Það hefur átt sér stað mikil aukning í fiskeldi á síðustu árum og útflutningsverðmæti eldisafurða námu um 35 milljörðum króna á síðasta ári. Vöxtinn má að mestu rekja til fjögurra laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðla. Það eru miklir hagsmunir undir og öflug hagsmunagæsla.
Spilling gagnrýnd
Gagnrýnd hefur verið sú spilling sem átti sér stað við undirbúning og gerð laga um fiskeldi og jafnvel eftir að lögin voru samþykkt. Í byrjun þessa árs hóf undirritaður að vinna í hálfu starfi við Samfélagsverkefni gegn spillingu. Tekið skal skýrt fram að höfundur nýtur ekki fjárhagslegs stuðning í þessu verkefni. Mér hreinlega ofbíður þau vinnubrögðin sem hafa verið viðhöfð og er það ástæðan fyrir því að stigið er fram. Opinber gagnrýni mín hófst fyrst í byrjun ársins 2019 og vegferðinni má skipta í þrjá áfanga:
Fyrsti áfangi – Beiðni um opinbera rannsókn (2019)
Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við frumvarp um fiskeldi, öllum alþingismönnum sendar ítarlegar greinagerðir um málið, ítrekað voru sendir tölvupóstar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og auglýst í blöðum þar sem hvatt var til opinberrar rannsóknar. Engin viðbrögð fengust við þessari beiðni. Jafnt voru fjölmiðlar hvattir til að fara í faglega rannsóknavinnu varðandi þetta máli. Eini fjölmiðilinn sem hefur sýnt málinu áhuga er Stundin sem hefur fjallað um afmarkaða þætti þess.
Annar áfangi – Upplýsingar til almennings (2020-2021)
Skrifaðar voru fjölmargar greinar til að upplýsa og vekja athygli á þeirri spillingu sem var viðhöfð við undirbúning og gerð laga um fiskeldi. Almennt var það verklag haft að tekin voru fyrir umhverfismálin í Bændablaðinu og spillingin í Morgunblaðinu. Jafnframt var málið kynnt á samfélagsmiðlum og fjöldi tölvupósta sendir til ákveðinna markhópa. Fjölmargir hafa haft samband og lýst undrun sinni á þeim vinnubrögðum sem hafa viðgengist, en enginn hefur fram að þessu lagt í að stíga fram og taka undir mína gagnrýni opinberlega.
Þriðji áfangi – Sjálfstæð rannsókn (2022-2023)
Það sem ekki var orðið við þeirri beiðni minni að framkvæmd yrði opinber rannsókn á spillingu við undirbúning og gerð laga um fiskeldi ákvað undirritaður að hefja umfangsmikla rannsóknavinnu í upphafi þessa árs. Seinna ákvað nýr matvælaráðherra að fá Ríkisendurskoðun til að framkvæma stjórnsýsluúttekt á málefnum fiskeldis. Úttekt stofnunarinnar verður væntanlega að mestu að skoða hvort markmið laga um fiskeldi hafi náðst og skila skýrslu í haust. Gert er ráð fyrir að rannsókn höfundar verði á töluvert breiðari grunni.
Þið félluð á prófinu
Snemma í minni vinnu var ákveðið að fara hefðbundnar leiðir til að koma athugasemdum á framfæri. Allir eiga að hafa sömu möguleika að koma sínum athugasemdum á framfæri óháð bakgrunni eða tengsla. Of mikil tengsli, skapar of mikla nánd og getur stuðlað að óheppilegu hagsmunapoti og spillingu sem mín gagnrýni gengur að stórum hluta út á. Það er nú fullreynt að hefðbundnar aðferðir skila litlu sem engu, enginn stjórnmálamaður hefur haft fyrir því að hafa samband við undirritaðan og þannig fallið á prófinu. Það er sérstaklega athyglisvert í því samhengi að undirritaður hefur unnið fjölmörg fiskeldisverkefni fyrir stjórnvöld m.a. komið að gerð laga og reglugerða.
Vinnan framundan
Á þessu ári verður unnið að því að skrifa rannsóknaskýrslur um einstök laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila og önnur mál er tengjast undirbúningi og gerð laga um fiskeldi. Rannsóknaskýrslurnar verða viðaukar eða vinnuskjöl við fyrirhugaða bók Lög um fiskeldi – ,,Þetta hefur eftirmála“. Vinnubrögðin við undirbúning, gerð laga um fiskeldi og jafnvel eftir að lögin voru samþykkt hafa lagt grunn að áhugaverðri sögu sem mikilvægt er að festa á blað. Haft skal í hug að þetta mál hleypur ekki í burtu frá okkur og mun koma upp aftur og aftur á næstu árum og áratugum.
Aðrar aðgerðir
Samhliða rannsókn og skrif á bók verða beiðnir eða kvartanir sendar til ýmissa stofnanna. Kvörtun verður send til Samkeppniseftirlitsins er varðar hindranir settar m.a. af ákveðnum hagsmunaaðilum í lög og reglugerðir eða það sem er e.t.v. athyglisverðara hvernig íslenskir leppar erlendra fjárfesta komi í veg fyrir að hindranir væru settar sem hefðu komið í veg fyrir mikinn fjárhagslegan ávinning. Umboðamaður Alþingis hefur alltaf sýnt þá kurteisi að svara mínu póstum. Áfram verður reynt og umboðsmanni verður sent beinskeyttari og ítarlegri beiðni. Á seinni stigum rannsóknar minnar verður skoðað hvort vísa eigi málinu til lögreglu.
„Þetta hefur eftirmála“
Heiti bókarinnar ,,Þetta hefur eftirmála“ tekur mið af SMS frá Kjartani Ólafssyni, stjórnarformanni Arnarlax og fulltrúa í opinberum stefnumótunarhópi eftir að höfundur sendi inn athugasemdir við fiskeldisfrumvarpið snemma á árinu 2019. Því miður er þetta mál eitt af fjölmörgum sambærilegum málum þar sem ákveðnir aðilar hafa misnotað aðstöðu sína, sér og sínum til mikils fjárhagslegs ávinnings.