Lög um fiskeldi og nýja leyfisveitingarkerfið

Laxeldisfyrirtæki stjórnarformanna Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða voru búin að koma núverandi leyfisveitingarkerfi í uppnám á árinu 2016 og vinnan fólst m.a. í því að útfæra nýtt leyfisveitingarkerfi.  Stjórnarformennirnir komu sér í starfshóp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi sem skilaði af sér skýrslu með hagstæðum tillögum fyrir laxeldisfyrirtækin á árinu 2017.  Kjartan Ólafsson og Guðmundur Gíslason stjórnarformenn fyrirtækjanna urðu þannig helstu ráðgjafar stjórnvalda og tillögurnar voru samþykktar á Alþingi Íslendinga á árinu 2019.  Útfærslan á leyfisveitingarkerfinu fyrir ný svæði er að Hafrannsóknastofnun ákveður skiptingu fjarða á grundvelli lífræns burðarþols og í framhaldinu eru ný svæði auglýst.

Pdf skjal af greininni

Það sem er til ráðstöfunar

Hér kunna að vera til ráðstöfunar u.þ.b. 65.000 tonna hámarkslífmassi í nýjum fjörðum og aukning í fjörðum þar sem nú er laxeldi.  Vandamálið er að áhættumat erfðablöndunar veitir ekki nægilegar heimildir til eldisins á frjóum laxi. Það væri þó hægt að úthluta heimildum til eldis á ófrjóum laxi, þannig hægt að blokkera svæðin tímabundið, vinna síðan að fá aukningu heimilda til eldis á frjóum laxi.  Viðfangsefni stjórnvalda yrði þá að það fengist lítið fyrir heimildirnar en verðmætin ykjust síðan mikið þegar leyfi fengjust til eldis á frjóum laxi.  Hér getur hugsanlega verið um að ræða verðmæti upp á um 70 milljarða króna þegar miðað er við núverandi verð á eldisleyfum á erlendum mörkuðum.

Tryggja sína sérhagsmuni

Það er því mikið eftir að slægjast, hagsmunir miklir og væntingar um mikinn fjárhagslegan ávinning.  Vinnan við útfærslu á nýja leyfisveitingarkerfinu fólst m.a. í að:

  • Koma í veg fyrir samkeppni: Aðeins eitt fyrirtæki gæti boðið í ný svæði og heimildir.
  • Takmarka samkeppni: Hafa lokuð útboð og takmarka fjöld tilboðsgjafa.
  • Setja hindranir: Setja skilyrði sem hentuðu betur laxeldisfyrirtækjum í meirihlutaeigu erlendra aðila.

Koma í veg fyrir samkeppni

Stefnumótunarhópurinn í sínum tillögum á árinu 2017 lagði til að að ekki yrðu settar takmarkanir á framleiðslumagn eða stærð einstaka laxeldisfyrirtækja.  Fiskeldis Austfjarða yfirtók fljótlega Laxa fiskeldi með samþykki Samkeppniseftirlitsins og þannig með öll eldisleyfi á Austfjörðum.  Arnarlax vann að yfirtöku á Arctic Fish sem m.a. var stoppað af Samkeppniseftirlitinu.  Varðandi útboð og aukningu heimilda í fjörðum með laxeldi er staðan sú að í flestum tilvikum er aðeins einn aðili sem kemur til greina og til hvers er þá verið að auglýsa.  Í raun eru þessir firðir þéttsetnir eldissvæðum frumkvöðla sem leyfi er fyrir eða í umsóknarferli.  Það er því ekki rými fyrir nýja aðila ef viðhalda á 5 km fjarlægðarmörkum á milli ótengdra aðila eins og gert er ráð fyrir í reglugerð um fiskeldi.

Takmarka samkeppni

Það vekur athygli að gefin er heimild til að vera með lokað útboð eins og fram kemur í reglugerð nr. nr. 588/2020 um útboð eldissvæða. Við vinnslu reglugerðar gerði Landsamband veiðifélaga athugasemd í samráðsgáttinni um að lög um fiskeldi gæfi ekki heimild til lokaðs útboðs.  Þvert á móti gera lögin ráð fyrir því að úthlutun eldissvæða skulu auglýst opinberlega.  Í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að þegar drögin eru lesin heildstætt er augljóst að æði mörg álitaefni geta risið, verði reglugerðin samþykkt óbreytt.  Af einhverjum ástæðum var lítið sem ekkert tekið tillit til athugasemda og var reglugerðin gefin út efnislega óreytt. Hverjir réðu  ferðinni við skrif á reglugerðinni í ráðuneytinu?

Setja hindranir

Í lögum um fiskeldi er varðar mat á tilboðum kemur m.a. til skoðunar upphæð tilboðs, reynsla af fiskeldisstarfsemi, fjárhagslegur styrkur og mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað rekstur sinn. Það er ljóst að fyrirtæki sem nú eru í meirihlutaeigu erlendra aðila hafa mikla reynslu af fiskeldisstarfsemi og standa mjög sterkt m.t.t. fjárhagslegs styrkts.  Hér er m.a. um að ræða Arnarlax  og Fiskeldis Austfjarða sem hafa fengið gefins eða ódýr eldisleyfi sem erlendur hlutabréfamarkaður hefur verðlagt á um 80 milljarða króna. Verðmætamatið er því hátt og sýnir framá hve mikil verðmæti hafa verið afhent þessum aðilum og það er því vandséð hvernig ný íslensk fiskeldisfyrirtæki eiga að geta keppt við erlendu laxeldisfyrirtækin, að óbreyttu.  Þar til viðbótar er búið að girða að mestu fyrir úthlutun auðlindarinnar til nýrra aðila og tryggja samkeppni.

Lokaorð

Lokaorð
Engar úthlutanir höfðu átt sér stað nú í byrjun ársins 2023 enda um óréttlátt og gallað úthlutunarkerfi að
ræða sem stjórnsýslan ber ábyrgð á. Matvælaráðherra er nú að vinna að stefnumótun fyrir fiskeldi, en þeirri vinnu hefur seinkað af einhverjum ástæðum. Ríkisendurskoðun er að taka út stjórnsýslu fiskeldis og vonandi mun stofnunin koma auga á og upplýsa um þá spillingu sem hefur einkennt vinnubrögðin við undirbúning og gerð laga um fiskeldi og setningu reglugerðar um útboð eldissvæða.