Fljótandi að feigðarósi

Flokkast íslenska leiðin undir spillingu?

Stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða sem eru nú í meirihlutaeigu erlendra aðila komu að undirbúningi og gerð laga um fiskeldi.   Málið snýst ekki um að nýta sér tækifærin, heldur að vera leiðandi við hönnun á leikreglum, skjalfest í lögum, sjálfum sér og sínum fyrirtækjum til fjárhagslegs ávinnings á kostnað annarra.  Það sem átti að vera stefnumótun stjórnvalda varð að stefnumótun sérhagsmuna laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila.  Af fræðimönnum kallast þessi aðferðafræði að ,,fanga ríkisvaldið” (e. state capture).

Valdimar Ingi Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur hjá Sjávarútvegsþjónustunni ehf. hefur ýmislegt reynt til að vekja athygli á þessu máli:

  • Stefnumótun: Sent gögn með athugasemdum til löggjafans, alþingismanna á Alþingi Íslendinga.
  • Opinber úttekt: Óskað eftir opinberri rannsókn með að senda beiðni til stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar og umboðsmanns alþingis.
  • Fjölmiðlar: Sent fréttatilkynningar á fjölmiðla til að fá þá til að fjalla um málið.
  • Upplýsa: Skrifað greinar í blöð til að kynna málið, samfélagsmiðlar hafa verið notaðir og jafnframt sendir tölvupóstar á fjölda aðila til að upplýsa.
  • Rannsókn: Þar sem ekki hefur tekist að fá framkvæmda opinbera rannsókna eftir að hafa reynt í um þrjú ár hefur Sjávarútvegsþjónustan ákveðið að fara út í samfélagsverkefni gegn spillingu sem felur í sér að rannsaka undirbúning, gerð laga um fiskeldi og vinnubrögðin eftir að lögin voru samþykkt.  

Stefnumótun

Þann 29. mars 2019 var send umsögn vegna frumvarps til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Þingskjal 1060 – 647. mál á 149. löggjafarþingi 2018- 2019. Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi sem fiskeldisfrumvarpið byggir að stórum hluta á. Jafnframt voru gerðar athugasemdir við svokallað „Áhættumat erfðablöndunar“, sem starfshópurinn byggði niðurstöður sínar að hluta til á. Umsögnin Fljótandi að feigðarósi er að finna á vef Alþingis.


Opinbera rannsókn

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Þann 20. maí 2019 var sendur tölvupóstur til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og allir alþingismenn fengu afrit. Þar var óskað eftir að gerð væri opinbera rannsókn vegna alvarlegra annmarka á vinnubrögðum starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi. Með tölvupóstinum fylgdu ítarlegar greinagerðir:

Það var síðan í fjórgang, þ.e. 15. ágúst, 11. september, 24. september og 8. október 2019 send ítrekun til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en einhverra hluta vegna hafa engin svör borist. Það var því ákveðið að fara aðra leið til að reyna ná framgangi í málið. Á tímabilinu október til desember 2019 var auglýst eftir viðbrögðum í Morgunblaðinu, einnig án árangurs. Aftur er farið af stað og óskað eftir opinberri rannsókn með að senda beiðin í tölvupósti þann 26.03.2021 til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Hunsun við þessari beiðni má e.t.v. sjá í samhengi þess að núverandi alþingismenn eru aðilar málsins. Það er því vart að vænta framgangs fyrr en með nýjum mönnum á þinginu eða ……….

Umboðsmaður alþingis

Þann 28. maí 2019 var send beiðni til Umboðsmann Alþingis og óskað eftir opinberri úttekt vegna þeirra alvarlegu annmarka á vinnubrögðum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Þann 7. júní var beiðninni svarað en þó er virtist án þess að framgangur næðist í málinu. Þann 10. desember 2019 var send ítrekun til Umboðsmanns Alþingis og m.a. bent á að fjölmargir tölvupóstar hafi verið sendir til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og auglýst eftir viðbrögðum án þess að svör hafi borist. Þann 18. júní 2021 var aftur ítrekað við Umboðsmann Alþingis og nú með kvörtun um að Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis svarar ekki beiðnum mínum um opinbera rannsókn. Framvinda hefur nú verið í málinu þannig að það hefur fengið númerið 11183/2021 í málaskrá embættisins. Í svari umboðsmanns kemur fram að honum bresti lagaskilyrði til að taka á þessu máli.


Fjölmiðlar

Þann 11. júní 2019 var sendur póstur til fjölmiðla og þar kom m.a. eftirfarandi fram: ,,Fjölmiðlar eru hvattir til að kynna sér málið vel og jafnframt að viðhafa faglega og góða rannsóknablaðamennsku við umfjöllun sína um þetta mál. Vonandi geta meðfylgjandi gögn nýst við þá vinnu. Undirritaður hefur starfað við fiskeldi á Íslandi með hléum í um 30 ár, á seinni árum m.a. unnið við umhverfismöt fyrir fiskeldi, komið að gerð reglugerða og laga fyrir fiskeldi.  Vegna vinnu minnar á síðust árum tel ég mig hafa ágæta þekkingu á þeim málum sem tekin eru fyrir í meðfylgjandi greinagerðunum. Undirritaður eru reiðubúinn að veita frekari upplýsingar sé þess óskað”DV birti hluta af fréttatilkynningunni en enginn fjölmiðill annar hefur lagt sig fram að nýta gögnin eða afla frekari upplýsinga”.

