Lífeyrir almennings notaður til að fjármagna íslensku leiðina

Í upphafi skyldi endinn skoða, sem eflaust hefur verið gert af íslenskum frumkvöðlum sem sóttu um fjölda eldissvæða fyrir laxeldi í sjókvíum. Auðlindin (íslenskir firðir) er verðmæti og til að hún gæti skapað fjárhagslegan ávinning þurfti að fá leyfi en mikil tregða var í leyfisveitingarkerfinu.  Til að liðka fyrir þurfti því að setja málið í ákveðinn farveg, útbúa leikreglur sem síðan var gengið með í gegnum stjórnsýsluna til að tryggja laxeldisfyrirtækjum í meirihlutaeigu erlendra aðila fjárhagslegan ávinning.  Ferlinu lauk síðan með því að íslenskir lífeyrissjóðir voru dregnir að borðinu.

Ferli málsins

Í stuttu og mjög einfaldari mynd má lýsa ferlinu á eftirfarandi hátt:

  • Auðlindin tekin:Sótt um fjölda eldissvæða til að koma sér í ákveðna stöðu með möguleika á fjárhagslegum ávinningi.
  • Sett í sölubúning: Útbúin viðskiptaáætlun, eldissvæðin eru verðmæti og erlendir aðilar með fjármagn fengnir að borðinu.
  • Sérhagsmunagæsla: Stjórnarmenn stærstu laxeldisfyrirtækjanna skipuðu sig í opinberan stefnumótunarhóp til að tryggja sína sérhagsmuni.
  • Sérhagsmunagæsla: Gefin út opinber stefnumótunarskýrsla sem gefur væntingar um fjárhagslegan ávinning.
  • Stjórnsýslan: Í ráðuneytinu var skortur á faglegu rýni og  tillögur stefnumótunarskýrslunnar skrifaðar því sem næst óbreyttar inn í fiskeldisfrumvarpið.
  • Stjórnsýslan: Alþingi Íslands stoppaði af ýmis áform en í gegn fóru þó margar tillögur sem tryggðu fjárhagslegan ávinning.
  • Stjórnsýslan: Gildistöku laganna frestað til að gefa laxeldisfyrirtækjum í meirihlutaeigu erlendra tækifæri að skila gögnum til Skipulagsstofnunar. 
  • Auka ávinning: Hlutabréf sett á erlendan hlutabréfamarkað og náðst hefur verulegur fjárhagslegur ávinningur, mest hjá þeim sem fyrst komu að borðinu.
  • Viðhalda ávinningi: Lífeyrissjóðirnir m.a. fengnir að borðinu þegar fyrstu fjárfestarnir eru búnir að taka út framtíðarhagnað af auðlindinni.

Íslenska leiðin

Grunnur að íslensku leiðinni var lagður með skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi með hagstæðum tillögum fyrir laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila.  Fjársterkir hagsmunaaðilar vösuðust þar með stefnumótun stjórnvalda og leikreglur voru mótaðar til að þjóna eigin sérhagsmunum.  Það sem átti að vera stefnumótun stjórnvalda og greinarinnar varð að stefnumótun þröngs hóps fjársterkra hagsmunaaðila. Bent hefur verið á að sú leið sem hefur verið notuð við undirbúning og gerð laga um fiskeldi sé kölluð að fanga ríkisvaldið (e. state capture). 

Það er búið að taka út framtíðarhagnaðinn

Í fjölmiðlum hefur verið fjallað um verðmæti og hækkun hlutabréfa laxeldisfyrirtækja.  Eldissvæðin í skjólgóðum fjörðum á Íslandi eru verðmætin og það hefur átt sér stað hækkun í hafi með að skrá bréfin á erlendan hlutabréfamarkað. Laxeldisfyrirtækin eru í meirihlutaeigu erlendra aðila og það er fyrst og fremst þeir sem hafa tekið út hagnaðinn af auðlindinni sem skattgreiðendur hefðu með réttu átt að njóta.  Hefur enginn fjölmiðill á Íslandi áhuga að láta reikna út og birta þann ávinning sem búið er að taka út?

Hvers er að vænta?

Ísland er á jaðarsvæði fyrir sjókvíaeldi á laxi og mun árangurinn og samkeppnishæfni greinarinnar ráðast mikið af því hvernig sjávarhitastig þróast á næstu áratugum. Afkoma í greininni á alþjóðavísu hefur verið ævintýri líkust en þannig verður það ekki til eilífðar. Með lækkandi markaðsverði munu þau lönd eða fyrirtæki sem eru með hæstan framleiðslukostnað fyrst lenda í rekstrarvanda. Þegar sú staða kemur upp munu þeir hluthafar sem síðastir komu að borðinu fyrst og fremst tapa fjármunum eins og t.d. lífeyrissjóðirnir.

Þátttaka lífeyrissjóða

Það er margt jákvætt við uppbyggingu laxeldis, ný störf, auknar útflutningstekjur o.frv. Eflaust hafa verið haldnir flottar glærukynningar fyrir lífeyrissjóðina til að selja þeim hugmyndina, en Gildi og Stefnir eru m.a. þeir sjóðir sem hafa fjárfest í laxeldisfyrirtækjum. Þegar búið er að taka út framtíðarhagnaðinn koma íslenskir lífeyrissjóðir fyrst að borðinu.  Það er full ástæða fyrir eigendur sjóðanna að hafa áhyggjur hvernig staðið er að ávöxtum þeirra lífeyris. 


Engin opinber rannsókn

Uppbygging laxeldis á Íslandi hefur einkennst af samtímahugsun með fljóttekinn hagnað að leiðarljósi en skortur hefur verið á langtímahugsun með það að markmiði að byggja upp samkeppnishæfa atvinnugrein í sátt við samfélag og umhverfi.  Sumir dáðst eflaust af því hvernig þröngur sérhagsmunahópur hefur náð að fanga ríkisvaldið og ná fjárhagslegum ávinningi.  Það  verður að gefa ríkisvaldinu falleinkunn í sinni frammistöðu. Maður skilur það betur og betur af hverju það er ekki vilji fyrir því að fram fari opinber rannsókn á málinu.

Hægt að sækja pdf skjal af greininni HÉR