Leiðbeiningar fyrir fjölmiðla og takk fyrir að vekja athygli á málinu

Það hefur verið upplýsingaóreiða í umfjöllun í fjölmiðlum um hlutfallið á milli framleiðslumagns og hámarkslífmassa í fiskeldi. Í meðfylgjandi viðhengi eru gögn og heimildir til að auðvelda fjölmiðlamönnum að setja sig inn í málið og stuðla þannig að faglegri umfjöllun (fylgiskjal 1).  Fulltrúar laxeldisfyrirtækja telja að Ríkisendurskoðun ofmeti hlutfallið á milli framleiðslu og hámarkslífmassa. Margir kunna að spyrja sig af hverju er þessi umræða og af hverju er hún mikilvæg?  Svarið er í  raun einfalt, málið snýst um verðmæti eldisleyfa, verja það sem hefur áunnist og reyna fela þau mistök sem hafa átt sér stað.

Takk fyrri að vekja athygli á málinu

Vefmiðlinum bb.is er þakkað fyrir að vekja athygli á mínum skrifum í frétt þann 19. febrúar.  Í þessu samhengi er bent á að mín vinna fyrir stjórnvöld og Hraðfrystihúsið – Gunnvöru og Háafell í umhverfismatinu er forsenda fyrir því að undirritaður hefur getað stigið fram og verið með faglega gagnrýni og birt yfir 40 greinar í fjölmiðlum um málið. Fram kemur í vefmiðlinum:

,,Valdimar hefur lengi komið að fiskeldi hér á landi og hann var formaður starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem starfaði á árunum 2013-2014 og fjallaði um leyfisveitingar og eftirlit í fiskeldi. Ríkisendurskoðandi gagnrýnir ekki þann starfshóp“.

Það er eftirtektarvert að Ríkisendurskoðun gagnrýnir ekki þann starfshóp en í sjálfum sér ekkert óeðlilegt að það verði skoðað samhliða því að opinber rannsókn verði gerð á vinnubrögðunum við undirbúning og gerð laga um fiskeldi á árunum 2017-2019 eins og undirritaður hefur óskað eftir.

Umhverfismat  fyrir Háafell

Í umhverfismatinu var unnið faglega og heiðalega, en niðurstaðan var að valtað var yfir tillögur um vöktun og mótvægisaðgerðir sem höfðu það að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum m.a. af starfshópi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi sem skilaði af sér skýrslu á árinu 2017.  Tillögur tóku mið af því sem best þekktist erlendis á þeim tíma.  Þær  voru aftur á móti kostnaðarsamar sem allir voru ekki sáttir við og stjórnsýslan ekki tilbúin að taka undir á meðan á umhverfismatinu stóð. Fjölmiðlar eru hvattir til að kynna sér vinnu mínu í umhverfismatinu og þeirra aðila sem undirritaður er að gagnrýna.  Einnig eru fjölmiðlar hvattir til að skoða hvaða tillögur sem undirritaður vann við að leggja til hafa verið virkjaðar til að draga úr umhverfisáhrifum eldisins.  Jafnframt að fylgjast með á næstu mánuðum og árum tillögum um vöktun og mótvægisaðgerðir í umhverfismati Háafells sem verða innleiddar á næstu árum.  

Vinna fyrir ráðuneytið

Það var að beiðni ráðuneytis að undirritaður koma að skrifum á lögum og reglugerðum á árunum 2013-2015 en á þessum tíma var samhliða unnið við fjölmörg önnur verkefni eins og fram kemur á vefsíðu undirritaðs, sjavarutvegur.is  Fjölmiðlar eru einnig hvattir til að kynna sér mína vinnu fyrir ráðuneytið á þessum árum. Þegar starfshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vann að stefnumótun fyrir fiskeldi á árinu 2017 var undirrituðum snemma ljóst hvert stefndi sem síðan raungerðist.  Undirritaður stór þá frammi fyrir þeirri ákvörðun að stíga fram eða þegja eins og flestir hafa gert sem þekkja til málsins.  Það var þó ekki fyrr en á árinu 2019 að undirritaður hafði möguleika að stíga fram. Hvað finnst þér ágæti fjölmiðlamaður hefði ég átt að þegja eins og allir hinir sem þekkja vel til málsins?