Stefnumótun í lagareldi: Aðgerðir sem bitna á nærsamfélaginu

Þann 4. október kynnti Matvælaráðuneytið stefnumótun fyrir lagareldi (fylgiskjal 1). Hér er um að ræða mun faglegri vinnu en í tilfelli stefnumótunar frá 2017 þar sem íslenskir fulltrúar erlendra fjárfesta voru leiðandi og vörðuðu leiðina sér og sínum til mikils fjárhagslegs ávinnings sem síðan var samþykkt á Alþingi Íslendinga á vorþingi 2019.  

Matvælaráðuneytið með heiðarleg vinnubrögð

Matvælaráðuneytið og þeir sem komu að skipulagningu þessarar stefnumótunar eiga heiður skilið fyrir að viðhafa heiðarleg vinnubrögð. Undirritaður hefur þó nokkrar athugasemdir og ábendingar og eru tvær þeirra teknar fyrir í fylgiskjali 2.

Laxeldisfyrirtækin ekki að standa sig

Stefnumótunin á árinu 2017 lagði grunnin að því að laxeldisfyrirtæki í meirihluta erlendra aðila þyrftu ekki að standa sig í umhverfismálum enda getur því fylgt verulegur kostnaður sem ekki hugnaðist laxeldisfyrirtækjum.   Niðurstaðan hefur einnig verið sú að slysasleppingar hafa verið tiltölulega tíðar og fjöldi laxalúsa á eldislaxi of mikill.  Afleiðingarnar fyrir laxeldisfyrirtæki meirihlutaeigu erlendra aðila hafa almennt ekki verið neinar enda ekki gert ráð fyrir því í fyrri stefnumótun þar sem brautin var vörðuð fyrir umhverfissóðana.

Bitnar á nærsamfélaginu

Í nýrri stefnumótun er lagt til hvatakerfi sem er mjög jákvætt. Ef rekstraraðili er t.d. með miklar slysasleppingar eða hátt hlutfall af laxalús á eldisfiski er gert ráð fyrir að minnka framleiðsluheimildir.    Ókosturinn við þessa útfærslu er að niðurskölun framleiðsluheimilda bitnar einnig á nærsamfélaginu, þjónustuaðilum og fleirum eins og reyndar núverandi fyrirkomulag áhættumats erfðablöndunar gerir.  Það hlýtur að vera sanngjarnara og heiðarlegra að láta eingöngu þá sem valda skaðanum fá refsinguna.

Fjölmiðlar fjalli um málið Í viðhengi er að finna Leiðbeiningar fyrir fjölmiðla nr. 7.  Stefnumótun í lagareldi: Aðgerðir sem bitna á nærsamfélaginu þar sem farið er yfir leiðir sem bitna eingöngu á laxeldisfyrirtækjum sem ekki er að standa sig í umhverfismálum. Fjölmiðlar eru hvattir til að fjalla um málið og hvernig fyrirhugaðar hvatakerfi getur haft neikvæð áhrif á nærsamfélagið. Velti þeirri spurningu fyrir sér hvort það sé sanngjarnt að nærsamfélagið taki refsinguna að hluta fyrir það eitt að laxeldisfyrirtæki á svæðinu er ekki að standa sig í umhverfismálum.