Undirritaður sendi öllum alþingismönnum bréf síðastliðið vor þar sem m.a. var vakin athygli á vinnubrögðum starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi. Starfshópurinn skilaði skýrslu 23. ágúst 2017. Af gögnum málsins má dæma að svo virðist sem ferlið hafi verið með eftirfarandi hætti:
Ákveðnir aðilar sóttu um fjölda eldissvæða til að koma sér í lykilstöðu.
Útbúnar voru viðskiptaáætlanir, eldissvæðin eru verðmæti og erlendir aðilar fengnir að borðinu.
Fulltrúar atvinnugreinarinnar með um 70% eldissvæða, tveir stjórnarformenn stærstu laxeldisfyrirtækjanna voru skipaðir í stefnumótunarhópinn.
Gefin var út stefnumótunarskýrsla með hagstæðum tillögum fyrir þá sem hlut áttu að máli.
Breytingar á lögum um fiskeldi nr. 71/2008 sem samþykkt voru á Alþingi Íslendinga í vor byggist að mestu á áðurnefndri skýrslu starfshópsins.
Ákveðin fyrirtæki fengu verulegan fjárhagslegan ávinning þegar lögin voru samþykkt.
Farið var formlega fram á það við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í vor að framkvæmd verði opinber rannsókn. Það virðist sem nefndin ætli ekki að svara þeim erindum sem beint hefur verið til hennar og það eitt út af fyrir sig, þ.e. að svara ekki erindum, er ámælisvert og hvorki í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga né vandaða stjórnsýsluhætti.