Arctic Fish – Leiðin til fjárhagslegs ávinnings
Í fylgiskjali 1 er að finna skýrsluna Arctic Fish – Leiðin til fjárhagslegs ávinnings. Vakin er athygli á því að fremst í skýrslunni er stutt samantekt sem gefur gott yfirlit yfir innihald og niðurstöður. Hér er um að ræða lýsingu og greiningu á starfsemi Arctic Fish allt frá því að fyrirtækið var stofnað fram á þetta ár. Skýrslan er hluti þeirra vinnu að kortleggja vinnubrögð sem viðgengust við undirbúning og gerða laga um fiskeldi til að fá betri heildarmyndina sem verður dregin saman í bókinni Lög um fiskeldi – ,,Þetta hefur eftirmála“.
Kallað eftir gögnum
Tvisvar sinnum hafa fengist gögn úr ráðuneytinu er varðar vinnu starfshóp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í stefnumótun í fiskeldi. Undirritaður þakkar þann velvilja og liðliðlegheit við afhendingu þessara gagna. Þau hafa m.a. komið að notum við að kortleggja samskipti Landsambands fiskeldisstöðva og stefnumótunarhópsins, sem verður næsta skýrsla sem birtist. Ástæða þykir nú í þriðja sinn að kalla eftir frekari gögnum (fylgiskjal 2).
Rannsókn á samruna
Í tölvupósti til ykkar þann 25. október 2021 var bent á að Samkeppniseftirlitið þyrfti að skoða laxeldi á Íslandi m.t.t. samkeppnislaga. Undirritaður stefnir að senda formlega kvörtun til Samkeppniseftirlitsins á næsta ári. Samkeppniseftirlitið hefur nú tekið jákvætt skref og er að rannsaka áhrif samruna móðurfélaga íslenskra laxeldisfyrirtækja (fylgiskjal 3). Ef lesin er skýrslan Arctic Fish – Leiðin til fjárhagslegs ávinnings þá má sjá hvers er að vænta að óbreyttu.
Grein ráðherra
Matvælaráðherra tók við erfiðu búi af fyrri ráðherra sem hafði með málefni fiskeldis að gera. Nýlega birti ráðherra stutta og hnitmiða grein undir heitinu Stillum áttavitann í fiskeldismálum en þar er að finna yfirlit yfir nokkur verkefni sem verið er að vinna að (fylgiskjal 4).