Slysasleppingin í Patreksfirði

Hinn 20.  ágúst 2023  var tilkynnt um gat á netpoka í sjókví hjá Arctic Sea Farm í Patreksfirði dótturfélaga Arctic Fish. Talið var að tæplega 3.500 eldislaxar hafi sloppið. Í lok ágúst var búið að veiða eldislax í ám á Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðvesturlandi. Um miðjan september hafði verið tilkynnt um 100 eldislaxa í veiðiám, október um 300 og í desember voru þeir orðnir rúmlega 400 talsins.  Engar ár með laxi eru í Patreksfirði og dreifðu eldislaxarnir sér því í laxveiðiár yfir stórt svæði.

Ummæli og viðbrögð

Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish gerði strax lítið úr slysasleppingunni sem vakti hörð viðbrögð andstæðinga sjókvíeldis. Þegar umfang og alvara málsins kom í ljós steig forstjóri félagsins fram og harmaði atburðinn og bauðst til að greiða kostnað við að fjarlægja eldislaxinn úr veiðiám. Málið vakti mikla athygli og umtal í  íslenskum fjölmiðlum, það var mótmælt á Austurvelli, á Alþingi Íslendinga var lagt til að banna sjókvíaeldi á laxi og málið fékk töluverða umfjöllun erlendis.

Skýrsluna má finna HÉR

Af þessum viðburði má læra

Það hafa fallið óheppileg ummæli og fram hafa komið óraunhæfar væntingar og af málinu má ýmislegt læra og bæta m.a. eftirfarandi:

  • Áfram slysasleppingar: Það þarf að vera skýrt að slysasleppingar úr sjókvíum koma alltaf til með að eiga sér stað svo lengi sem menn vinna við eldið enda mannlega mistök algengasta orsök sleppinga eins og í tilfellinu í Patreksfirði.
  • Vantaði viðbragsáætlun: Hið opinbera þarf að hafa fastmótaða viðbragðsáætlun í tilfelli slysasleppinga, með verklag hvernig á að standa að vöktun og fjarlægja eldislax úr ám. 
  • Tjónvaldur greiði: Laxeldisfyrirtæki sem veldur tjóni greiði allan kostnað til þeirra sem standa að hreinsunarstarfinu.
  • Það þarf að vera sáttartónn: Forsvarsmenn laxeldisfyrirtækja hafa sýnt hroka og gera lítið úr mögulegum umhverfisáhrifum slysasleppinga og auka þannig úlfúð enn frekar gagnvart greininni. 
  • Fyrir Íslendinga: Málið á að snúast um að skapa grundvöll fyrir atvinnuuppbyggingu í sátt við menn og náttúru í þágu Íslendinga og umræðan á ekki að snúast um að verja áhættumat erfðablöndunar sem úthlutar verðmætum í formi framleiðsluheimilda til fárra, mest erlendra fjárfesta. 
  • Það þarf að fjarlægja: Í máli matvælaráðherra kom fram að ,,það er ekki glæsileg framtíðarsýn að það séu froskmenn með skutulbyssur að sulla í ám hér fram eftir haust“.  Þannig mun það þó alltaf vera ef byggja á áfram upp sjókvíaeldi á laxi og markmiðið verður að koma í veg fyrir erfðablöndun.