Arctic Fish var stofnaður árið 2011 af NOVO ehf. og Bremesco Holding Ltd., aflandsfélagi á Kýpur. Þegar mesta var, voru dótturfélög Arctic Fish fjögur; Arctic Smolt með seiðaeldishlutann, Arctic Sea Farm með sjókvíaeldishlutann og Arctic Oddi með slátrun og vinnslu. Jafnframt var tímabundið í rekstri félagið Arctic Land með eldi á bleikju. Á frumkvöðlaárunum (2011-2015) var Artic Fish með eldi á regnbogasilungi, afföll voru mikil og samanlagt tap á tímabilinu var um 1,5 milljarður ISK.
Í byrjun uppbyggingartímabilsins (2016-2020) var Arctic Fish komin með 6.000 tonna leyfi og í lok þess voru eldisleyfin komin upp í 17.100 tonn og áform voru um 14.800 tonn sem voru í umsóknarferli. Samanlagt tap á rekstri Arctic Fish á tímabilinu var um 2,4 milljarðar ISK. Á árinu 2016 kemur Norway Royal Salmon (NRS) inn sem hluthafi í Arctic Fish með 2,9 milljarða ISK framlag sem gaf 50% eignarhlut. Tilkynnt var á árinu 2020 að stefnt væri á erlendan hlutabréfamarkað og áður en það var gert juku eigendur verulega hlutafé sitt í félaginu.
Mikill viðsnúningur var á rekstrinum á árinu 2021 og var hagnaðurinn um 2,3 milljarða ISK. Artic Fish var skráður á erlenda markað í febrúar 2021, gengið var 61,2 NOK/hlut og var komið upp í um 90 NOK/hlut í lok ársins. Þegar félagið fór á markað eru notuð röng kynningargögn sem sýndu að umhverfisaðstæður á Vestfjörðum væru betri en þær eru í raun. Í hlutabréfaútboðinu kaupa íslenskir lífeyrissjóðir fyrir um 700 milljónir ISK eftir að erlendir fjárfestar voru búnir að margfalda virði eldisleyfanna og taka út mestan framtíðarhagnaðinn.
Um mitt ár 2022 er Arctic Fish komin með leyfi fyrir 27.100 tonna hámarks lífmassa og í umsóknarferli eru 4.800 tonn, samtals 31.900 tonn. Breyting stjórnvalda úr að miða við framleiðslu í hámarks leyfilegs lífmassa hafa aukið verðmæti eldisleyfa verulega hjá Arctic Fish og aukið mögulega framleiðslu um 7.000-10.000 tonn. Fyrri hluta ársins 2022 eiga sér stað mikil afföll í sjókvíum í Dýrafirði og drápust um 2.500 tonn af eldisfiski.
Stofnendur Arctic Fish, NOVO og Bremesco Holding Ltd., seldu allan sinn hlut í félaginu á árinu 2022. Bremesco Holding Ltd. selur fyrir 16 milljarða og nær að 3,6 falda þá fjármuni sem upphaflega voru lagðir í Arctic Fish. Síldarvinnslan kaupir fyrir 14 milljarða ISK og fær 34,2% eignarhlut. NRS fjárfesti fyrir um 7,7 milljarða ISK í Arctic Fish á tímabilinu 2016-2021 og er með rúmlega 50% eignarhlut. Verðmæti eldisleyfa eru um 20 milljarða ISK sem er tiltölulega lágt í samanburði við Arnarlax. Á árinu 2022 hófst yfirtaka Arnarlax á Arctic Fish. Sviðsmyndin getur verið að Arnarlax, Arctic Fish og Háafell verði sameinuð í eitt fyrirtæki með um 100 þúsund tonna framleiðslugetu, meiri veltu en Samherji og Síldarvinnslan samanlagt. Sameinað félag er búið að fá eldisleyfin fyrir lítið og þannig byggt upp sterka eiginfjárstöðu. Við útboð á nýjum leyfum verður erfitt fyrir íslensk félög að keppa um ný svæði og framleiðsluheimildir við sameinað félag sem er í meirihlutaeigu erlendra fjárfesta. Að óbreyttum gæti sameinað félag orðið með stærstu laxeldisfyrirtækjum í heimi ef umhverfisaðstæður verða hagstæðar og markaðsverð hátt.