Erlendir fjárfestar í íslensku laxeldi

IMG_1227Í síðasta tölublaði Fiskeldisfrétta er gert grein m.a. fyrir áhuga erlenda fjárfesta í íslensku laxeldi. Í greininni er einnig fjallað um afkomu laxeldisfyrirtækja og leyfisveitingum.

Það eru skiptar skoðanir um fjárfestingar erlendra aðila í íslensku sjókvíaeldi og sitt sýnist hverjum. Kosturinn er að með þeim fylgir fjármagn og einnig þekking.
Í Noregi þurfa fjárfestar að kaupa leyfi sem eru mjög dýr, oft meira en hálfur milljarður til að fá heimild til að vera með að hámarki tæp 1.000 tonna af fiski í eldiskvíum. Á Íslandi er greitt árlegt gjald sem er í dag um 2 milljónir króna fyrir 1.000 tonna framleiðsluheimild. Það er því augljóst að mun minna fjármagn þarf til að hefja eldi á Íslandi. Það eitt skýrir ekki áhuga norskra fjárfesta og hafa ber í huga að mjög erfitt er að fá leyfi í Noregi eins og staðan er í dag. Norskir fjárfestar sjá því Ísland sem áhugaverðan vakost í stöðunni.

Það eru skiptar skoðanir um möguleika sjókvíaeldis á Íslandi og margir spá greininni ekki vel og þetta muni fara eins og fyrri laxeldisbylgjur. Á sama tíma vilja aðrir hækka árlegt gjald fyrir leyfum og benda á að þau séu mun dýrari í Noregi. Það er að vissu leyti rétt. Norsk stjórnvöld gefa út fá ný leyfi, þá helst græn leyfi. Þrýstingur er á atvinnugreinina að leysa umhverfismálin áður en fleiri leyfi eru úthlutuð, þá sérstaklega vandamál er tengjast laxalús sem talið er að kosti greinina um 75 milljarða íslenskra króna á ári.

Unnið er að krafti að leysa umhverfismálin og er því líklegt að innat örfárra ára verði auðveldara að fá leyfi í Noregi og áhugi norskra fjárfesta fyrir íslensku sjókvíaeldi minnki. Aðstæður til laxeldis í Noregi eru betri en hér á landi og framleiðslukostnaður lægri. Það er því ekkert óeðlilegt við það að kostnaður við leyfi séu lægri á Íslandi. Varasamt er að hækka þau um of. Hafa ber í huga að íslenskir fjárfestar hafa sýnt greininni tiltölulega lítinn áhuga. Forsendan fyrir uppbyggingu laxeldis á Íslandi virðist því vera áframhaldandi áhugi erlendra fjárfesta og mikilvægt að huga að því eins og gert hefur verið fyrir aðrar atvinnugreinar sem byggja á fjármagni frá erlendum fjárfestum.