Lög um fiskeldi, áhættumatið og erfðablöndun á villtum laxi

Í júlí 2023 gaf Hafrannsóknastofnun út skýrsluna ,,Erfðablöndun villts íslensks lax (salmo salar) og eldislax af norskum uppruna“.   Það voru rannsökuð sýni úr 89 veiðiám og áhersla lögð á svæði í nálægð við sjókvíaeldi.  Niðurstaðan var að erfðablöndun á villtum íslenskum laxi hefur orðið við hlutfallslega lítið eldismagn.

Höfundur kom sem ráðgjafi að umhverfismati íslensks laxeldisfyrirtækis fyrir laxeldi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi og þar var lagt til í umhverfismálum laxeldis á árinu 2016 það besta sem þekkist erlendis á þeim tíma. Tillögurnar voru síðan útfærðar betur við umsögn við fiskeldisfrumvarpið 2018 í takt við þá framþróun sem hafði átt sér stað í Noregi. Tillögurnar fólu í sér í stuttu máli vöktun skv. norskri fyrirmynd og að fjarlægja eldislax úr veiðiám fyrir hrygningu. Þessari leið var hafnað í áhættumati erfðablöndunar gefið út af Hafrannsóknastofnun á árinu 2017 sem starfshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi lagði síðan til við stjórnvöld.

Skýrslan í pdf formi

Það hafa verið átök um tvær leiðir:

  • Íslenska leiðin: Leyfa eldislaxinum að hrygna með villtum laxi.
  • Norska leiðin: Fjarlægja sem mest af eldislaxinum fyrir hrygningu á haustin.

Íslenska leiðin var valin af Alþingi Íslendinga á árinu 2019 með innleiðingu á áhættumati erfðablöndunar sem úthlutar framleiðsluheimildum og hefur lítið sem ekkert með umhverfisvernd að gera. Afleiðingin hefur einnig verið sú að töluverð erfðablöndun hefur mælst skv. nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknastofnun hefur leikið lykil hlutverk við innleiðingu áhættumats erfðablöndunar og það vekur athygli að stofnunin:

  • Hefur lagt til að það megi erfðablanda villtan íslenskan lax. 
  • Hefur framan af lagst gegn því að farin verði sú leið að fjarlægja eldislax úr veiðiám.
  • Unnið á móti innleiðingu virkustu vöktunaraðferðarinnar, haustvöktun af einhverri ástæðu.
  • Virðist tala tveimur tungum með sérfræðinga sem eru hliðhollari laxeldi og aðrir sem hafa sterkari bönd til náttúrulegra laxastofna og umhverfismála. 

Í umræðunni hafa verið þrjár aðferðir til að lágmarka eða koma í veg fyrir að norskur eldislax nái að hrygna með villtum íslenskum laxi:  

  • Hindra uppgöngu eldislaxa í veiðiár, veiða í gildru og fjarlægja.
  • Bregðast strax við slysasleppingu, vakta nærliggjandi veiðiár og fjarlægja eldislax.
  • Haustvöktun, þar sem sjáanlegur eldislax er fjarlægður.

Stefnumótun á árinu 2017 gekk mikið út að tryggja fjárhagslegan ávinning laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila og lágmarka kostnað vegna umhverfismála.  Nú stendur yfir ný stefnumótun fyrir fiskeldi og fyrirhuga er að endurskoða lög um fiskeldi á vorþingi 2024. Væntingar er nú um að skynsamlega verði unnið með nýjum matvælaráðherra. Tekið verði á umhverfismálunum þannig að tryggt verði á erfðablöndun verði haldið í algjöru lágmarki.