Áhættumat erfðablöndunar og fréttatilkynning Hafrannsóknastofnunar

Þann 9. mars 2023 birtist fréttatilkynning á vef Hafrannsóknastofnunar undir heitinu Áhættumat erfðablöndunar útskýrt:

“Valdimar Ingi Gunnarsson fer mikinn í Bændablaðinu þann 17. febrúar 2023 í gagnrýni sinni á Áhættumat erfðablöndunar og úthlutun stjórnvalda á heimildum til sjókvíaeldis á laxi. Valdimar sakar meðal annars Hafrannsóknastofnun um að ganga erinda erlendra fyrirtækja í þeim tilgangi að tryggja íslenskum fulltrúum þeirra mikinn fjárhagslegan ávinning. Lokun fyrir laxeldi í innri hluta Ísafjarðardjúps túlkar Valdimar sem beina aðför að hagsmunum fyrirtækja í íslenskri meirihlutaeigu. Valdimar fullyrðir jafnframt að áhættumatið hafi lítið sem ekkert með náttúruvernd að gera og að litlum veiðiám sé fórnað til þess eins að geta veitt erlendum aðilum eldisheimildir. Hann klykkir út með því að vitna í umsögn þess eðlis að með lögfestingu áhættumatsins hafi verið gefin lagaheimild til þess að erfðablanda íslenskan lax. Valdimar ýjar jafnframt að því að annarleg sjónarmið og spilling hafi ráðið för við úthlutun eldisheimilda. Þegar svo alvarlegar ásakanir eru lagðar fram á opinberum vettvangi gagnvart Hafrannsóknastofnun og starfsmönnum hennar, verður ekki hjá því komist að bregðast við með einhverjum hætti”.

Hér er verið að svara grein undirritaðs í Bændablaðinu og vitnað í andsvar í grein Ragnars Jóhannssonar rannsóknastjóra fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun í Bændablaðinu þann 9. mars 2023.  Ragnari Jóhannssyni er þakkað fyrir að svara grein minni ,,Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst?“ og vekja þannig athygli á málinu. Greinin birtist í Bændablaðinu þann 9.febrúar og á vefnum bbl.is þann 17. febrúar 2023.

Undirritaður hefur gagnrýnt opinberlega vinnubrögð Hafrannsóknastofnunar er varðar áhættumat erfðablöndunar allt frá árinu 2019 og er ferlið rakið í fylgiskjal 1.

Höfundur á ekki því að venjast að fá andmæli við alvarlegum athugasemdum er varðar undirbúning og gerð laga um fiskeldi og vinnubrögðunum eftir að lögin voru samþykkt enda oft skynsamlegt að segja ekki neitt.  Fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og grein Ragnars verður svarað lið fyrir lið í ítarlegri greinagerð í  sumar. Jafnframt verða birtar greinar í  fjölmiðlum um afmarkaða þætti málsins.

Meðfylgjandi er einnig til upplýsingar grein sem birtist nýlega í Bændablaðinu og ber heitið ,,Skýrsla Ríkisendurskoðunar, þöggunin og beiðni um opinbera rannsókn“ (fylgiskjal 2).