Lög um fiskeldi – Þöggunin og verkefni fyrir fjölmiðla

Nú er komið í hámæli þau ófaglegu vinnubrögð og spillingin sem hefur einkennt vinnuna við undirbúning og gerða laga um fiskeldi og eftir að lögin voru samþykkt.  Þar ber að þakka   matvælaráðherra og Ríkisendurskoðun. Það er umhugsunarvert af hverju það voru ekki fjölmiðlar sem komu þessu máli á hreyfingu þrátt fyrir fjölmargar og ítrekaðar ábendingar m.a. undirritaðs.  Vissulega var einn fjölmiðill duglegur að benda á spillinguna og á sá fjölmiðill þakkir fyrir sitt framlag.

Mikilvægt að málið verði ekki þaggað niður

Á vefsíðu Samfélagsverkefnis gegn spillingu (www.lagareldi.is) er bent á að á árinu 2019 hafi verið sent fréttatilkynning til fjölmiðla og þeir hvattir til að viðhafa faglega og góða rannsóknablaðamennsku við umfjöllun sína um þetta mál. Örfáir fjölmiðlar hafa síðan haft samband og óskað eftir viðtali en þeim hefur verið bent á og vísað til ofannefnds fréttabréfs.   Það er ekki ætlunin að koma fram í fjölmiðlum sem andlit þessa máls út, heldur að vekja athygli á málinu, upplýsa og hvetja fjölmiðlamenn til rannsóknablaðamennsku. Vissulega hafa fjölmiðlar takmarkaða möguleika á að sinna rannsóknarvinnu vegna takmarkaðra fjármuna en þetta er það stórt mál að það hefði átt að hafa forgang. Það hef undirritaður gert án þess að fá nokkra fjármuni úr ríkissjóði enda hefur mér blöskrað þetta mál í mörg ár.  Bent er á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar er tekið undir margt af því sem undirritaður hefur verið að gagnrýna á síðustu árum. Markvist hefur þó mín gagnrýni verið þögguð niður og þannig mun það eflaust vera áfram. Það veltur því að mestu á fjölmiðlum að koma í veg fyrir að þeir sem hafa mikilla hagsmuna að gæta takist að svæfa og þagga málið niður. Sumir, en ekki allir fjölmiðlar hafa sem betur fer tekið vel við sér út af þessu máli. 

Er RÚV í nöp við heila atvinnugrein?

Hér er vitnað í grein eftir Bergþór Ólason (fylgiskjal 1). Það er mikilvægt að fjölmiðill láti hin mismunandi sjónarmið koma fram í sinni umfjöllun.  Við þurfum ekki endilega að vera sammála því að það beri að leggja niður allt sjókvíaeldi á laxi en það skal haft í huga að margt af þeirra gagnrýni sem umhverfissinnar hafa komið með er réttmæt. Það má eflaust gagnrýni RÚV fyrir ýmislegt en það er dregið í efa að það eigi við í þessu tilfelli.  Bergþóri er bent á að það var m.a. valtað yfir hagsmuni eigenda lítilla veiðiá og umhverfissinna á Alþingi Íslendinga á árinu 2019 en erlendum fjárfestum var hyglað til að þeir gætu náð yfir 100 milljarða ávinningi í formi eldisleyfa. Í umræðum á Alþingi Íslendinga þann 19. júní 2019 kom eftirfarandi fram í máli formanns atvinnuveganefndar að virtist vera í andsvörum við þig: „ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um að löggjöf eigi að miðast almennt við lagaumhverfi þeirra sem hún á að ná til en ekki með einhverjum krúsindúllum til að mæta einstaka fyrirtækjum sem lobbíast á Alþingi“.

Nú er fjölmiðlum falið það verkefni að fá nánari upplýsingar um þessi ummæli Lilju Rafney Magnúsdóttir sem voru látin falla á Alþingi Íslendinga.

Hverjir réðu för í ráðuneytinu?

Í viðhengi er greinin Lög um fiskeldi og nýja leyfisveitingakerfið (fylgiskjal 2).   Í greininni er komið inn á hvernig uppleggið var til að koma í veg fyrir samkeppni, takmarka samkeppni og setja hindranir í nýja leyfisveitingakerfinu sem var samþykkt á Alþingi Íslendinga á árinu 2019. Einnig er bent á þann möguleika að hafa lokað útboð skv. reglugerð nr. 588/2020 um útboð eldissvæða. Bæði Landssamband veiðifélaga og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gerðu alvarlegar athugasemdir við reglugerðina en þrátt fyrir það var hún gefin út efnislega óbreytt.

Hér er verkefni fyrir fjölmiðla að fá svar við eftirfarandi spurningum:

  • Hverjir réðu ferðinni við skrif á reglugerðinni í ráðuneytinu?  
  • Af hverju var ekki tekið tillit til athugasemda Landssamband veiðifélaga og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi?