Aðrar tegundir

Hrognkelsi

Nýlega er byrjað að framleiða hrognkelsaseiði fyrir sjókvíaeldi en þar eru seiðin notuð til að éta lús af laxfiskum. Framleidd hafa verið seiði sem flutt hafa verið til nágrannalanda. Framleiðendur hafa verið Stofnfiskur og Tilraunareldisstöð Hafrannsóknastofnunnar á Stað við Grindavík.

Sæeyra

Árið 1988 voru fyrst flutt inn sæeyru (Haliotis rufescens) til Íslands. Framleiðslan hefur mest verið um 25 tonn á ári. Sæeyru af þremur tegundum eru nú í eldi á vegum Sæbýlis ehf. á Eyrarbakka. Gerðar hafa verið tilraunir með „rauð eyru“ (Haliotis rufescens), „græn eyru“ eða Ezo (Haliotis discus hannai) og Kuro (Haliotis discus discus). Í dag virðist Ezo-tegundin vera sú tegund sem lofar bestu.

Beitarfiskur

Beitarfiskur eða Hekluborri er hitakær tegund sem hefur verið í tilraunareldi á Íslandi. Framleiðsla fram að þessu hefur verið mjög lítil.

Ostrur

Ungviði hefur verið flutt inn til landsins og ræktað í búrum í Skjálfandaflóa í nágrenni við Húsavík. Fram að þessu hefur ekki tekist að ná að rækta skelina upp í markaðsstærð.Óvissa er um framhald ræktunar á ostrum á Íslandi.

Eldi á öðrum tegundum

Nokkrar aðrar tegundir hafa einnig verið í eldi á Íslandi en framleiðsla þeirra er hætt í flestum tilvikum.

Lúða: Eldi á lúðu var stundað á Íslandi í mörg ár en lagðist af fyrir nokkrum árum. Mest var framleitt tæp 150 tonn á ári og einnig var flutt út mikill fjöldi lúðuseiða.

Sandhverfa: Tegundin er tiltölulega hitakær og var skráð framleiðsla frá aldamótum til ársins 2013. Mest var framleitt um 110 tonn á ári en einnig voru flutt út sandhverfuseiði.

Sjóbirtingur: Tegundin var í eldi fram undir aldamótin og var framleiðslan mest tæp 40 tonn á ári. Framleiðsla seiða til sleppinga í ár og vötn er og hefur verið stunduð hér á landi.

Hlýri: Upp úr 2000 var tilraunareldi á hlýra stundað í nokkur ár.

Barri: Tegundin er tiltölulega hitakær tegund og var í eldi á Íslandi í kringumn aldamótin. Mest fór framleiðslan í um 75 tonn á ári.

Ýsa: Aðallega var um að ræða að smá ýsa væri fönguð og alinn upp í markaðsstærð. Eldið stóð yfir í stuttan tíma og var slátrað um 65 tonnum eitt árið.

Sæbjúgu: Eldi á sæbjúgu (Stichopus japonicus) hefur aðeins verið á tilraunarstigi og framtíð eldisins óljós.

Risarækja: Tilraunareldi á risarækju (Macrobrachium rosenbergii) var stundað um miðjansíðasta áratug, en framleiðslan náði aldrei einu tonni á ári.

Áll: Veiðar á áli og áframeldi hefur verið stundað í mjög litlu mæli.

Ígulker: Veiðar á villtum ígulkerjum og áframeldi hefur verið stundað í mjög litlu mæli.

Lesefni