Í byrjun þessa árs hóf undirritaður að vinna við Samfélagsverkefni gegn spillingu í hálfu starfi (fylgiskjal 1). Málið varðar spillingu við undirbúning og gerð laga um fiskeldi og jafnvel eftir að lögin voru samþykkt. Mín vinna gegn spillingu síðustu rúm þrjú ár hefur reglulega tekið breytingum (fylgiskjal 2).
Ekki leigupenni
Að gefnu tilefni er hér tekið fram að undirritaður er ekki leigupenni fyrir ákveðna aðila eða þiggur greiðslu fyrir þessa vinnu. Mér hefur hreinlega ofboðið þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð allt frá árinu 2017. Það voru tveir slæmir valkostir, þ.e.a.s. gera ekki neitt eða stíga fram sem ég taldi betri valkost.
Vinnan framundan
Gert er ráð fyrir mun ítarlegri rannsókn og vinnu en lagt var upp með í byrjun þessa árs sem felst fyrst og fremst í ítarlegum rannsóknaskýrslum. Það liggur í sjálfum sér ekkert á að birta bókina þar sem undirritaður hefur engan hagsmuni að gæta aðra en almennt gerist um íslenska skattgreiðendur.
Rannsóknaskýrslur
Nú hefur verið ákveðið að skrifa ýtarlegar rannsóknaskýrslur sem er lokið í tilfelli Arnarlax og hægt að sækja á vefnum (https://sjavarutvegur.is/?page_id=1017), skýrslur um önnur laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila verða birtar á næsta mánuðum. Jafnframt verða teknar saman fleiri rannsóknaskýrslur s.s. um Landssamband fiskeldisstöðva, en gert er ráð fyrir að Ríkisendurskoðun taki vel fyrir stjórnsýsluna í sinni úttekt sem matvælaráðherra hefur óskað eftir að verði framkvæmd.
Bókin
Stefnt er að því að skrif á rannsóknaskýrslum verði að mestu lokið á þessu ári sem stuðst verður við í skrifum á bókinni Lög um fiskeldi – ,,Þetta hefur eftirmála“ (fylgiskjal 3). Bókinni er ætlað að gefa heilstætt yfirlit yfir m.a. þau vinnubrögð og spillingu sem hefur viðgengst við undirbúning og gerð laga um fiskeldi og jafnvel eftir að lögin voru samþykkt. Gert er ráð fyrir að einstakir kaflar í bókinni fari að birtast í byrjun næsta árs og fyrsta rafræna útgáfa bókarinnar í heild sinni í lok ársins 2023.
Markhópar
Fjöldapóstur er sendur á ákveðna markhópa en í honum eru ekki fjölmiðlar, sem hafa staðið sig frekar illa í þessu máli fyrir utan Stundina. Það eru fjölmargar stofnanir sem koma að málefnum fiskeldis og eru þær undir nokkrum ráðuneytum. Opinberir starfsmenn sem eru að hætta hafa bent á að eðlilegra sé að senda á almennt póstfang ráðuneyta er málið varðar og undirstofnanir þess. Þessum póstföngum verður nú bætt við á ört stækkandi tölvupóstlista.