Vaki fiskeldiskerfi hf. er 30 ára gamalt hátæknifyrirtæki sem nú hefur fengið nýja eigendur. Bandaríska fyrirtækið Pentair Aquatic Eco Systems Ltd. hefur fest kaup á öllu hlutafé í Vaka og styrkir þar með stöðu sína á þeim mörkuðum þar sem Vaki hefur verið leiðandi afl um árabil. Stefnt er að fullnustu samninganna í nóvember næstkomandi.
Velta Vaka á árinu stefnir í tæpar 1.300 milljónir og hjá fyrirtækinu starfa nú 28 manns hér á Íslandi, auk 22 til viðbótar í dótturfélögum í Chile, Noregi og Skotlandi. Yfir 90% af umsvifum Vaka eru á erlendum mörkuðum og áherslan hér heima er á vöruþróun, þjónustu og sölu. Framleiðslan hefur að mestu leyti verið hjá íslenskum undirverktökum sem sinna bæði rafeindavinnu, stálsmíði og samsetningu af ýmsum toga. Helstu vörur Vaka eru fiskiteljarar, búnaður til stærðarmælinga á eldisfiski, ásamt dælum, flokkurum, fóðurkerfi og öðrum vörum fyrir iðnvætt fiskeldi. Sterk staða Vaka á helstu mörkuðum og öflug nýsköpun þar sem beitt er nýjustu tækni við myndgreiningu og tölvusjón, hefur vakið áhuga margra aðila, og er Pentair AES ekki fyrsta fyrirtækið sem sýnir Vaka áhuga.
Pentair (www.pentair.com), móðurfyrirtæki Pentair AES, er skráð í kauphöllinni í New York (NYSE) og hefur 30.000 starfsmenn í 60 löndum sem starfa m.a. innan orkugeirans, matvælaiðnaðar, vatnsmeðhöndlunar og fjarskipta og er veltan um 8 milljarðar dollara. Helstu vörur Pentair AES eru búnaður til vatnshreinsunar og auðgunar vatnsgæða, hönnun endurnýtingarkerfa fyrir fiskeldisstöðvar, vatnsdælur, fiskidælur og mælibúnaður af ýmsum toga. Stjórnendur margra stórfyrirtækja horfa til fiskeldis með miklum áhuga og vilja hasla sér völl í þeim mjög svo vaxandi iðnaði. Með kaupunum á Vaka opnast möguleikar á að samþætta sölu á vörum fyrirtækjanna og nýta sterka markaðsstöðu Vaka í helstu löndum laxeldis. Einnig horfa menn til þess að efla vöruþróun hjá Vaka og umsvifin munu að öllum líkindum aukast.
Kaup Pentair á Vaka, sem hafa haft nokkurn aðdraganda, eru mikil viðurkenning á stöðu og starfsemi Vaka undanfarin ár. Vaki, sem hlotið hefur bæði Nýsköpunarverðlaun Útflutningsráðs og Útflutningsverðlaun Forseta Íslands, hefur verið leiðandi afl í vöruþróun innan fiskeldis um allan heim í þrjá áratugi og býr yfir afar öflugum hópi starfsmanna. Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á rekstri fyrirtækisins hér heima og munu stjórnendur Vaka halda áfram að stýra rekstri þess eftir sameininguna, ásamt því að leiða sókn með nýjar vörur inn á þá markaði þar sem Vaki hefur verið leiðandi. Stjórnendur Vaka telja afar spennandi tíma framundan og hlakka til krefjandi verkefna með nýjum eigendum.