Örfáir fjölmiðlar hafa síðan haft samband og óskað eftir viðtali en þeim hefur verið bent á og vísað til ofannefnds fréttabréfs þar sem fjölmiðill er hvattur til að kynna sé málið vel og viðhafa góða rannsóknablaðamennsku til að undirbyggja faglegan fréttaflutning af málinu.   Það er ekki ætlunin að koma fram í fjölmiðlum sem andlit þessa máls út á við eða eltast við stjórnmálamenn til að reyna ná framgangi í málið. Það er einfaldlega of mikil vinna og í því sambandi er bent á að undirritaður hefur engan fjárhagslega ávinning af þessu máli aðra en almennt gerist með skattgreiðendur. Mitt hlutverk verður a.m.k. fyrst í stað að upplýsa sem ætti í raun að vera verkefni fjölmiðla.   Það er helst Stundin sem hefur fjallað um afmarkaðan hluta málsins, sérstaklega er varðar fjárhagslegan ávinning leiðandi aðila.


Upplýsa

Greinar sem fjalla um vinnubrögðin

Skrifaðar hafa verið níu greinar í Morgunblaðið um vinnubrögðin við undirbúning og gerð laga um fiskeldi. Fyrstu sjö greinarnar í þessum greinaflokki sem birtiust árinu 2020 er hægt að lesa í Fiskeldisfréttum 1, tölubl, 7. árg. en þar mynda þær eina heild. Málinu hefur síðan verið fylgt eftir og hafa verið birtar 13 greinar í Morgunblaðinu og Bændablaðin á tímabilinu frá október 2020 til lok ársins 2021 og er þær að finna í Fiskeldisfréttum 1. tölublað, 8. árgangur 2021.

Greinar sem fjalla um áhættumat erfðablöndunar

Á tímabilinu maí til október 2020 voru birtar tíu greinar í Bændablaðinu um Áhættumat erfðablöndunar sem gengur út á að úthluta framleiðsluheimildum og tryggja þannig fjárhagslega hagsmuni laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlenda aðila en hefur mjög takmarkað ef nokkuð með umhverfisvernd að gera. Allar greinarnar í þessum greinaflokki um áhættumat erfðablöndunar er hægt að lesa í Fiskeldisfréttum 2, tölubl, 7. árg. en þar mynda þær eina heild.

Í framhaldinu þótti ástæða til að fjalla sérstaklega um litlu laxastofnanna sem þurfti að fórna til að hægt væri að uppfylla væntingar um framleiðsluheimildir fyrir laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila til eldis á frjóum laxi í sjókvíum. Allar greinarnar í þessum greinaflokki er hægt að lesa í Fiskeldisfréttum 3, tölubl, 7. árg. en þar mynda þær eina heild.

Nýlega var send inn umsögnin Áhættumat erfðablöndunar í umhverfismati áætlana þar sem farið er yfir fjölmarga ágalla áhættumatsins.

Samfélagsmiðlar

Þann 4. apríl 2020 var komið upp Facebook síðu verkefnisins sem notuð verður til að kynna málið. Til að koma upplýsingum betur á framfæri og ná meiri framgangi í málið hafa verið og verða notaðar keyptar kynningar á samfélagsmiðlum.

Tölvupóstar

Um vorið 2021 var byrjað að senda tölvupóst til stækkandi hóps aðila er málið varðar:

  • Kynna framgang í samfélagsverkefni gegn spillingu.
  • Kynna greinar sem birtar hafa verið í fjölmiðlum.
  • Kynna einstaka kafla í greinagerðinni eftir sem rannsókninni miðar.

Hægt er að skoða og kynna sér samskiptin með að fara á næstu SÍÐU

Rannsókn

Þar sem ekki hefur tekist að fá framkvæmda opinbera rannsókna eftir að hafa reynt í um þrjú ár hefur Sjávarútvegsþjónustan ákveðið að fara út í samfélagsverkefni gegn spillingu sem felur í sér að rannsaka undirbúning, gerð laga um fiskeldi og vinnubrögðin eftir að lögin voru samþykkt. Gagnrýnd hefur verið sú spilling sem hefur átt sér stað við undirbúning og gerð laga um fiskeldi og jafnvel eftir að lögin voru samþykkt.  Málið snýst um meira en 100 milljarða króna fjárhagslegan ávinning. Meira hér

Niðurstöður vinnunar verður birt í rafrænni BÓK


Valdimar Ingi Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur

Tölvupóstfang: valdimar@sjavarutvegur.is