru komin í höfn hefur Arnarlax heimild til a vera með í sjó 39.700 tonna hámarks lífmassa af laxi og ársframleiðslan getur þá verið yfir 50.000 tonn af laxi upp úr kvíum.  Eigið fé Arnarlax er metið á um 15 milljarða króna.

Verðmæti eldisleyfa

Fram hefur komið í fjölmiðlum að markaðsverðmæti Arnarlax, sem kallar sig núna Icelandic Salmon í Noregi, er um 52 milljarða króna.    Ísland er á jaðarsvæði fyrir laxeldi í sjókvíum og eru vissar efasemdir um samkeppnishæfni greinarinnar næsta áratug og jafnvel næstu áratugi. „Hækkun í hafi“ um tugi milljarða króna m.a. með skráningu á erlendan hlutabréfamarkað má því eflaust skýra að mestu leiti með verðmæti eldisleyfa.  Hluti af leyfunum eru ennþá í umsóknarferli og kann verðmat á Arnarlaxi á erlendum hlutabréfamarkaði hugsanlega að hækka þegar öll leyfin eru komin í höfn. Gildi lífeyrissjóður og Stefnir fjárfestu fyrir 4 milljarða króna, en eignast fyrir það eingöngu um 8% hlut.

Að fanga ríkisvaldið

Hér er um mikil verðmæti að ræða og því ekki að ástæðulausu að forsvarsmenn laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila hafa farið mikinn undanfarin ár með væntingar um verulegan fjárhagslegan ávinning að leiðarljósi:

  • Farið með hótunum: Til að ná framgang í sínum málum hefur verið farið með hótunum og í sumum tilvikum hefur fyrrverandi opinber starfsmaður og formaður stefnumótunarhópsins, nú lögfræðingur hjá Arnarlaxi, farið fremstur í flokki. 
  • Misnota opinbera starfsmenn: Fyrrverandi ráðherra hefur verið notaður í ,,lobbýisma“ og starfsmenn stjórnsýslunnar hafa verið misnotaðir eins og bent var á í síðustu grein höfundar í Morgunblaðinu.
  • Þrýstingur á þingmenn: Forsvarsmenn laxeldisfyrirtækjanna hafa lagt mikið upp úr að þrýsta á stjórnmálamenn sínum málum til framdráttar og jafnvel eltir út í sjókvíar í kynnisferðum alþingismanna í Noregi.

Eldisleyfi varanleg eign?

Það er búið að skapa mikil verðmæti með því að skrúfa verðmæti eldissvæðanna upp. Þegar kemur að endurnýjun á eldisleyfum eftir 16 ár verður þrýstingur á að um varanlega eign sé um að ræða. Sviðsmyndir gæti verið þessi.:

  • Lækkun á lífeyrir: Ef íslenskir lífeyrissjóðir verða búnir að fjárfest mikið í laxeldinu verður mikill þrýstingur á að eldisleyfin verði framlengd án mikils kostnaðar til að koma í veg fyrir verulega lækkun á hlutabréfum og þar með lífeyri sjóðsfélaga.  
  • Hóta að hætta: Leiðandi fjárfestarjafnvel erlendir eigendur geta hótað að hætta ef eldisleyfin fást ekki aftur ódýrt og þrýstingur verður frá nærsamfélaginu til að koma í veg fyrir að atvinnutækifæri tapist og verðmæti fasteigna lækki.
  • Aftur ódýr eldisleyfi: Þegar að þessum tímapunkti er komið geta þeir sem fyrst komu að borðinu verið búnir að selja sinn hlut og taka út ávinninginn.  Það munu hluthafar sem eftir eru, hugsanlega mest íslenskir,  benda á og fara fram á að leyfin fáist aftur ódýr.

Beiðni um opinbera rannsókn

Það hljóta margir áhrifamenn að skammast sín, sem hafa greitt götu eða látið undan miklum þrýstingi stjórnarformannanna og annarra sem hafa unnið vel og skipulaga að sínum málum með mikinn fjárhagslegum ávinning að leiðarljósi.  Þess hefur ítrekað verið óskað að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd láti fara fram opinbera rannsókn, en nefndin hefur valið þá leið að reyna að þagga málið niður með því að svar ekki beiðnum.  Eflaust hugsa menn að e.t.v. er best að sópa þessu máli undir teppi.

Greinin í Morgunblaðinu 28.06.2021