Sjávarútvegsþjónustan hefur sent inn umsögn við stefnumótun í lagareldi, nú um afmarkaða þætti málsins (fylgiskjal 1).
Hvatakerfið
Varðandi hvatakerfi með breytingu á framleiðsluheimildum eftir frammistöðu er bent á að laxeldisfyrirtækjunum í meirihlutaeigu erlendra aðila hafa sankað að sér framleiðsluheimildum á síðustu árum sem ekki eru nýttar að fullu. Niðurskölun framleiðsluheimilda mun því:
- Íslensk fyrirtæki: Engu skila nema helst í skerðingu framleiðsluheimilda íslenskra fyrirtækja sem hafa sýnt hógværð við að sækja um framleiðsluheimildir á síðustu árum.
- Nærsamfélagið: Bitna á nærsamfélaginu og þjónustuaðilum sem munu þrýsta á að heimildir verði minnkaðar sem minnst til að viðhalda störfum og tekjum.
Mun líklegra til árangurs eru sértækar aðgerðir með að láta laxeldisfyrirtækin greiða gjald og þannig kemur refsingin strax til framkvæmdar.
Aðalfundur Strandbúnaðar
Á aðalfundi Strandbúnaðar þann 13. október síðastliðinn var farið fram á að gerð væri grein fyrir ástæðum þess að Gunnar Þórðarson framkvæmdastjóri félagsins mætir á fund stjórnskipunar og eftirlitsnefndar fyrir hönd Strandbúnaðar (Lagarlíf – eldi og ræktun) vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit. Þegar Strandbúnaður var stofnaður var markmiðið að félagið ætti að vera hlutlaus vettvangur og því spurt hvort hér sé verið að víkja út frá því sem upphaflega var lagt upp með við stofnun félagsins. Í fundargerð aðalfundar Strandbúnaðar kemur m.a. fram (fylgiskjal 2)
,,Jens Þórðarson formaður stjórnar svaraði því til að ekki væri sjálfgefið að mæting fyrir þingnefnd fæli í sér töku afstöðu, en hins vegar greindi hann líka frá því að ekki hefði verið fullt samráð milli stjórnar og framkvæmdastjóra um málið, sem vissulega hefði verið óheppilegt og aðilar hafi komið sér saman um að slíkt endurtaki sig ekki“.
Bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar
Þar sem ekki er svarað ástæðu þess að Gunnar Þórðarson mætti á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var ákveðið að senda fyrirspurn til nefndarinnar (fylgiskjal 3). Í bréfinu er m.a. spurt hvor stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi óskað eftir því við Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Strandbúnaðar að hann mætti á fund nefndarinnar fyrir hönd Lagarlíf – eldi og ræktun vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit. Ef svo er, hver var ástæðan fyrir því að hann var boðaður á fund nefndarinnar?