Hagsmunagæsla, stefnumótun og stjórnsýsluúttekt fyrir fiskeldi

Á árinu 2016 var stofnaður starfshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi. Það sem átti að vera stefnumótun stjórnvalda og greinarinnar varð að yfirtöku íslenskra leppa og erlendra fjárfesta á greininni til mikil fjárhagslegs ávinnings m.a. í formi eldisleyfa að verðmæti yfir 100 milljarða króna.   Hagstæðar tillögur íslenska leppa erlendra fjárfesta voru gefnar út í skýrslu árið 2017 og þær afgreiddar frá Alþingi Íslendinga sem lög um fiskeldi á árinu 2019.

Ný stefnumótun ráðuneytis

Matvælaráðherra er þakkað það frumkvæði að láta gera nýja stefnumótun fyrir fiskeldi. Bundnar eru miklar vonir um að nú verði faglega og heiðalega staðið að verki og mikilvægt að vandað sé til verka:

  • Vanda valið: Koma í veg fyrir að í starfshópnum séu aðilar sem eru eingöngu að vinna að sínum eigin hagsmunum til mikils fjárhagslegs ávinnings.
  • Vinna faglega: Koma í veg fyrir að íslenskir leppar komi sínum mönnum fyrir í ráðuneytinu.
  • Rýna: Til að koma í veg fyrir mikinn fjárhagslegan ávinning ákveðinna aðila innan starfshópsins á kostnað annarra sem ekki hafa aðgang að borðinu er mikilvægt að tillögurnar séu rýndar.
  • Setja hindranir: Mikilvægt er að innan ráðuneytis sé farið mjög vel yfir tillögurnar til að koma í veg fyrir að hagnaðurinn af auðlindinni fari að mestu úr landi.

Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar

Matvælaráðherra hefur farið fram á við Ríkisendurskoðun að framkvæma úttekt á stjórnsýslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og undirstofnana þess á sviði fiskeldis.  Af því fjölmörgu sem Ríkisendurskoðun þarf að rannsaka er m.a. eftirfarandi:

  • Framferði fulltrúa í stefnumótunarhópi: Gengið hefur verið hart fram að kveða niður með hótunum gagnrýni á ófagleg og óheiðalega vinnubrögð stefnumótunarhópsins.  Kortleggja þarf hverjum var hótað, í hverju hótunin fólst og metinn ávinningurinn af því að fara þessi leið.
  • Opinberum starfsmönnum hótað: Fram hefur komið að opinberum starfsmönnum innan leyfisveitingarkerfisins hefur verðið hótað.   Mikilvægt er að skoða hverjum var hótað og jafnframt hvort og þá hvaða ávinning þeir sem stóðu að hótunum höfðu.
  • Hafa opinberir starfsmenn verið misnotaðir?: Mikilvægt er að rannsaka samskipti á milli opinberra starfsmanna og íslenskra leppa erlendra fjárfesta. Hvort og þá hvernig óeðlileg tengsl hafi myndast, opinberir starfsmenn misnotaðir með það að markmiði að tryggja laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðili sem mestum fjárhagslegum ávinningi.
  • Ráðning opinberra starfsmanna: Mikilvægt er að skoða ráðningar opinberra starfsmanna í ráðuneyti sem höfðu augljóslega tengingu við leppa erlendra fjárfesta.  Skoðað verði hvort og í hvaða miklu mæli mikilvægar upplýsingar frá opinberum starfsmanni hafi lekið til íslenska leppa sem hafa unnið fyrir erlenda fjárfesta. 
  • Hagsmunapot: Skoðað verði hvort og þá hvernig fyrrverandi starfsmenn ráðuneytis sem unnu að stefnumótun fyrir fiskeldi nýttu sínar innanhúsupplýsingar í þágu laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila til fjárhagslegs ávinnings.
  • Stjórnmálamenn misnotaðir?: Til að vinna með íslenskum leppum hafa verið fengnir fyrrverandi stjórnmálamenn og jafnvel núverandi til að vinna að fjárhaglsegum ávinningi fyrir laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila. Mikilvægt er að skoða hvort og þá hvernig óheppileg tengsli hafi átt sér stað við áhrifamikla aðila sem koma að mikilvægum ákvörðunartökum er varða málefni fiskeldis.

Hér er almennt tekið til orða og á það m.a. að vera hlutverk Ríkisendurskoðunar að horfa yfir sviðið og rannsaka málið sem óháður fagaðili.

Íslenskir leppar erlendra fjárfesta

Það hefur margt jákvætt verið gert og sett í lög er varðar hagsmunagæslu.   Þær reglur virðast þó ekki ná yfir íslenska leppi erlendra fjárfesta. Það er varla við hæfi þegar fulltrúar opinbera nefnda sem jafnframt vinna sem leppar erlendra fjárfesta ganga fram með hótunum þegar lögð er fram eðlileg og fagleg gagnrýni á tillögur sem setja á í lög. Í þessu samhengi má nefna framgöngu Kjartans Ólafssonar stjórnarformanns Arnarlax og fulltrúa í opinberum stefnumótunarhópi. Framganga Kjartans bar góðan ávöxt og er hann nú að öllum líkindum orðinn milljarðamæringur.

Pdf skjal af greininni í Morgunblaðinu 16.05.2022