Lög um fiskeldi – Grunnur lagður að erlendu eignarhaldi með ,,lobbíisma“ og spilltri stjórnsýslu

Margir firðir á Íslandi gefa gott skjól til sjókvíaeldis og eru að því leyti auðlind.  Til að leggja grunn að miklum fjárhagslegum ávinningi fyrir útlendinga þurfti að semja leikreglur sem hentuðu erlendum fjárfestum. Skýrsla starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi sem gefin var út 23. ágúst 2017 leggur grunn að eignarhaldi og miklum fjárhagslegum ávinningi erlendra aðila við uppbyggingu sjókvíaeldis á laxi á Íslandi. Í starfshópnum var þröngur hópur hagsmunaaðila sem vann fyrst og fremst að því að tryggja sína sérhagsmuni, ásamt opinberum aðilum sem ekki voru að vinna sína heimavinnu. Málið fór síðan í gegnum alla stjórnsýsluna með litlum breytingum og var samþykkt á Alþingi Íslendinga á árinu 2019.

Greinin í Bændablaðinu 08.07.2021

Kvörtun til Umboðsmanns Alþingis

Þann 28. maí 2019 var send beiðni til Umboðsmann Alþingis og óskað eftir opinberri úttekt vegna þeirra alvarlegu annmarka á vinnubrögðum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Þann 7. júní var beiðninni svarað en þó er virtist án þess að framgangur næðist í málinu. Þann 10. desember 2019 var send ítrekun til Umboðsmanns Alþingis og m.a. bent á að fjölmargir tölvupóstar hafi verið sendir til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og auglýst eftir viðbrögðum án þess að svör hafi borist. Þann 18. júní 2021 var aftur ítrekað við Umboðsmann Alþingis og nú með kvörtun um að Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis svarar ekki beiðnum mínum um opinbera rannsókn. Framvinda hefur nú verið í málinu þannig að það hefur fengið númerið 11183/2021 í málaskrá embættisins. Í svari umboðsmanns kemur fram að honum bresti lagaskilyrði til að taka á þessu máli.

Lög um fiskeldi – Arnarlax ,,kassaði“ inn tugum milljarða með lobbýisma og spilltri stjórnsýslu

Nú hefur höfundur skrifaðar ellefu greinar í Morgunblaðið um spillingu við undirbúning og gerð laga um fiskeldi þar sem gerendur hafa haft að leiðarljósi mikinn fjárhagslegan ávinning.  Þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð nefnast að ,,fanga ríkisvaldið” (e. state capture) og það sorglega er að þeim virðist hafa verið viðhaldið eftir að lögin voru samþykkt frá Alþingi sumarið 2019.

Greinin í Morgunblaðinu 28.06.2021