Áhættumatið, forsendurnar og vöktunin

Í grein Ragnars Jóhannssonar rannsóknastjóra fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun í Bændablaðinu hinn 9. mars er fjallað um forsendur í áhættumati erfðablöndunar.  Þar er vísað til reiknilíkanna, stuðla og forsenda sem margir leikmenn eiga erfitt með að skilja.  Hér verður áhættumat erfðablöndunar útskýrt á mannamáli og jafnframt gerðar athugasemdir við forsendurnar og skort á vöktun til að afla áreiðanlegra gagna.

Forsendur áhættumatsins

Til einföldunar eru forsendum í áhættumati erfðablöndunar skipt niður í fjóra liði (mynd 1):

  1. Slysaslepping: Fjöldieldislaxa sem sleppa úr sjókvíum.
  2. Lifun í hafi: Fjöldi eldislaxa sem lifa af sjávardvölina og ganga upp í veiðiár.
  3. Dreifing í veiðiár:  Fjöldi veiðiáa sem eldislaxa gengur upp í og dreifing þeirra.
  4. Hrygning eldislaxa og lifun: Hvernig eldislaxi reiðir af í samkeppni við villta laxinn og erfðablöndun.  

Ákveðið hlutfall laxeldisseiða og blendinga (afkomenda villtra laxa og eldislaxa) ganga síðan úr veiðiánni til hafs og skila sér í mestu mæli í sömu á eða ár í nágrenninu. Þannig myndast hringrás ef engar mótvægisaðgerðir eru viðhafðar eða þær eru  ófullnægjandi.

Pdf skjal af greininni

Mynd 1. Einfölduð mynd af forsendum áhættumats erfðablöndunar. Svartar pílur sína dreifingu strokulaxa áhættumats erfðablöndunar í veiðiár á eldissvæðum á Vestfjörðum og gráu pílurnar þær ár með laxalykt sem ekki eru teknar með í áhættumatið.

Forsendur úthlutanna

Reiknilíkan áhættumats erfðablöndunar er notað til að ákveða framleiðsluheimildir til eldis á frjóum laxi á Vestfjörðum og Austfjörðum og fyrir einstaka firði/fyrirtæki.  Heildarúthlutun framleiðsluheimilda ræðast mikið af áætluðu umfangi slysasleppinga og lifun strokulaxa frá því þeir sleppa þar til þeir ganga í veiðiár.  Úthlutanir í einstak firði ákvarðast mikið af áætlaðri dreifingu strokulaxa sem koma af hafi og ganga upp í veiðiár, staðsetningu og fjölda veiðiáa í nágrenninu. Þannig að ef ekki er gert ráð fyrir neinni veiðiá í firðinum og mikilli dreifingu eldislaxa er hægt að úthluta miklum framleiðsluheimildum til fyrirtækja sem þar eru með laxeldi.  Það á t.d. við í tilfelli eldissvæða á sunnanverðum Vestfjörðum en þar gerir áhættumat erfðablöndunar ekki ráð fyrir að strokulax gangi upp í veiðiár.  Raunveruleikinn er því miður allt annar þar sem flestir strokulaxar ganga upp í veiðiár á sunnanverðum Vestfjörðum og mælist töluverð erfðablöndun þar eins og fram hefur komið í nýlegri skýrslu Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknastofnun breytti forsendum í líkani áhættumats erfðablöndunar á árinu 2020 sem ekki standast skoðun. Það ásamt forsendum í upphaflegu áhættumati frá 2017 verður betur tekið fyrir í fyrirhugaðri rannsóknaskýrslu höfundar ,,Áhættumat erfðablöndunar, tillögurnar, gagnrýnin og staðan“.

Vöktun ábótavant

Áreiðanleiki niðurstaðna úr reiknilíki áhættumats erfðablöndunar eru aldrei betri en þær forsendur sem stuðst er við. Það sem er gagnrýnisvert að frá því áhættumat erfðablöndunar var fyrst gefið út að það hefur ekki verið farið í að afla áreiðanlegra gagna með markvissri og skipulagðri vöktun nema á erfðablöndun. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til nokkrar aðferðir við vöktun, hluti þeirra flokkast að vísu ekki undir vöktun og aðrar ennþá á þróunarstigi. Þær vöktunaraðferðir sem hægt er að styðjast við þegar mat er lagt á hlutfall eldislaxa í veiðiám og stofnunin leggur til að nota hafa í mjög stuttu máli eftirfarandi annmarka:  

  • Rekjanleiki og DNA sýni foreldrafiska:  Hefur reynst vel og hægt hefur verið í flestum tilvikum að rekja strokulax til laxeldisfyrirtækis. Ein og sér gefur þessi aðferðafræði engar forsendur fyrir reiknilíkan áhættumats erfðablöndunar eins og það er uppbyggt í dag.
  • Vöktun lykiláa með Árvaka:  Aðeins til staðar í örfáum veiðiám á eldissvæðum og hefur þann annmarka að aðeins er vaktað yfir sumarmánuðina og þannig næst ekki að greina strokulax sem gengur upp eftir þann tíma.
  • Stroksýni úr veiddum/slepptum fiski: Ómarkviss sýnataka  yfir sumarmánuðina sem getur ekki ein og sér gefið upplýsingar um hlutfall eldislaxa í veiðiám.
  • Söfnun og greining hreisturssýna:  Lítil sýnataka eingöngu yfir sumarmánuðina sem gefur litlar upplýsingar um hlutfall eldislaxa í veiðiám.
  • Erfðagreining smáseiða: Getur gefið upplýsingar um hlutfall eldislaxa í veiðiám eða réttara sagt hlutfall erfðablöndunar. Gallinn er að hér er verið að meta erfðablöndun nokkuð sem ætti að koma í veg fyrir með öllum ráðum.  

Að lokum

Forsendur í líkani áhættumats erfðablöndunar eru ekki byggðar á traustum grunni og í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að ,,þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun hafi talið að nákvæmari gögn þyrfti þá breyttist áhættumatið töluvert til aukningar við endurskoðun þess árið 2020“.  Það segir í raun allt það sem segja þarf er varðar vinnubrögð Hafrannsóknastofnunar í þessu máli.

Vöktun er ábótavant og til að fá nægilega áreiðanlegar forsendur um hlutfall eldislaxa í veiðiám þarf að koma á haustvöktun a.m.k. í veiðiám á eldissvæðum. Í haustvöktun er farið í veiðiár að hausti fyrir hrygningu, villtur lax og eldislax talinn og eldislaxinn fjarlægður eftir atvikum. Af óþekktum ástæðum upplýsti Hafrannsóknastofnun ekki stjórnvöld um haustvöktun áður en lög um fiskeldi voru samþykkt á árinu 2019. Síðan af öðrum óskiljanlegum ástæðum hefur stofnunin síðan unnið á  móti því að  haustvöktun verði tekin upp að norskri fyrirmynd.