Áhættumat erfðablöndunar sem íslenska leiðin

Nú hafa verið birtar sjö greinar um áhættumat erfðablöndunar í Bændablaðinu og bent á ýmsa vankanta áhættumatsins og er stutta samantekt að finna í töflu 1.  Áhættumat erfðablöndunar var fyrst gefið út af Hafrannsóknastofnun árið 2017 og staðfest í lögum um fiskeldi árið 2019 og varð grunnur að úthlutun framleiðsluheimilda á frjóum laxi til fyrirtækja í meirihlutaeigu erlenda aðila.

Áhættumat erfðablöndunar og viðbrögð við slysasleppingum

Áhættumat erfðablöndunar gefið út af Hafrannsóknastofnun árið 2017 felur í sér að horfa, gera ekki neitt og mæla síðan tjónið.  Það gengur út á að leggja mat á hvort atburður hafi átt sér stað og grípa þá til aðgerða. Einu viðbrögðin eftir að ljóst er að eldislax hefur sloppið er að veiða við sjókvíar. Í Noregi þar sem búið er að glíma við áratuga langa erfðablöndun í villtum laxastofnum er áherslan á að koma í veg fyrir að eldislax nái að hrygna í veiðivötnum með að fjarlægja fiskinn. Gróflega má skipta veiðum á strokulaxi í fjögur þrep:

  • Veiðar við eldiskvíar.
  • Veiðar í sjó utan eldissvæða.
  • Hindra uppgöngu ósasvæðum.
  • Fjarlægja eldislax úr veiðivatni um haustið fyrir hrygningu.

Áhættumat erfðablöndunar og vöktun laxastofna

Vöktun er mikilvæg til að fylgjast með því hvort eldislax sé að ganga upp í veiðiár og er grunnforsenda þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir. Hafrannsóknastofnun hefur ekkert minnst á haustvöktun og lætur þannig hjá líða að upplýsa stjórnvöld um virkustu vöktunaraðferðina sem er forsendan fyrir því að hægt verði að meta hlutfall eldislaxa í veiðivötnum hér á landi á hagkvæman og skilvirkan hátt.  Haustvöktun gengur út á að kafað er í veiðiár að hausti og taldir villtir laxar og eldislaxar.

Áhættumat erfðablöndunar og mótvægisaðgerðir

Mótvægisaðgerðir geta verið fjölmargar; tryggja sjálfbærni villta laxastofna eins og fjallað var um í fyrri grein og aðgerðir sem má skipta niður í  fyrsta og annað þrep mótvægisaðgerða:

  • Fyrsta þrep mótvægisaðgerða sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir að eldislax sleppi úr eldiskvíum. 
  • Annað þrep mótvægisaðgerða sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir að eldislax sem sleppur nái að hrygna í veiðivötnum.

Ein besta mótvægisaðgerðin, sem reyndar hefur verið í gildi í tæp tuttugu ár, er að staðsetja laxeldi í sjókvíum á svæðum þar sem er tiltölulega lítil laxveiði.

Áhættumat erfðablöndunar og sjálfbærir villtir laxastofnar

Bent hefur verið á að þegar um er að ræða sterkan laxastofn í veiðiá eru minni líkur á að eldislax geti valdið erfðablöndun.  Það þarf því að tryggja að í hverri veiðiá á eldissvæðum séu sterkir sjálfbærir laxastofnar sem er ein mikilvægasta mótvægisaðgerðin til að hindra eða draga verulega úr líkum á að erfðablöndun geti átt sér stað.

Fiskeldisfréttir endurvaktar

Fiskeldisfréttir endurvaktar en þær voru áður gefnar út á árunum 2009 til 2017. Nýrri útgáfa Fiskeldisfrétta  verður nú gefin út í breyttu formi, þ.e.a.s. blaðið verður notað til að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum ritstjóra um ýmis mál er tengjast fiskeldi.

Þessi útgáfa Fiskeldisfrétta verður tileinkuð þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð við undirbúning og gerð laga um fiskeldi þar sem drifkrafturinn var fjárhagslegur ávinningur ákveðinna aðila. Stærsti hluti efnisins hefur áður birst í Morgunblaðinu en greinarnar mynda hér eina heild.

Hægt er að sækja Fiskeldisfréttir Hér