Lög um fiskeldi – Stefnumótun stjórnvalda um fiskeldi varð að stefnumótun sérhagsmunaaðila – Og nokkrir ,,kössuðu“ inn

Þann 6. október 2016 birtist frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis þar sem m.a. var  boðuð vinna við stefnumótun á fiskeldi. ,,Sett verður af stað vinna við stefnumótun fyrir allt fiskeldi á Íslandi. Í þeirri vinnu verður m.a. fjallað um umhverfisþætti, stjórnsýslu, gjaldtöku, útgáfu rekstrarleyfa, menntunarmál ásamt efnahags- og samfélagslegum þáttum“.  Jafnframt var bent á að ,,mikilvægt er að skilyrði og umgjörð um greinina séu eins og best verður á kosið og í sem mestri sátt bæði við samfélag og  umhverfi“.  Var það gert?

Til fjárhagslegs ávinnings

Í stuttu máli var niðurstaðan sú að það sem átti að vera stefnumótun stjórnvalda og greinarinnar varð að stefnumótun þröngs hóps fjársterkra hagsmunaaðila.  Skýrsla starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi sem gefin var út þann 23. ágúst 2017 setti leikreglurnar sem voru skjalfestar í  lögum um fiskeldi árið 2019 og lagði grunn að fjárhaglegum ávinningi laxeldisfyrirtækja í meirahlutaeigu erlendra aðila. Laxeldisfyrirtækin voru skráð á erlendan hlutabréfamarkað, mikil hækkun varð í hafi og búið er að taka út hagnaðinn af eldissvæðunum eins og bent hefur verið á í fyrri greinum. Ávinningurinn fer að mestu til erlendra fjárfesta en með réttu hefði skattgreiðendur átt að njóta.  

Stefnumörkun sérhagsmunaaðila

Það voru fyrst og fremst fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva, stjórnarformenn stærstu laxeldisfyrirtækja landsins sem réðu för í vinnu stefnumótunarhópsins, meðferð málsins í stjórnsýslunni og á Alþingi.  Niðurstaðan var stefnumótun fyrir sérhagsmunaaðila til að tryggja þeim fjárhagslegan ávinning.  Lítið eða ekkert var tekið tillit til athugasemda s.s. minni íslenskra fiskeldisfyrirtækja og sveitafélaga. Áherslan í stefnumótunarskýrslunni var sjókvíaeldi á laxi og mikið lagt upp úr að setja ofan í aðila sem hafa reynt að sýna ábyrgð í umhverfismálum. Með innleiðingu áhættumats erfðablöndunar var sú stefna lögð að umhverfissóðarnir þurfa ekki að taka til eftir sig.

Draga úr kostnaði og setja hindranir

Í stefnumótunni var lögð áhersla á að drag úr kostnaði og setja hindranir til að ná fjárhagslegum ávinningi og í stuttu máli má nefna eftirfarandi:

  • Lágmarka kostnað: Kostnaði vegna umhverfismála var haldið í lágmarki og niðurstaðan er að Íslendingar standa að baki nágrannalöndum í umhverfismálum laxeldis.
  • Auka verðmætin:  Leyfistíminn var lengdur og þannig voru eldissvæðin gerð að meiri verðmætum en á sama tíma gert örðugra að taka á umhverfismálum vegna nauðsynlegrar skipulagsbreytinga.
  • Setja hindranir: Þannig var búið um hnútana að hægt var að halda eldissvæðum fyrir ófrjóan laxa a.m.k. í fimm ár án þess að nýta svæðið til eldis eða greiða af þeim auðlindagjald.  Þegar lög um fiskeldi voru samþykkt árið 2019 var eldi á ófrjóum laxi búið að vera í þróun í þrjá áratugi og ekkert útlit fyrir að þeirri vinni lyki á næstunni.

Að fanga ríkisvaldið

Það er athyglisvert hvernig unnið var að lobbýisma til að fylgja málinu eftir í gegnum stjórnsýsluna og alþingi. Fengnir voru aðilar til að vinna að framgagni málsins:

  • Tengslanet: Fyrrverandi alþingsmaður, ráðherra og forseti alþingis sem hafði góðan aðgang að áhrifamönnum var dreginn að borðinu strax í upphafi stefnumótunarvinunnar til að fylgja málinu eftir í gegnum stjórnsýsluna og alþingi – Eflaust hefur verið lagt upp með góðum huga en ekki víst að menn hafi áttað sig á því hvernig málin myndu þróast með miklum fjárhagslegum ávinningi erlendra fjárfesta og íslenskra frumkvöðla sem áttu sæti í stefnumótunarhópnum.   
  • Starfsmaðurinn: Fenginn var starfsmaður til að vinna fyrir stefnumótunarhópinn sem jafnframt var starfsmaður stjórnarformanns laxeldisfyrirtækis í meirihlutaeigu erlendra aðila og sat í stefnumótunarhópum.  Starfsmaðurinn hafði aðstöðu í ráðuneytinu.
  • Opinberir starfsmenn: Því er velt fyrir sér í hve miklu mæli opinberir starfsmenn hafa verið misnotaðir.  Formaður stefnumótunarhópsins sem var lögfræðingur í ráðuneytinu fór m.a. að starfa fyrir laxeldisfyrirtæki í meirihluta erlendra aðila fljótlega eftir að stefnumótunarskýrslan var gefin út. Sama má segja um skrifstofustjóra ráðuneytisins sem hvarf úr ráðuneytinu fljótlega eftir útgáfu laganna árið 2019.  Það hefur verið kallað eftir skýringum, en líkleg ástæða er seinkun á útgáfu fiskeldislaganna til að gefa laxeldisfyrirtækjum í meirihlutaeigu erlendra aðila möguleika að komast í ákveðna stöðu í umsóknarferlinu.  

Opinber rannsókn?

Ítrekað hefur verið farið fram á það við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis frá því að lög um fiskeldi voru samþykkt að opinber rannsókn verði gerð á málinu.   Nefndin hefur farið þá leið, væntanlega með það í huga að þagga málið niður, að svara ekki beiðni minni um opinbera rannsókn.  Það kann að vera að sumum finnist þetta vera eðlileg pólitík – en aðrir benda á að hér sé um að ræða slæmt siðferði eða spillingu þar sem drifkrafturinn er mikil hagnaðarvon.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. maí 2021

Morgunblaðið 19. Maí 20121