Þrílitna eldislaxar

postur- arctic

 

Eru tækifæri við framleiðsla á ófrjóum eldislaxi til að draga úr umhverfisáhrifum laxeldis?

Fjölföldun litninga er talin vera ein besta leiðin í dag til að búa til gelda einstaklinga.

Endurheimtur þrílitna laxa

Notkun á geldfiski mun ekki koma í veg fyrir að eldislax sem hugsanlega sleppur úr eldiskvíum gangi upp í laxveiðiár. Rannsóknir sýna þó að færri þrílitna hafbeitarlaxar skila sér af hafi og minni hluti þeirra ganga upp í veiðivötn í samanburði við frjóa laxa. Endur-heimtur þrílitna laxa voru minna en 25% af endurheimtum frjórra laxa og jafnframt skiluðu þeir sér seinna úr hafi. Fram hefur komið í rannsóknum í Noregi að um 2% eldislaxa í hefðbundnu laxeldi séu þrílitna. Í rannsóknum á hlutfalli þrílitna eldislaxa í norskum laxveiðiám hefur komið fram að hlutfallið er aðeins um 0,18%. Þ.e.a.s. um 10 sinnu færri ófrjóir eldislaxar skila sér í laxveiðiár en frjóir eldislaxar. Það má því draga verulega úr því að eldislaxar leiti upp í laxveiðiár með að gelda fiskinn.

Hrygningaratferli þrílitna laxa

Þrílitna eldislaxar sem sækja upp í veiðivötn eru smáir eða undir tveimur kílóum. Atferlisrannsóknir sýna að þrílita hængar hafa hrygningaratferli eins og frjóir hængar. Þeir geta því fengið frjóar hrygnur til að hrygna í fjarveru frjórra hænga. Aftur á móti benda rannsóknir til að þrílitna eldislaxar haldi sig á ósasvæðum og neðri hluta laxveiðiáa, en það er ekki  hægt að útiloka að einstakir fiskar sækji upp á hrygningarsvæðin. Þrílitna hængar geta frjóvgað hrogn en þau eru ekki lífvænleg og drepast afkvæmin á fóstursstigi. Það er því mælt með að nota hrygnustofna við framleiðslu á þrílitna eldislaxi.

Framleiðsla á þrílitna eldislaxi á Íslandi

Um 1990 voru gerðar fjöldi tilrauna við framleiðslu á þrílitna laxfiskum hér á landi, þannig að hugmyndin er ekki ný. Þá var hugsunin sú að draga úr tjóni vegna kynþroska með að framleiða þrílitna fisk. Á þessum tíma voru kynbætur á laxfiskum komnar mun styttra á veg og kynþroski olli oft verulegu fjárhagslegu tjóni. Mikil þekking er á Íslandi við framleiðslu þrílitna hrogna. Stofnfiskur framleiðir og flytur út þrílitna hrogn og er þekkt fyrirtæki á erlendum markaði. Fram að þessu hafa ekki verið gerðar tilraunir með eldi á þrílitna eldislaxi í sjókvíum á Íslandi.

Nánar er fjallað um tækifæri við framleiðsla á þrílitna eldislaxi til að draga úr umhverfisáhrifum laxeldis í síðustu Fiskeldisfréttum