Beiðni um opinbera rannsókn
Í fyrri pósti hér að neðan kemur fram að þann 20. maí 2019 hafi undirritaður sent tölvupóst til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og allir alþingismenn fengu afrit. Þar var óskað eftir að gerð væri opinbera rannsókn vegna alvarlegra annmarka á vinnubrögðum starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi. Þessari beiðni var svarað með því að svara engu. Nokkrum sinnum var beiðnin ítrekuð við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í tölvupóstum og auglýst í fjölmiðlum án árangurs. Nú er farið fram á að forsætisráðherra beiti sér fyrir því að þessi rannsókn verði gerð (fylgiskjal 1). Hér ber sérstaklega að skoða hvernig fulltrúar erlendra fjárfesta í stefnumótunarhópnum gátu hannað leikreglurnar í gegnum opinbera stefnumótun, skjalfest í lögum samþykkt á Alþingi Íslendinga, sjálfum sér og sínum fyrirtækjum til fjárhagslegs ávinnings á kostnað annarra.
Fátt hefði átt að koma á óvart
Undirritaður sendi umsögn við fiskeldisfrumvarpið á árinu 2019 og sendi alþingismönnum einnig ítarlegar greinagerðir um málið og varaði þingmenn við að samþykkja frumvarpið. Í framhaldinu voru birtar um 40 greinar í fjölmiðlum og gerðar nokkrar rannsóknaskýrslur og skýrsla Ríkisendurskoðunar tekur undir margt af því sem þar kemur fram. Alþingismenn sem eru flestir aðilar málsins ættu því að vera fullkunnugt um þau vinnubrögð sem viðgengist höfðu og fátt hefði átt að koma á óvart við birtingu á skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Margir þingmenn flæktir í málið
Í fjölmiðlum hefur verið tilhneiging að kenna matvælaráðherra og ríkisstjórninni um það sem afvega fór en málið er ekki svo einfalt. Svandís Svavarsdóttir hefur að mörgu leiti staðið sig vel og verið að gera löngu tímabæra tiltekt í fiskeldismálum, vinna úr óreiðunni sem Kristján Þór Júlíusson skyldi eftir sig. Það eru margir þingmenn sem þurfa að fara í naflaskoðun og skoða sinn þátt í þessu máli. Það er ekki dregið í efa að þingmenn hafi almennt viljað vel við uppbygginu á öflugu laxeldi m.a. til að styrkja viðkvæmar byggðir og auka útflutningstekjur. Margt fór þó úrskeiðis og sumum tilvikum hafa alþingismenn jafnvel hugsanlega hreinlega verið blekktir.
Framhald málsins?
Það heyrist lítið í alþingismönnum og stjórnsýslan fer þá leið að taka undir athugasemdir Ríkisendurskoðunar enda vart annað hægt. Það hefur vakið athygli að umræðan og gagnrýnin í fjölmiðlum hefur sérstaklega beinst að stjórnsýslunni en takmarkað komið inn á ástæður fyrir því að við erum komin í þessa stöðu sem hófst með tillögum starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðaherra um stefnumótun í fiskeldi sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kynnti í ágúst 2017. Varðandi framhald málsins er líklegasta sviðsmyndin að alþingismenn, stjórnsýslan og aðrir þeir aðilar sem komið hafa að málinu og hagsmuna hafa að gæta svæfi það. Undirritaður mun aftur á móti halda áfram sinni vinnu á næstu árum, safna gögnum, setja í samhengi og upplýsa.
Fjölmiðlum bætt á póstlistann
Þann 11. júní 2019 sendi undirritaður póst til fjölmiðla og þeir voru hvattir til að kynna sér vel vinnubrögðin við undirbúning og gerð laga um fiskeldi, fjalla um málið og viðhafa faglega og góða rannsóknablaðamennsku við umfjöllun sína. Það hefur verið ákveðin vonbrigði að enginn fjölmiðill hefur gert það í neinu mæli nema Heimildin (Stundin) sem reyndar byrjaði að fjalla markvist um afmarkaða þætti málsins allt frá árinu 2017. Vonandi verður einhver breyting á því og fjölmiðlum er bent á að þeir geti nýtt þann gagnagrunn sem undirritaður hefur safnað í sinni rannsóknavinnu. Í þessum tilefni er tæplega 100 fjölmiðlamönnum bætt inn á stækkandi tölvupóstlista.
Fjölmiðlum leiðbeint
Það mætti gæta meiri fagmennsku í sumum fjölmiðlum við umfjöllun á þessu máli. Sumir þeirra sem hafa mikilla hagsmuna að gæta hafa reynt að gera lítið úr ákveðnum atriðum í skýrslu Ríkisendurskoðunar og benda einnig á meint vanhæfi. Fjölmiðlamenn eru almennt lítið inn í þessu máli og það getur verið erfitt að átta sig á staðreyndum málsins vegna stöðugs áróðurs ákveðinna aðila. Sú breyting verður nú gerð í mínu Samfélagsverkefni gegn spillingu að farið verður sú leið að upplýsa fjölmiðla, benda á gögn sem hægt er að styðjast við, hverja á að ræða við og jafnvel koma með tillögur að spurningum. Mikilvægt er að menn vinni faglega, heiðarlega og staðreyndir málsins séu ávallt upp á borðinu. Undirritaður mun leiðbeina og upplýsa fjölmiðla a.m.k. út þetta ár óháð því hvort upplýsingarnar verða nýttar eða ekki. Margt hefur verið reynt til að ná framgangi og verður því haldið áfram með að prófa stöðugt nýjar leiðir.