Áhættumat erfðablöndunar og viðbrögð við slysasleppingum

Áhættumat erfðablöndunar gefið út af Hafrannsóknastofnun árið 2017 felur í sér að horfa, gera ekki neitt og mæla síðan tjónið.  Það gengur út á að leggja mat á hvort atburður hafi átt sér stað og grípa þá til aðgerða. Einu viðbrögðin eftir að ljóst er að eldislax hefur sloppið er að veiða við sjókvíar. Í Noregi þar sem búið er að glíma við áratuga langa erfðablöndun í villtum laxastofnum er áherslan á að koma í veg fyrir að eldislax nái að hrygna í veiðivötnum með að fjarlægja fiskinn. Gróflega má skipta veiðum á strokulaxi í fjögur þrep:

 • Veiðar við eldiskvíar.
 • Veiðar í sjó utan eldissvæða.
 • Hindra uppgöngu ósasvæðum.
 • Fjarlægja eldislax úr veiðivatni um haustið fyrir hrygningu.

Veiðar við eldiskvíar

Fyrstu viðbrögð eftir að eldislax sleppur er að reyna að veiða hann upp við sjókvíar. Að öllu jöfn leitar strokulax strax frá sjókvíum og kemur því í mjög litlu mæli fram í veiðum við sjókvíar. Veiðar við sjókvíar eftir að uppgötvast hefur gat á netpoka gefa því engar eða litlar upplýsingar um hvort eða í hve miklu mæli eldislax hefur sloppið. Í raun er hér um ræða hreina sýndarmennsku og tilkynningar um að enginn eldislax hafi sloppið byggja á vafasömum forsendum.   

Veiðar í sjó utan eldissvæða

Almennt hafa veiðar á eldislaxi í sjó ekki skilað nægilega miklum árangri og eru jafnframt umdeildar og umræða er að aukast um að hugsanlega sé skaðinn meiri en ávinningurinn.  Líkur á að veiða eldislax í sjó er háður fiskstærð og tímasetningu sleppingar. Lítið veiðist af seiðum sem sleppa en endurheimtur aukast síðan með aukinni fiskstærð. Vegna þeirra hefðar að veiða ekki lax í sjó á Íslandi þá eru ekki miklar líkur á eða skynsamlegt að þessari aðferð verði notuð hér á landi sérstaklega á þeim tíma sem laxfiskar eru í mestu mæli í sjó.  

Hindra uppgöngu á ósasvæðum

Með notkun gildru í fiskistiga eða með því að þvergirða veiðiár er mögulegt að hindra og flokka frá eldislax og hleypa villtum laxi upp í ánna. Þessi aðferð er tiltölulega kostnaðarsöm en hefur í örfáum tilfellum verið beitt erlendis.   Skv. upphaflegu áhættumati erfðablöndunnar gefið út af Hafrannsóknastofnun árið 2017 er ekki gert ráð fyrir að koma fyrir gildru eða öðrum búnaði við árvaka til að fanga og flokka frá eldislax.  Það á að horfa á slysin gersast í beinni útsendingu með upptöku í árvökum án þess að gripið verði strax til aðgerða.  Einhverja bakþanka hafa höfundar fengið, þar sem með nýju og uppfærðu áhættumati erfðablöndunar er gert ráð fyrir að hindra og fjarlægja eldislax í tilfelli stórra slysaslepping. Hvað er átt við með stórri slysasleppingu er óljóst en fjallað verður nánar um þessa breytingu í seinni grein.    

Fjarlægja eldislax úr veiðivatni

Eins og gert hefur verið grein fyrir í fyrri greinum er það verklag viðhaft í Noregi að fjarlægja eldislax úr veiðiám fyrir hrygningu á haustin og byggir á eftirfarandi:  

 • Þekktur uppruni: Þegar slysaslepping á sér stað tekur Fiskistofa ákvörðun hvort og þá í hve miklu mæli farið verður í aðgerðir til að fjarlægja strokulax úr veiðiám. Laxeldisfyrirtæki sem er eigandi strokulaxins er gert skylt að greiða kostnaðinn og óháður fagaðili er fenginn til að framkvæma vöktunina og fjarlægja eldislaxinn. 
 • Óþekktur uppruni: Fjarlægja eldislax úr veiðiám af óþekktum uppruna, framkvæmt af óháðum fagaðila og kostað af sjóði sem eldisfyrirtækin fjármagna. Aðallega er farið í veiðiám þar sem talið er mest sé af strokulaxi.

Af hverju eru tillögur Fiskistofu hunsaðar?

Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi lagði til að áhættumat erfðablöndunar yrði notað árið 2017 skv. tillögum Hafrannsóknastofnunnar. Í meðferð málsins við undirbúning og gerð breyting á lögum um fiskeldi var bent á og mælt með norsku leiðinni.  Í greinagerð Fiskistofu vegna beiðni um upplýsingar í tengslum við stefnumótun starfshóps í fiskeldi sem fylgdi með í umsögn Fiskistofu með fiskeldisfrumvarpinu vorið 2018 kemur eftirfarandi fram: ,,Ef eldisfiskar finnast í veiðivötnum má skipuleggja aðgerðir til að fjarlægja þá, ef það er mögulegt, eða koma í veg fyrir að fleiri eldisfiskar komist í viðkomandi veiðivatn. Slíka vöktun gæti Hafrannsóknastofnun annast í samráði við Fiskistofu“. Af hverju voru tillögur Fiskistofu og annarra fagaðila hunsaðar?  Einnig er spurt af hverju er gert ráð fyrir að fjarlægja eldislax í tilfelli stórra slysasleppinga í nýju og uppfærðu áhættumati erfðablöndunar sem gefið var út á þessu ári?

Tvö verkfæri

Í áhættumati erfðablöndunar er lagt til að nota tvö viðmið til að virkjuð verði viðbrögð sem eru:

 1. Hlutfall eldislaxa í veiðivötnum og er miðað við 4%.
 2. Erfðablöndun, en þar er viðmiðið óskilgreint og óljóst

Ofangreind viðmið þarf stofnunin að styðjast við þegar tillögur eru lagðar fram um viðbrögð.  Þau mynda grunn að ákvarðanatöku um aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum og því grunnurinn að því að áhættumat erfðablöndunar skili sínu hlutverki.   Vandamálið er að viðmiðin byggja á mjög veikum grunni eins og áður hefur komið fram og stofnunin hefur ekki gert grein fyrir framhaldi eða frekari útfærslum.

Hvernig á að vinna?

Hafrannsóknastofnun stendur frammi fyrir eftirfarandi viðfangsefnum í sinni ráðgjöf til stjórnvalda sem þýðir að það:

 • Verður ekki hægt að reikna út hlutfall eldislaxa nema í örfáum veiðivötnum, ef fylgt er tillögum áhættumats erfðablöndunar.
 • Er ekki alltaf samhengi á milli hlutfalls eldislaxa í veiðivatni og erfðablöndunar.
 • Er ekki til neitt viðmið fyrir erfðablöndun. 

Hvernig ætlar Hafrannsóknastofnun að veita stjórnvöldum ráðgjöf þegar grundvallar forsendur fyrir viðmið til ákvörðunartöku vantar?   Verða ráðleggingar byggðar á geðþóttarákvörðunum?

Hér er hægt að sækja PDF skjal úr Bændablaðinu