Meðfylgjandi er umsögn Sjávarútvegsþjónustunnar (fylgiskjal 1) við drög að frumvarpi um lagareldi. Aðrar umsagnir má finna á samráðsgáttinni.
Jákvætt og neikvætt
Það er margt gott og jákvætt í frumvarp um lagareldi en annað þyrfti að útfæra betur. Það sem vekur sérstaka athygli:
- Flókið: Hve flókin útfærslan er og í því sambandi er m.a. bent á laxahluti (kafli VII), strok (VIII) og forsendubrest (64 gr.).
- Óréttlátt: Refsing með skerðingu leyfa/heimilda bitna einnig á starfsmönnum, þjónustuaðilum og nærsamfélaginu, s.s. vegna forsendubrests (64 gr.).
- Ekki dómtækt: Að refsiákvæði í sumum greinum frumvarpsins munu vart vera dómtæk ef málið fer fyrir íslenska dómstóla, s.s. ákveðnar greinar um strok (kafli VIII) og afföll (kafli IX).
- Óvissa: Oft er töluverð óvissa vegna fyrirhugaðra setningu reglugerða s.s. áhættumat erfðablöndunar (6 gr.), afmörkun smitvarnasvæða (11 gr.) og punktakerfi (58 gr.).
- Færa til eignar: Að vera með ótímabundin rekstrarleyfi (33 gr.), heimild til verðsetningar (120 gr.) og heimild til leigu laxahluta (kafli VII kafli) færir auðlindina íslenskir firðir nær því að teljast til eignar sem þá er í meirihlutaeigu erlendra fjárfesta.
Umsögn SFS
Umsögn Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) er mjög ítarleg með margvíslegum athugasemdum og ábendingum. Samtökin leggjast gegn því að frumvarpið verði lagt til þinglegrar meðferðar að óbreyttri mynd:
,,… Áður en þetta frumvarp getur orðið að lögum er því nauðsynlegt að gerðar verði á því nokkrar umfangsmiklar og mikilvægar lagfæringar, bæði að því er varðar efnis- og formreglur. Þær lagfæringar, sem samtökin leggja til, eru það margvíslegar að tæpast er raunhæft að þær verði gerðar við þinglega meðferð frumvarpsins. Samtökin leggjast því gegn því að frumvarpið verði lagt til þinglegrar meðferðar í núverandi mynd …“
Umsögn LV
Landsamband veiðifélaga (LV) kom með margar réttmætar athugasemdir þá helst er varða umhverfismál laxeldis. Áhugavert er einnig umsögn þeirra er tengist álitaefnum tengd eignarrétti:
,,Þrátt fyrir að fram komi í 24. og 38. gr. frumvarpsins að úthlutun smitvarnarsvæða og laxahlutar myndi ekki eignarrétt eru önnur ákvæði frumvarpsins til þess fallin að gefa sjókvíaeldisfyrirtækjunum réttmætar væntingar um að úthlutuð réttindi teljist einhvers konar eign. Einkum er um að ræða ákvæði um heimildir til framsals, framleigu og veðsetningar á laxahlut“.
Skynsamlegt að vinna málið betur
Það eru margir ósáttir við frumvarp um lagareldi og margar réttmætar athugasemdir og ábendingar. Ef vanda á til verka er mjög hæpið að það náist að vinna frumvarp um lagareldi nægilega vel til að klára á þessu vorþingi. Skynsamlegt er að hafa í huga hvernig til tókst með setningu laga um fiskeldi á árinu 2019 þar sem ákveðnar greinar hafa ekki verið innleiddar, s.s. er varðar reglugerð nr. 588/2020 um útboð eldissvæða.